Ástin fiskanna
Þrátt fyrir að fiskar hafi kalt blóð lifa þeir fjörugu ástarlífi margir hverjir ef svo mætti að orði komast. Atferli þeirra við mökun er margvíslegt og sumir annast egg eftir hrygningu og jafnvel ungviðið líka.
Fyrir allmörgum árum kom út skáldsagan Ástin fiskanna eftir Steinunni Sigurðardóttur. Sú saga er ekki til umfjöllunar hér en titill bókarinnar er fenginn að láni sem fyrirsögn þessarar greinar. Hann leiðir hugann að því að fiskar, eins og önnur dýr og lífríkið allt, þurfa að hafa einhver ráð með að fjölga sér og viðhalda stofninum.
Æxlun fiska er fjölbreyttara og flóknara atferli en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Það er því við hæfi að fjalla um þetta efni hér enda skiptir miklu máli fyrir íslenskan sjávarútveg að vel takist til um stefnumót hængs og hrygnu og öll þeirra atlot. Fleiri þættir, svo sem aðstæður í umhverfi og afrán, ráða svo mestu um endanlega nýliðun fiskistofna en það er önnur saga.
Hér á eftir verða nefnd nokkur dæmi um hvernig fiskar fjölga sér með ýmsum hætti en sú upptalning er þó hvergi tæmandi. Fyrst verður þó vikið örlítið að líffræði fiska svona rétt til glöggvunar.
Fiskar á hrygningartíma. Teikning eftir Sigurð Inga Jensson. Myndin birtist áður í Fiskifréttum.
Ytri og innri frjóvgun
Frjóvgun á sér stað þegar svil nær að komast í tæri við egg. Í grundvallaratriðum er frjóvgun fiska skipt í tvennt: ytri og innri frjóvgun. Í fyrra tilvikinu eru eggin frjóvguð eftir hrygningu. Innri frjóvgun eggja í kvið hrygnu verður við einhverskonar samræði. Þá gýtur hrygnan frjóvguðum eggjum eða jafnvel lifandi afkvæmum. Ytri frjóvgun er einkennandi fyrir beinfiska en innri frjóvgun er þó ekki óþekkt hjá þeim en hún heyrir til undantekningar.
Innri frjóvgun er hins vegar einkennandi fyrir brjóskfiska, þ.e. háfiska og skötur. Kviðuggar hænganna mynda sæðisrennu (göndul) sem nýtist við samræði. Brjóskfiskar gjóta ýmist lifandi ungum eða frjóvguðum eggjum sem hafa um sig hylki úr hyrni, svonefnt pétursskip. Nafnið er sótt til Péturs postula.
Kynfæri beinfiska eru tveir sekkir þar sem egg (hrogn) eða sæði (svil) myndast. Venjulega er talað er um hrogn þegar eggin eru enn í sekk í hrygnunni en egg þegar þeim er hrygnt. Sekkirnir eru litlir hjá ókynþroska fiski en þegar fiskurinn verður kynþroska bólgna þeir út af eggjum og svili. Þá er kominn tími til að leita á hrygningarslóðir.
Spinna sig upp í hamagangi
Þekktasta leiðin við mökun er sú að hrygnan hrygnir á botninn og hængurinn sprautar sviljum yfir eggin. Aðrir fiskar nudda kviðum saman og sprauta samtímis hrognum og sviljum út í sjóinn, þeirra á meðal eru þorskfiskar.
Þorskurinn er mikilvægasti nytjastofn á Íslandsmiðum. Í viðtali sem greinarhöfundur tók fyrir Fiskifréttir fyrir mörgum árum segir svo um atferli þorsks á hrygningarstöðvum:
Nokkru áður en hrygning á sér stað eru hængur og hrygna farin að synda hlið við hlið og þrýsta kviðunum saman af og til. Sjálf pörunin hefst með því að þau snúa sér saman nokkrum sekúndum áður en hrygning á sér stað. Þau klessa þá kviðum saman og hængurinn tekur utan um hrygnuna með eyruggunum. Gotraufarnar liggja þétt saman til þess að auka líkurnar á því að eggin frjóvgist. Þrýstingurinn er svo mikill að fiskarnir verða nær flatir og þeir spinna sig upp í miklum hamagangi í einskonar spíral. Þegar þessi leikur nær hámarki sprautast egg og svil út á sama tíma og eru hvað innan um annað til að auka líkur á frjóvgun.
Þrjú saman í faðmlögum
Loðna hrygnir hér við land á 10 til 90 metra dýpi. Hrygningarleikir loðnunnar eru mjög fjörugir. Rétt fyrir hrygningartímann aðskiljast kynin og þegar kemur að hrygningu synda hængarnir ótt og títt fram og aftur við botninn en hrygnurnar halda sig sér, gjarnan ofar í sjónum. Hængurinn er útbúinn þannig að hann er með loðna rák eftir endilangri hliðinni. Eyruggar og kviðuggar brettast einnig upp yfir hrygningartímann.
Þegar að hrygningu kemur fer hrygnan inn í hóp hænganna og er þá gripin gjarnan af tveimur körlum sem klemma hana á milli sín og halda henni þétt að sér og skorðast hún við loðkantinn og uppbretta uggana. Þrjú saman þeytast þau í faðmlögum eftir botninum í eina til tvær sekúndur, þyrla upp sandi og sprauta um leið eggjum og sviljum. Stundum fylgir bara einn hængur hrygnunni. Að mökun lokinni týna flestar hrygnur lífinu og talið er að allir hængar drepist.
