Skurðasprengingar til framræslu
Framræsla votlendis þótti á sínum tíma mikið framfaraskref í landbúnaði til heilla og sveitum landsins mikil lyftistöng. Framfaratrú í kjölfar tækninýjunga var mikil og sjálfsagt þótti að bæta landkosti samkvæmt þeirra tíma mælikvarða. Ýmsar aðferðir voru reyndar og notaðar við framræsluna þar á meðal að sprengja fyrir skurðum með dínamíti.
Með því að ræsa fram votlendi er grunnvatnsstaða mýra lækkuð með því að leiða vatnið burt í skurðum eða ræsum. Við framræslu breytist gróðurfar landsins og heilgrös taka við af hálfgrösum og landið verður auðveldara til beitar og ræktunar. Annað sem ekki má vanmeta er að þurrt land er auðveldara yfirferðar og þeir sem hafa verið í sveit og þekkja mýrar vita hversu óþægilegt það er að vera nánast alltaf blautur á fótunum.
Alfred Bernhard Nobel.
Seinni tíma rannsóknir sýna að votlendi geymir mikið magn kolefnis og með því að ræsa fram eða afvatna landið losnar mikið magn koltvísýrings út í andrúmsloftið. Í dag snýst umræðan um votlendi um endurheimt þess til að auka kolefnisbindingu með því að fylla upp í skurði.
Vélvæðing
Fyrstu tilraunir til framræslu hérlendis voru gerðar fyrir tilstilli dönsku stjórnarinnar árið 1780 þegar hún veitti Stefáni Þórarinssyni amtmanni fjárstyrk til að reyna framræslu mýrlendis. Styrkurinn var til tveggja ára og gaf Stefán út leiðbeiningar um framræslu, „Stutt og einfaldlig undirvísan um vatns-veitingu af mýrum og þeirra meðferð, að þær beri gott gras“, í Riti Lærdómslistafélagsins árið 1781.
Á nítjándu öld var tækjakostur til framræslu takmarkaður og fólst aðallega í handmokstri með skóflum. Aukin tæknivæðing á fyrri hluta tuttugustu aldar átti eftir að breyta verklaginu til muna og gera mönnum kleift að ræsa fram og þurrka ómældan fjölda hektara af mýrum um alla heim.
Mýrarkalda
Framræsla mýra erlendis var ekki eingöngu framkvæmd til að auka uppskeru landsins því víða þar sem malaría var landlæg var framræsla hluti af baráttunni við sjúkdóm, sem olli dauða milljóna manna og aðallega barna árlega um allan heim, með því að eyða búsvæði moskítóflugunnar sem smitar fólk af malaríu eða mýrarköldu.
Framræsla með dínamíti í Missouri-ríki í Bandaríkjum Norður-Ameríku árið 1909.
Landbúnaðarsýningin 1921
Á Búsáhaldasýningunni sem haldin var í Vatnsmýrinni í Reykjavík árið 1921 kynnti A/S Norsk Sprængstofindustrie sprengiefni til notkunar í landbúnaði, Gröftedinamit, Landbruks-Stjeme-dinamit og Landbruks-Sikrit. Í Búnaðarritinu 1922 segir: „Tvær síðasttöldu tegundirnar eru aðallega ætlaðar til að sprengja grjót, en „Gröftedinamit“ til skurðgraftar, eins og nafnið bendir til.“
Nokkuð af sprengiefninu var til sýnis og var notkun þess sýnd í Vatnsmýrinni meðan á sýningunni stóð og á Vífilsstöðum eftir að henni lauk. Einnig var einhverju af sprengiefni útbýtt meðal sýningargesta, víðs vegar að af á landinu, sem höfðu sérstakan áhuga á að reyna það. Eitthvað sem erfitt væri að sjá fyrir sér í dag.
Notkun á Gröftedinamit
Samkvæmt því sem segir í Búnaðarritinu er Gröftedinamit notað á þann hátt að í miðlínu skurðarins, sem grafa skal, er stungið niður dínamítpatrónu, með vissu millibili, og í vissa dýpt. „Holurnar eru allar fylltar vatni, ef jörðin er ekki svo vot, að þær fyllist sjálfkrafa. Í næstsíðustu patrónunni í röðinni er síðan kveikt með hvellhettu og kveikiþræði. Springa þá allar hleðslurnar í einu, og þeyta skurðmoldinni upp og til hliða. Millibil hleðslunnar, dýpt og stærð, verður að haga eftir jarðveginum og stærð skurðanna.“
Dínamít gert klárt fyrir framræslu í Los Angeles 1924.
