Betri og stærri Yaris
Það er svolítið síðan að ég prófaði „smábíl“ svo að ég fór í Toyota og fékk að prófa nýjustu útgáfuna af Toyota Yaris bensínbíl, sjálfskiptan með 10 þrepa skiptingu og sagður eyða 5,7 lítrum af bensíni í blönduðum akstri á hundraðið.
Oftast læt ég um 100 km akstur duga, en þessi bíll var eitthvað svo náttúrulegur að eftir því sem ég keyrði lengra líkaði mér hann betur og betur og endaði í næstum 200 km akstri.
Fannst bíllinn sóða sig lítið út að aftan.
Stærri að innan og rýmri
Toyota Yaris er sennilega mest seldi smábíllinn á Íslandi síðustu 20 árin og alltaf jafn vinsæll, síðast prófaði ég hér í blaðinu Yaris með 90 hestafla dísilvél í apríl 2011, en sá bíll var einstaklega hagkvæmur í rekstri, eyddi litlu, gott að keyra og hefur reynst mörgum vel.
Yarisinn sem ég prófaði núna er með 1,5 lítra bensínvél sem á að skila 125 hestöflum. Það fyrsta sem ég tók eftir var hvað bíllinn var allur rýmri að innan, meira fótapláss og olnbogarými. Sætin góð og þá sérstaklega aftursætin. Farangursrýmið er gott miðað við stærð bíls og þar undir plötunni er varadekk sem ég kalla „aumingja“, en samt varadekk sem vantar orðið í of marga bíla.
Prufuaksturinn var lengri en til stóð
Ég byrjaði prufuaksturinn á innanbæjarakstri og eftir um 50 km akstur sagði aksturstölvan að mín eyðsla hafi verið 6,7 lítrar á hundraðið. Næst var um 70 km utanbæjarakstur (í töluvert miklum vindi), en þá var eyðslan mín 5,6 lítrar á hundraðið.
Þegar ég skilaði bílnum eftir tæplega 200 km akstur var mín meðaleyðsla 6,5 lítrar á hundraðið, nokkuð gott fannst mér miðað við veður og að uppgefin meðaleyðsla væri 5,9 lítrar á hundraðið.
Eins og áður sagði leið mér alltaf betur og betur í bílnum eftir því sem ég fór lengra. Fjöðrun góð og á malarveginum tók fjöðrunin vel hefðbundnar malarvegaholur. Aðeins var þó steinahljóð frá grófum vetrardekkjunum undir bílnum, einkum frá framdekkjunum (hef stundum kallað þetta steinahljóð upp undir bíla „baukahljóð“).
Hávaðamælingin kom vel út. Svona smábílar hafa yfirleitt mælst á bilinu 71-73db., en þessi mældist 70,9 db. á 90 km. hraða.
Mikið af nýjum öryggisbúnaði
Verðið á bílnum er ekki nema 3.980.000 sem mér finnst ekki mikið miðað við það sem í bílnum er. Bílnum fylgir 7 ára ábyrgð, akreinalesari og hraðastillir þannig að hægt er að fylgja hraðanum á næsta bíl á undan. Þá er í honum neyðarbremsubúnaður, blindhornsvari og ýmislegt fleira sem ekki var í eldri árgerðum af Yaris.
Það eru ekki margir neikvæðir hlutir sem ég sá við þennan bíl, en ég er samt aldrei sáttur við að þurfa alltaf að kveikja ökuljósin í hvert sinn sem ekið er af stað og að þurfa að muna að slökkva þau svo að loknum akstri. Fyrir mér ætti að banna bíla með AUTO takka fyrir ljósin því hann er í flestum tilfellum alltaf ólöglegur samkvæmt íslenskum umferðarlögum. Í akstri eru bara ljóstírur að framan og engin afturljós. Þegar maður er stopp og á að vera með stöðuljós eru engin afturljós og of sterk framljós.
Þó að ég kalli varadekkið aumingja þá er þessi bíll með dekk til að bjarga sér í neyð, en ég hefði viljað að allir bílar væru með fullbúið varadekk. Það er ekki vanþörf á slíku í akstri á holóttu íslensku vegakerfi.
Fannst bíllinn sóða sig lítið út að aftan.
Hægt að fá nokkrar útgáfur af Yaris
Toyota hefur í boði nokkrar útgáfur af Yaris, hybrid og ekki hybrid með bensínvélum frá 72 hestöflum upp í 125 hestöfl, en bíllinn sem prófaður var er með 125 hestafla bensínvél og ekki með neitt rafmagn til að hjálpa.
Hybrid Yarisinn er með 92 hestafla bensínvél og fer betur með eldsneyti og sagður eyða í blönduðum akstri 3,8 til 4,9 lítrum á hundraðið. Sá bíll er aðeins dýrari í innkaupum og örlítið þyngri.
Eini ókostur rafmagnsbílsins er að hann má ekki draga þyngra en 450 kg á meðan hinir Yarisbílarnir mega draga 850 kg kerru. Nánar má fræðast um Toyota Yaris á vefslóðinni www.toyota.is.
Mín skoðun er að það eigi að banna innflutning á bílum með AUTO takka, íslensk lög eru ekki í takt við þennan valkost.
Mjög sáttur við lokaniðurstöðuna á eyðslunni miðað við akstur í roki og rigningu.
Helstu mál og upplýsingar
Þyngd 960-1.180 kg
Hæð 1.500 mm
Breidd 1.745 mm
Lengd 3.940 mm