Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Afurðir eftir hverja kind aldrei verið meiri – en fé fækkar mikið
Mynd / Bbl
Á faglegum nótum 15. febrúar 2022

Afurðir eftir hverja kind aldrei verið meiri – en fé fækkar mikið

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason ráðunautur, Búfjárræktar- og þjónustusvið - eyjólfur@rml.is

Uppgjöri á skýrslum fjárræktar­félaganna fyrir árið 2021 er að mestu lokið. Þrátt fyrir mikinn kulda og lítinn gróður lengi vel vorið 2021 var fallþungi sláturlamba um haustið sá mesti frá upphafi, eða 17,7 kg að meðaltali.

Reiknaðar afurðir eftir hverja fullorðna kind voru 29,5 kg að meðaltali og aldrei verið hærri í sögu skýrsluhaldins sem brátt fyllir 70 ár. Reiknaðar afurðir voru meiri í öllum héruðum landsins en árið 2020 að Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu undanskildum þar sem sömu afurðir voru milli ára. Þegar fimm ára meðaltal hverrar sýslu er skoðað þá er aukning í afurðum árið 2021 hvað mest í Borgarfirði, Dölum og Rangárvallasýslu eða tæp tveggja kíló aukning á hverja kind.

Samhliða fækkun sauðfjár þá hefur þátttaka í skýrsluhaldi einnig dregist saman en tæplega 1.600 aðilar skiluðu skýrslum með 298.606 (315.748 - 2020) fullorðnar ær haustið 2021. Veturgamlar ær í skýrslu­haldinu voru 63.389 (64.978 - 2020). Í heild er fækkun um nærri 70.000 ær og 190 skýrsluhaldara frá árinu 2017 þegar fjöldi kinda í skýrslu­haldi var mestur.

Í skýrsluhaldi sauðfjár­rækt­arinnar eru skráðar um 95% af ásettum ám m.v. upplýsingar úr forða­gæsluskýrslum. Einhver bú eiga þó enn eftir að skila skýrsluhaldi og eru þau hvött til þess að ganga frá skýrslum hið fyrsta. Rétt er að benda á að þetta hlutfall heildarstofns í almennu skýrsluhaldi sauðfjár er einsdæmi á heimsvísu.

Bætt meðferð að vori samhliða betri beitarstjórnun að hausti er að skila þessum árangri að stærstum hluta ásamt aukinni frjósemi. Þegar lykiltölur um frjósemi eru skoðaðar nánar undanfarin ár hefur hlutfall kinda sem verða þrílembdar aukist talsvert og var 9,7% vorið 2021 en var 6,4% árið 2015. Yfir sama tímabil má einnig sjá að hlutfall geldra kinda er að aukast en það var 4,2% vorið 2021 en var 3,1% árið 2015. Þetta atriði þarf að skoða betur, sérstaklega ef hlutfall geldra kinda er að aukast vegna erfðafræðilegra áhrifa.

Afurðir árið 2021

Frjósemi hefur aukist hægt og bítandi undanfarin ár og var 1,85 fædd lömb á hverja kind. Hún er mest í Vestur-Húnavatnssýslu eða 1,93 fædd lömb á hverja kind. Þar er líka hvað hæst hlutfall af fleirlembum (13,6%) og hlutfall geldra kinda er undir landsmeðaltali. Af þeim tæplega 1.000 búum sem hafa fleiri en 100 fullorðnar ær eru 125 bú með 2 lömb fædd eða fleiri eftir hverja kind. Í þremur fjárræktarfélögum eru 2 lömb eða fleiri fædd að jafnaði, í fjárræktarfélagi Grýtubakkahrepps, Vestur-Bárðdæla og Hvammshrepps í V-Skaft.

Afurðir eftir fullorðnar ær voru 29,5 kíló eftir hverja kind árið 2021 sem er tæpu kílói meira en árið á undan (28,6 kg - 2020) og talsvert meiri en meðalafurðir síðustu fimm ára sem reiknast 28,3 kíló. Á meðfylgjandi mynd má sjá afurðir síðustu tveggja ára (2021 rauð súla, 2020 græn súla) sýndar eftir sýslum ásamt meðaltali áranna 2017-2021 (blá súla) í viðkomandi héraði. Alls náðu 5 bú með fleiri en 100 kindur því að vera með meira en 40 kg eftir hverja fullorðna kind og sífellt fleiri bú bætast í hóp afurðahárra búa.

Þannig voru nærri 30 bú með 37 kg eða meira sem í eina tíð var nóg til að ná toppsætinu.

Mestu afurðir í einu héraði árið 2021 voru í Strandasýslu en þær reiknast 32,4 kíló sem er talsverð aukning frá meðalafurðum á svæðinu á undanförnum árum. Reiknaðar afurðir teljast meiri í nær öllum héruðum en er mest í Kjósarsýslu, Borgarfirði, Dölum og Rangárvallarsýslu en þar aukast afurðir um nærri 2 kg eftir hverja kind milli ára.