Karfínn gýtur lifandi seiðum
Karfinn er mjög frábrugðinn öðrum beinfiskum að mörgu leyti varðandi æxlun og got; eggin frjóvgast við samræði og hann eignast auk þess lifandi afkvæmi. Hængurinn hefur lim sem gengur út úr kviðnum við samræði. Að mökun lokinni safnast hrygnurnar í stórar torfur sem halda áleiðis til gotstöðvanna sem eru í hafinu milli Íslands og Grænlands.
Þar sem gotan og eggin eru lítt þroskuð í hrygnunum við mökun geymist sæðið í gotunni uns eggin eru tilbúin til frjóvgunar. Eggin klekjast út á 4-6 vikum og gýtur hrygnan 37-350 þúsund seiðum í einu. Seiðin eru 5-7 mm að lengd við klak.
Dverghængar sem lifa sníkjulífí
Eitt sérstæðasta æxlunaratferlið meðal fiska er að finna hjá sædjöflinum. Þessi fiskur er ófrýnilegur að sjá og ber nafn með rentu. Stærstu hrygnurnar eru rúmlega 120 cm að stærð en hængarnir eru dvergvaxnir, aðeins 4-6 cm langir. Þeir lifa sem sníklar á hrygnunni og stundum eru fleiri en einn á þeirri sömu. Þá vantar augu, tennur og fleiri líffæri. Meltingargöng þeirra eru ummynduð, nema lifrin og kynfærin, en svilin fylla mestallt kviðarholið. Ungir lifa þeir sjálfstæðir en fullþroska hefja þeir sníkjulíf á hrygnunni. Dverghængur sem er gróinn fastur við hrygnuna fær alla næringu sína frá henni.
Kærleikur karla í fiskaríki
Yfirleitt verða egg og seiði fiskanna að sjá um sig sjálf eftir að í heiminn er komið. Þau eru sett út á guð og gaddinn! Það er þó ekki einhlítt. Athyglisvert er að í fiskaríkinu er það „karlinn“ sem er yfirleitt í umönnunarhlutverkinu, gætir eggjanna þar til þau klekjast og hugar jafnvel að ungviðinu fyrst um sinn.
Fyrstan skal frægan telja marhnútshænginn. Eggjum marhnúts er hrygnt í kekki við botninn. Hængurinn gætir þeirra af natni en þau klekjast á 5 vikum.
Um svipað föðurhlutverk rauðmaga og steinbíts hefur áður verið fjallað í sérstökum greinum í Bændablaðinu. Verður þeim því ekki gerð skil hér að öðru leyti en því að minnt er á að hængur steinbíts gegnir einstöku hlutverki. Hann hringar sig um hrognaklasa og gætir hans í nokkra mánuði þar til eggin klekjast út og neytir ekki fæðu á meðan.
Hængur hornsílis fær litskrúðugan búning á vorin og gerir hann hreiður á botninum úr jurtaleifum sem hann límir saman með slími. Meðbiðlar eru reknir burt en tilkippilegar hrygnur eru lokkaðar inn í hreiðrið. Þar hrygna þær hluta af sínum eggjum um leið og hængurinn frjóvgar þau. Síðan er hrygnan rekin á braut. Hreiðrið er varið af miklum krafti fyrir öllum óvinum.
Veisla í móðurkviði
Háfiskar eru fjölmargir og lífshættir breytilegir. Þeir eiga allir lifandi unga, nema að botnháfar gjóta ýmist ungum eða frjóvguðum eggjum líkt og skötur. Meðgöngutími háfiska er mislangur, ungarnir eru oft fáir og stórir en fjöldi þeirra getur þó verið mjög breytilegur eftir tegundum.
Hámeri er ein tegund háfiska sem vert er að staldra við. Meðgöngutími hennar er um 8 mánuðir. Fóstrin eru yfirleitt fjögur, tvö í hvoru legi, en geta verið 1-5 talsins. Fóstrin liggja laus í legi móðurinnar hvert í sínu hylki, þ.e. pétursskipi. Á fyrri helmingi meðgöngunnar framleiðir hrygnan mikinn fjölda smárra ófrjóvgaðra eggja sem er pakkað inn í pétursskip sem geta verið all að 7,5 cm löng. Þessir eggjapakkar eru síðan geymdir í leginu.
Þegar fóstrin eru um 4 cm löng losna þau út úr sínum pétursskipum en hafa notað mest af þeim fæðuforða sem var í kviðpokanum. Þau eru tannlaus og geta því ekki opnað hylkin með ófrjóu eggjunum. Skömmu síðar þegar fóstrin eru um 10 cm löng vex þeim tvær „vígtennur“ í neðra skolti sem þau nota til að rífa upp „nestið“ sem beið þeirra í leginu. Hefst nú mikil veisla þar sem fóstrin kýla sig út af eggjarauðum svo að kviðurinn verður útbelgdur. Þegar fóstrin eru orðin nærri 40 cm löng hættir hrygnan að framleiða þessa fæðupakka og fóstrin verða nú að lifa fram að goti á því sem þau náðu að éta af fæðupökkunum. Ungarnir eru um 60 cm við got og tæp fimm kíló að þyngd.
Skötur gjóta eggjum í pétursskipum
Fiskar af skötuætt gjóta eggjum sem eru í stórum ferköntuðum hornhylkjum – pétursskipum – og eru festiþræði í hverju horni. Mökun hjá skötu á sér stað á vorin og got að sumri. Egghylki eru 24 cm á lengd og 13 cm á breidd. Um leið og frjóvgun á sér stað byrjar hrygnan að mynda pétursskipið utan um frjóvgað egg úr hvorum eggjaleiðara fyrir sig og losar sig síðan við pétursskipin tvö í einu. Í fyllingu tímans að nokkrum mánuðum liðnum syndir skötuseiðið svo alskapað út úr pétursskipinu.
(Aðalheimild er bókin Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. Einnig stuðst við skrif Hjálmars Vilhjálmssonar um loðnu.)