Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bændur í Skagafirði hafa orðið fyrir hverju stóráfallinu af öðru vegna niðurskurðar út af riðuveiki.
Bændur í Skagafirði hafa orðið fyrir hverju stóráfallinu af öðru vegna niðurskurðar út af riðuveiki.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 29. september 2021

Riða í Skagafirði

Höfundur: Halldór Runólfsson

Riðuveiki í kindum er sérstæður sjúkdómur að því leyti að smitefni hans, svokallað príon, er ekki lifandi og er mjög þrautseigt í umhverfinu. Príon eru prótein sem þola m.a. suðu, geislun, formalín og nær allar tegundir hreinsiefna nema klór. Af þessum sökum reyndist mönnum erfitt að hefta útbreiðslu riðu á árum áður, svo að veikin breiddist út um landið.

Sem dæmi má nefna að á áttunda og níunda áratug síðustu aldar voru tugir tilfella skráð á hverju ári og riðan var að valda bændum miklu tjóni vegna hárrar dánartíðni, sem í mörgum tilfellum var mun hærri en í öðrum löndum, þar sem menn reyna að lifa með sjúkdómnum. Þá var ákveðið að herða á aðgerðum gegn riðuveiki með niðurskurði og hreinsunaraðgerðum og síðan þá hefur tilfellum fækkað verulega.

Frá árinu 2011 til ársins 2014 greindust t.d. engin tilfelli sjúkdómsins. Það er því ljóst að þær mótvægisaðgerðir, sem ráðist hefur verið í, hafa borið árangur og tilfellum stórfækkað. Þó er riða enn að greinast á einstökum svæðum og nauðsynlegt að grípa til harðra aðgerða þar, svo að hin mikla barátta gegn riðuveikinni, sem hefur kostað bæði fjármuni og ekki síður tilfinnanlegt tjón sauðfjáreigenda, sem hafa þurft að skera sinn bústofn, verði ekki unnin fyrir gýg.

Riðuveiki var nú nýlega staðfest á bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði, sem er í Húna- og Skagahólfi, en í því hólfi greindist síðast riða á einum bæ árið 2020. Ekki er ólíklegt að fleiri tilfelli eigi eftir að greinast á næstunni á þessu svæði. Samkvæmt lista yfir riðuveikitilfelli á árunum 2001– 2021, sem finna má á heimasíðu Matvælastofnunar – www.mast.is, þá hafa 13 tilfelli greinst á undanförnum 20 árum í þessu hólfi og mörg þeirra í nágrenni þessa bæjar. Á síðasta ári greindist riða á nokkrum bæjum í Tröllaskagahólfi, sem eru rétt austan við varnarlínuna um Héraðsvötn og í nágrenni við nokkra bæi í Húna- og Skagahólfi, þar sem riða hefur greinst á undanförnum árum.

Víðtækur niðurskurður

Það er mín skoðun, að nú verði að bregðast við þessum nýjustu riðuveikitilfellum, með mjög afgerandi hætti, annars mun halda áfram að greinast riða á einum og einum bæ á svæðinu, samkvæmt reynslu undanfarinna áratuga. Skynsamlegast væri að fara í víðtækan og samræmdan niðurskurð á öllum bæjum í þessu hólfi, sem eru með sauðfé, og halda því fjárlausu í 2 ár, eins og fyrirskipað er. Það er mjög mikilvægt, að góð samstaða náist með öllum sauðfjárbændum á svæðinu, að fara í þessar aðgerðir, líka bændum þar sem riða hefur ekki enn greinst hjá, en þeirra bú teljast þá til áhættubúa. Gagnger hreinsun er nauðsynleg á öllum þeim bæjum þar sem skorið er. Það er einnig mikilvægt að öll fjárhús og nánasta nágrenni þeirra séu hreinsuð ítarlega á þeim bæjum sem ekki ætla að halda áfram og einnig verði skoðað hvort hreinsa þurfi á bæjum sem hættu fjárbúskap eftir fyrri niðurskurði. Þessa skoðun mína byggi ég á tveimur mjög vel heppnuðum og sambærilegum aðgerðum á undanförnum 30 árum.

Í fyrsta lagi var farið í niðurskurð á öllum bæjum í Héraðshólfi á miðjum áratug síðustu aldar, en þar hafði riða verið að greinast á einum bæ á eftir öðrum í nokkur ár. Ekki er annað vitað en að þessi aðgerð hafi heppnast vel, en þó kom upp eitt tilfelli í hólfinu 1997, sem tókst að einangra.