Afurðaaukningin er nær ein­göngu fengin með auknum væn­leika lamba því hlutfall lamba sem koma til nytja að hausti stendur í stað. Reyndar hefur nytjahlutfall, þ.e. hlutfall lamba sem koma til nytja miðað við fædd lömb lækkað á síðustu árum og er núna kringum 88%. Fyrir 10 árum var þetta hlutfall kringum 90%. Að öllum líkindum á lækkun afurðaverðs stóran þátt í þessu því flestir sauðfjárbændur stunda aðra vinnu sem kemur þá niður á tíma þeirra til að sinna eigin atvinnurekstri. Hins vegar eru þarna tækifæri fyrir mörg bú til að bæta afkomu sína. Afurðir eftir veturgömlu ærnar aukast einnig milli ára eru 12,3 kíló (11,7 kg - 2020). Skiptar skoðanir eru meðal bænda um hversu mikla afurðakröfu á að gera á veturgamlar ær en of víða er ekki hleypt til gemlinga en það hlutfall er 13,6% á landsvísu. Á Ströndum og í Vestur-Húnavatnssýslu er þetta hlutfall vel innan við 4% enda eru reiknaðar afurðir eftir hverja veturgamla kind mestar á landinu í þessum tveimur sýslum, tæp 16 kg í Vestur-Húnavatnssýslu og 15 kg í Strandasýslu.

Ef eingöngu eru skoðaðar afurðir eftir veturgamlar kindur eru rúmlega 40 bú komin með 20 kg eða meira eftir hverja veturgamla kind.

Afurðahæstu búin

Afurðahæsta bú landsins árið 2021 er bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti, Biskupstungum með 45,2 kíló eftir hverja fullorðna kind og 24,4 kg eftir hverja veturgamla. Alls gera þetta því 41,7 kg eftir hverja skýrslufærða kind sem er frábær árangur. Næst á listanum er búið að Efri-Fitjum í Fitjárdal með 42,5 kg eftir hverja fullorðna kind og 21,1 kg eftir hverja veturgamla eða 38,7 kg eftir allar ær. Í þriðja sæti er svo bú Elínar og Ara á Bergsstöðum í Miðfirði með 40,3 kg eftir fullorðna kind og 26,4 kg eftir hverja veturgamla eða 37,8 kg eftir allar ær.

Í 1. töflu má finna yfirlit yfir 20 efstu búin haustið 2021 með fleiri en 100 skýrslufærðar kindur, raðað eftir reiknuðum afurðum eftir allar skýrslufærðar ær.
Árið 2013 var í fyrsta skipti birtur listi yfir „úrvalsbú“ í sauðfjárrækt, þau eiga það sameiginlegt að ná góðum árangri fyrir marga þætti og eru mörkin sett með tilliti til ræktunarmarkmiða í sauðfjárrækt. Búum hefur fjölgað á þessum lista á síðustu árum en á síðasta ári náðu 217 bú tilskildum lágmörkum.

Gæðamatið

Upplýsingar um tæplega 450.000 sláturlömb haustið 2021 eru í skýrsluhaldskerfinu. Meðal­fallþungi þeirra var 17,7 kíló sem er sá hæsti frá upphafi. (17,2 - 2020) og meðaltal síðustu fimm ára er 17,1 kíló. Meðaltal fyrir holdfyllingu 9,47 árið 2021 (9,29 - 2020), fimm ára meðaltal 9,20 og meðaltal fyrir fitumat 6,77 árið 2021 (6,65 - 2020), fimm ára meðaltal 6,57. Fita hefur því aukist hóflega samhliða auknum fallþunga sem er í takti við áherslubreytingar sláturleyfishafa í uppbyggingu verðskráa undanfarin ár.

Hæsta gerðarmat allra búa á landinu 2021 var hjá Sigfinni Bjarkarsyni í Brattsholti, eða 12,74 á 102 lömbum. Af búum með fleiri en 200 sláturlömb er hæsta gerðarmatið á Efri-Fitjum í Fitjárdal eða 12,13 á tæplega 1.600 sláturlömb sem verður að teljast einstakur árangur. Í 2. töflu má finna öll þau bú sem höfðu gerðarmat 11,2 eða hærra árið 2021 og fleiri en 200 sláturlömb.

Að lokum

Listar með öllu helstu niðurstöðum skýrsluhaldsins árið 2021 er hægt að finna á heimasíðu RML. Þar má einnig finna niðurstöður skýrsluhaldsins undanfarin ár. Árangurinn árið 2021 sýnir enn og aftur að ræktunarstarfið í sauðfjárrækt er að skila sér í auknum framförum.

Góður árangur í búskap næst með því að afla góðra upplýsinga og byggja ákvarðanatöku á þeim grunni. Þó margar ytri aðstæður ógni nú sauðfjárbúskap eru einnig spennandi tímar fram undan og rétt að hvetja bændur áfram til góðra verka búgreininni til heilla á komandi árum.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...