Eigi að gera mjög breiða skurði má setja tvær raðir með dínamíti og sprengja þær báðar í einu. Með þessari aðferð hafa verið sprengdir 175 metra langir skurðir, með einni kveikingu. „Tilraunir í Noregi hafa sýnt að 100 gramma hleðslur, með 40 cm millibili, settar 35 cm niður (neðri brún) hafa sprengt ca 2 m breiðan og 1 m djúpan skurð.“
Gröftedinamit var reynt í Vatnsmýrinni, skammt frá Gróðrarstöðinni. Mýrin sem sprengt var í er sögð hafa verið mjög rotin og laus í sér. „Þar heppnaðist sprengingin ekki vel, aðeins nokkur hluti skurðlengdarinnar, sem sett var niður í, sprakk við fyrstu kveikingu. Orsökin var, að líkindum, að sumar dínamítpatrónurnar hafa verið skemmdar.“
Á Vífilsstöðum var sprengdur tíu metra langur skurður með einni kveikju. Breidd skurðarins var um tveir metrar og dýptin um 80 sentímetrar. Hleðslurnar voru 100 grömm hver og þær settar niður með 40 sentímetra millibili.
„Þessar litlu tilraunir sýna ekki annað en það, að skurðsprenging getur heppnast hér í mýrum. Tilraunir með hleðslustærð og millibil þarf að gera í mismunandi mýrarjarðvegi, áður en sagt verður frekar um þetta. Einkum væri fróðlegt að vita, hvernig aðferðin reyndist í ristumýrum.“ Mýrar sem búið var að rista af torf ofan af til að nota í húsagerð eða reiðing.
Sprengt þar sem erfitt er að koma að tækjum
Erlendis voru skurðasprengingar talsvert notaðar til framræslu, sérstaklega ef ræsa þurfti land fram hratt og þar sem erfitt var að koma að tækjum. Aðferðin þykir tiltölulega ódýr og notuð enn í dag við vissar aðstæður.
Myndin líklega tekin á Hvanneyri á fimmta áratug síðustu aldar.
Í bandarísku tímariti, Farm Show, frá áttunda áratug síðustu aldar er viðtal við mann sem sérhæfði sig í skurðasprengingum og hafði haft atvinnu af þeim í rúman áratug en aðferðin er þekkt frá því í byrjun tuttugustu aldarinnar. Í viðtalinu segir að maðurinn hafi ferðast um Bandaríkin þver og endilöng sem sérfræðingur í notkun á sprengiefni í landbúnaði. Algengasta notkun á sprengiefni til skurðagerða er að sögn viðmælandans í landi sem erfitt er að koma að tækjum eða landi sem er of blautt fyrir stórar gröfur. Að hans sögn er best að sprengja rakan jarðveg skömmu eftir að frost er farið úr jörðu á vorin. Auk þess sem sprengjusérfræðingurinn segir að sá kostur fylgi skurðagerð með dínamíti að það sem upp úr skurðinum kemur dreifist yfir stórt svæði en liggi ekki á skurðbakkanum sem uppgröftur.
Tilraunir hérlendis
Doktor Bjarni Guðmundson, fyrrverandi prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, segir í bók sinni Yrkja vildi eg jörð, þar sem hann fjallar um ræktunarhætti í Íslandi, að skurðasprengingar hafi ekki valdið neinum straumhvörfum hér á landi. Hann segir að aðferðin hafi verið reynd á Hvanneyri á símum tíma og að sprengingarnar hafi komið að svipuðum notum hér á landi og erlendis en að það hafi varla svarað kostnaði að beita þeim.
Í bók Árna Eyland, Búvélar og ræktun frá árinu 1950, segir frá tilraun með skurðagerð með sprengiefni árið 1946. Þar segir að stórhækkað kaupgjald og skortur á mannafla hafi valdið auknum áhuga fyrir að nýta sprengiefni til skurðagerðar á ný.
„Verkfæranefnd gerði tilraunir með skurðasprengingu árið 1946 og hélt námskeið til að kenna verkið. Telur nefndin að 1 kg af sprengiefni sprengi 3,2 rúmm. af jarðvegi í skurði, sem verður 3 m breiður að ofan, 80 cm djúpur og með 60 cm botnbreidd. Sprengiefnið til að sprengja rúmm. kostaði þá um kr. 2,20. Þar við bætist vinna, sem er tiltölulega lítil.“
Árni segir að áríðandi sé að stinga vel og djúpt fyrir skurðinum sem sprengja skal. Hann segir að í stað þess að grafa fyrir skurðinum með skóflu sé best að gera það með kílplóg sem dreginn sé af traktor. „Ef rækilega er skorið fyrir, tryggir það mjög, að vel kastist upp úr skurðinum við sprenginguna og hliðar skurðarins verða miklu sléttari og jafnari en þegar lélega er stungið fyrir.“
Að sögn Árna er sprenging skurða bundin við verkefni sem ekki er þörf á fullkominni framræslu eða ekki er kleift að ráðast í hana, „eins og getur verið í högum og á engjum“ og bætir við síðar að „sprengdir skurðir eru engin framræsla til túnræktar, ef þeir eru ekki dýpkaðir til fullrar dýptar“ með skurðgröfu.