Í öðru lagi var farið í mjög umfangsmikinn niðurskurð í Biskupstungum á árunum 2003– 2004 og gerðir yfir 70 samningar við bændur. Þar hafði riða verið að greinast á nokkrum bæjum á undanförnum árum. Samstaða náðist við sauðfjárbændur á svæðinu að fara í þennan niðurskurð, í þeim tilgangi að stoppa frekara tjón af völdum riðuveikinnar. Við lok fjárlausa tímabilsins var gert sérstakt átak í hreinsunaraðgerðum, t.d. á bæjum sem ætluðu ekki að halda áfram búskap. Ekkert tilfelli hefur greinst á þessu svæði síðan og aflétting riðuhafta í Biskupstungnahólfi ætti með sama áframhaldi að geta orðið 31. desember 2024. Einnig má nefna niðurskurð á nokkrum bæjum á afmörkuðu svæði í sunnanverðum Hrunamannahreppi, sem farið var í árið 2003 í kjölfar riðutilfellis á einum bæ.

Enn fremur má benda á árangurs­ríkar aðgerðir til útrýmingar á fjárkláða á árunum 2002–2003 á svæði sem afmarkast af Miðfjarðarvarnarlínu í vestri og Héraðsvötnum í austri, að Vatnsneshólfi undanskildu. Í kjölfar margra bændafunda tókst almenn samstaða um þessar aðgerðir, þökk sé fræðslu og eftirgangsviðræðum þar að lútandi. Allt vetrarfóðrað fé var sprautað í tví- eða þrígang með sníkjudýralyfi og fjárhúsin hreinsuð og úðuð með skordýraeitri. Þessi aðgerð var svo endurtekin ári seinna. Ekki er vitað til þess að kláði hafi komið upp á þessu svæði síðan eða annars staðar á landinu og mun það einstakt í heiminum ef tekist hefur að útrýma fjárkláða af völdum kláðamaura og fjárlúsar.

Það er mikilvægt að taka fram, að ákvörðun um svona víðtækan niðurskurð í Húna- og Skagahólfi, eins og hér er lagt til, er aðeins hægt að taka að höfðu nánu samráði milli ráðuneytis, yfirdýralæknis, héraðsdýralæknis, ráðunauta og allra sauðfjárbænda og samtaka þeirra á svæðinu. Halda þarf bændafundi, þar sem ræddir eru kostir og gallar slíkra aðgerða og þá er mikilvægt að benda á reynslu bænda annars staðar á landinu, sem hafa gengið í gegnum sambærilegar aðgerðir. Þar þarf einnig að fara yfir hvernig niðurskurður og síðan hreinsunaraðgerðir ganga fyrir sig og ekki síst þarf að ræða kostnaðarskiptingu aðgerða, en hið opinbera greiðir slíkt að langmestu leyti. Mikilvægt er líka að tryggt sé að samningar við bændur geti gengið hratt og vel í kjölfar aðgerða. Jafnan er miðað við að bæta fjárhagslegt tjón eins og hægt er, en ekki er hægt að bæta tilfinningalegt tjón þeirra sem verða að sjá á eftir bústofni sínum í gröfina.

Sem dæmi um kosti slíkra aðgerða má nefna, að í Biskups­tungum hefur jafnan verið mikið af góðu fjárræktarfólki, sem endurnýjaði bústofn sinn með lömbum frá riðulausum og góðum sauðfjárræktarsvæðum, svo sem Öræfum og Ströndum. Nokkrum árum síðar voru nokkur bú komin með enn betri afurðir, en fyrir niðurskurð og sum búin urðu jafnvel meðal afurðahæstu búa á landinu.

Einnig má nefna sem jákvæðan hluta af niðurskurðarferlinu, að ítarleg hreinsun fer fram á viðkomandi búum og iðulega eru gamlir og úreltir kindakofar, sem ekki er hægt að sótthreinsa, jafnaðir við jörðu og sáð í sárin og þetta bætir ásýnd bæjanna og sveitanna. Það kemur einnig fyrir að í lok tveggja ára fjárlausa tímabilsins og að lokinni hreinsun, að það hentar ekki viðkomandi bændum að halda áfram með sauðfjárrækt, en geta þá notað hrein og sótthreinsuð útihús í öðrum tilgangi.

Niðurstaða

Með hliðsjón af ofangreindum atriðum þá tel ég, að hið allra fyrsta þurfi að taka ákvarðanir um víðtækan og samræmdan niðurskurð vegna riðuveiki á öllum bæjum sem eru með sauðfé í Húna- og Skagahólfi.

Halldór Runólfsson
Höfundur er fyrrverandi yfirdýralæknir og skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytinu.

Skylt efni: riða | riða í sauðfé

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...