Nám í skurðasprengingum
Undir lok fjórða áratugar síðustu aldar gaf Verkfæranefnd ríkisins út leiðbeiningar um notkun skurðasprengiefnis og haldin voru námskeið í skurðasprengingum. Leiðbeiningarnar eru nákvæmar og þeim fylgja ítarlegar öryggisreglur.
Maður að sprengja fyrir skurði. Charles Rider, 1930. Olía á striga, 49,8 x 66 sentímetrar.
Skurðurinn
„Eftir að lega skurðarins hefur verið ákveðin, er miðlína hans stungin út. Breiddin að ofan mun á venjulegum skurðum hæfilega ákveðin um 3,0 m, eða 1,5 m til hvorrar handar frá miðlínu. Síðan er stungið fyrir með skóflu á venjulegan hátt. Hugsanlegt væri einnig að plægja fyrir skurðinum, t. d. með dráttarvél.“
Sprengiefninu komið fyrir
„Útbúa þarf stöng til þess að gera með holur þær sem sprengiefninu er komið fyrir í. Gott er að hafa til þess vatnsleiðslupípu, 1 1/2–2 þumlunga að innanmáli, setja járnbrodd í annan enda hennar, en sjóða þverstöng á hinn endann. Stöng þessi má vera um 1 m á lengd. Í blautum mýrum má einnig nota tréskaft.
Með stönginni eru gerðar holur í miðlínu skurðarins með 40–50 cm millibili, meira í blautum jarðvegi en þurrum. Þurfa menn að reyna fyrir sér um það á hverjum stað. Holan sé það djúp, að 10–30 cm verði frá yfirborði jarðar niður að sprengiefninu. Í hverja holu er sett eitt eða fleiri stykki af sprengiefninu í þá dýpt, sem áður er sagt. Má þrýsta stykkjunum niður með skafti, en gera verður það með varasemi og ekki með járni. Bezt er, að vatn sé í holunni yfir sprengiefninu. Að öðrum kosti skal með fætinum fylla holuna með jarðvegi. Loft má helzt ekki komast að. Ef mishæðir eru, þarf að láta meira sprengiefni í hæðirnar, 2–3 stykki í hverja holu, en í venjulegri blautri mýri mun almennt svara bezt kostnaði að nota aðeins 1–1/2 stykki í hverja holu, eða 2 stykki í aðra hverja holu og eitt í hina. Hvert stykki er % enskt pund að þyngd, eða um 225 g.“
Sprengingin
„Tekinn er púðurþráður, sem er um 50 cm að lengd. Öðrum enda hans er stungið inn í hvellhettuna og klemmt að með töng við op hvellhettunnar. Henni er síðan komið fyrir inni í einu stykki af sprengiefni. Skal bora fyrir henni með spýtu, sem hefur verið ydd, ekki með járni, svo djúpt, að hvellhettan hyljist. Loks er bundið fyrir ofan með snæri. Þessu stykki af sprengiefninu er komið fyrir einhvers staðar í miðlínu skurðarins á sama hátt og hinum. Nú er skorið upp í þann enda þráðarins, sem er frjáls, og kveikt í með eldspýtu. Þegar blossi myndast, eiga allir að flýta sér í burtu í 170 m fjarlægð. Við sprenginguna kastast jarðefnin hátt í loft upp, og megnið af þeim kemur niður í meiri eða minni fjarlægð frá skurðinum. Útjöfnun ruðnings verður því lítil.“
Afköstin
„Í blautri mýri verður skurðurinn nálægt 80 cm djúpur, sé eitt stykki sett í hverja holu, breiddin að ofan, samkvæmt áður. Sprengiefninu komið fyrir, 3,0 m, en botnbreiddin verður um 60 cm. Eftir þessu verður hver lengdarmetri í skurðinum um 1,44 m3. Í hvern m þarf við góð skilyrði 2 stykki af sprengiefninu eða um 450 g. Það svarar til þess, að 1 kg af sprengiefni rými um 3,2 m af jarðvegi. Sé IV2 stykki í hverri holu eða 1 í annarri og 2 í hinni, verður skurðurinn um 1,0 m á dýpt og breiðari í botninn.“
Trjástubbur fjarlægður með dínamíti til að ryðja skóg til ræktunar.
Verðið
„Sprengiefnið flyzt í trékössum, og eru 100 stykki í hverjum. Kassinn kostar í Reykjavík í útsölu um kr. 155.00 eða hvert kíló tæpar 7.00 krónur. Hver hvellhetta kostar 30 aura og hvert fet af sprengiþræði 20 aura. Hver teningsmetri í skurði kostar þá í efni um kr. 2.20. Í þurrum jarðvegi verður þetta eitthvað hærra. Geymsla. Geymslan skal vera hrein, þurr, köld, loftgóð, örugg og vel læst fyrir eldi. Hún skal vera í nokkurri fjarlægð frá byggingum, vegum og öðrum mannvirkjum. Kössunum skal stafla þannig, að vörumerkið snúi upp. Engar eldspýtur eða eldfim efni, t. d. olía, benzín, málning, mega vera í geymslunni. Ekki mega vera þar opin ljós.
Sprengiefnið þolir ekki mikinn þrýsting, og forðast skal að hafa eldfim efni innan 8 m frá geymslunni. Geyma skal sprengiþráð og hvellhettur á sama hátt, en ekki í námunda við sprengiefnið, ef það er varðveitt í sömu geymslu.“
Flutningur
„Ekki má flytja með sprengiefninu olíur, málma, eldfæri eða önnur efni, er gætu valdið sprengingu.“
Sjálfsagt að hlaupa frá skurðinum meðan beðið er eftir sprengingunni
Í fyrsta tölublaði og 14. árgangi Búfræðingsins árið 1948 fjallar Kristján Karlsson, skólastjóri á Hólum, um skurðasprengingar með eftirfarandi orðum.
„Í tvö undanfarin ár hafa verið sprengdir skurðir á Hólum. Fyrra vorið var stungið fyrir skurðinum með spaða á venjulegan hátt. Sprengingin heppnaðist víðast hvar vel. En á nokkrum stöðum, þar sem jarðlagið var einna seigast, bar á því, að skurðbarmarnir undu upp á sig og virtust hækka. Þetta mun stafa af því, að með fyrirstungunni hefur ekki náðst að stinga í gegnum reiðinginn og hann slitnað því í sundur í miðju skurðsins og flettzt upp á barmana, í staðinn fyrir að slitna sundur undir fyrirstungunni og þeytast í loft upp.
Í fyrra var plægt með jarðýtu fyrir skurðinum. Það var mikill vinnusparnaður.
Þá var einnig farið með kýlplóg eftir plógfarinu. Hann skar um 80 cm lóðréttan skurð niður. Á þessum kafla skurðarins heppnaðist sprengingin ágætlega. Barmarnir voru lóðréttir. En alveg ótættir. Þeir voru eins sléttir og þegar bezt er skafið með spaða og sneru hvergi upp á sig.
Ég tel víst, að hægt væri að fá smíðað bogið járn í kýlplóginn, sem gæti skorið fyrir skurðinum með fláa í allt að því eins meters dýpt. En væri skorið þannig fyrir skurðum, hygg ég að víða væri hægt að fá góðan árangur af skurðasprengingum.
Þær henta þó sérstaklega, þar sem hægt er að ná í vatn til þess að skola skurðinn með eftir sprenginguna. Ef vatnið er nógu mikið og góður halli á skurðinum, þarf ekkert að moka upp úr honum. Vatnið hreinsar skurðinn og dýpkar. Liggi skurðurinn gegnum þurran jarðveg, er til bóta að veita vatni á landið áður en sprengt er, svo að jarðvegurinn verði vatnsþrútinn þegar sprengja á.
Mér hefur virzt minnst af ruðningi falla niður í skurðinn, þegar hvass vindur stendur þvert á skurðstefnuna þegar sprengt er. Vindurinn bægir ruðningnum til hliðar.
En þá er sjálfsagt fyrir þá, sem vinna við sprenginguna, að hlaupa frá skurðinum í vindinn, meðan þeir bíða eftir sprengingunni, því að grastægjur og steinagnir geta borizt ótrúlega langt með vindinum frá stórri sprengingu.“
Kristján minnir einnig á nauðsyn þess að allir sem fáist við skurðasprengingar, eða notkun sprengiefnis á annan hátt, að kynna sér leiðbeiningar og varúðarreglur vel áður en verkið er hafið.
Landbúnaður með dínamíti. Handbók fyrir bændur.
Lítil ræktunarprýði
Í Yrkja vil eg jörð segir Bjarni Guðmundsson er hann sótti námskeið í skurðasprengingum á Hvanneyri árið 1962. „[. . .]Nú var kveikt í hvellhettunni og allir forðuðu sért hið bráðasta. Sprengjurnar sprungu hver af annarri við mikinn hávaða og dökkur jarðvegsstrókur steig hátt til lofts en féll svo dreifður til jarðar. Óneitanlega mikilfengleg sjón en ósköp var að sjá skurðinn sem myndaðist hafði: hann var sem jarðfall, tætingslegur og lítil ræktunarprýði; minnti meira á stríðsátakasvæði en friðsamlega túnrækt. [...]Líklega var þetta einn síðasti, ef ekki síðasta skurðasprengingin sem gerð var á Hvanneyri [...].“