Gömul saga og ný
Í niðurstöðum ráðuneytisstjórahóps matvælaráðuneytisins um fjárhagsvanda landbúnaðar 4. desember 2023 er minnst á afleysingaþjónustu bænda undir liðnum aðrar aðgerðir. Nú ríflega ári síðar hefur ekki verið lagt í þessa aðgerð þó að þörfin sé til staðar, ef marka má umræður á deildarfundum búgreina í lok febrúar og umfjöllun hér í blaðinu.
Umræður um afleysingaþjónustu fyrir bændur teygja sig nokkra áratugi aftur í tímann. Niðurstöður ráðuneytishópsins virðast vera það síðasta sem heyrðist af þessum málum hjá stjórnvöldum en fyrstu heimildir um þessa umræðu eru frá seinni hluta áttunda áratugarins.
Forfallaþjónustu í sveitum var svo komið á með lögum frá 1979 og tók hún til starfa um mitt ár 1980. Búnaðarfélag Íslands fór með yfirstjórn hennar í umboði landbúnaðarráðherra en Búnaðarsamböndin réðu starfsfólk, hvert á sínu svæði. Kváðu lögin á um að fastráða mætti allt að 60 manns til afleysingastarfa á hverju ári.
Ekki tókst að finna fólk í þessi störf og því var farin sú leið að heimili útveguðu fólk sem yfirvöld þurftu þó að samþykkja. Árin 1980 til 1985 var veitt fé af fjárlögum til þessa verkefnis en árin 1986 til 1988 var lagt fram fé frá Stofnlánadeild landbúnaðarins.
Notuð ársverk til afleysinga fyrir bændur voru 18 árið 1980 en þeim fjölgaði hratt og voru orðin 66,1 árið 1987. Hafa þarf í huga að árið 1987 voru lögbýli í landinu fleiri en þau eru nú.
Ný lög árið 1992
Árið 1989 er tekið til við að endurskoða lögin og farin sú leið að semja nýtt frumvarp. Það varð að lögum árið 1992. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að sú þjónusta, sem forfallaþjónustan veitir, verði stöðugt mikilvægari eftir því sem fólki fækkar í sveitum og erfiðara verði að treysta á aðstoð nágranna og skyldmenna ef hjálpar er þörf.
Gjald til að kosta starfsemi forfalla- og afleysingaþjónustunnar var tekið af allri búvöruframleiðslu í landinu.
Meginbreytingin frá fyrri lögum fólst í því að réttur hvers einstaklings miðaðist við vinnuframlag hans í stað þess að miða við hlutfall af heildartekjum.
Sömuleiðis fólst í þeim það nýmæli að forfallaþjónustunni var heimilt að taka upp samvinnu um skipulag og ráðningu starfsmanna við almenna afleysingaþjónustu sem rekin væri á vegum samtaka bænda eða hóps bænda.
Bændur þurftu enn fremur sjálfir að greiða fyrir afleysingar vegna orlofs en samkvæmt verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða var bændum reiknað orlofsfé og það innifalið í því verði sem þeir fengu greitt fyrir afurðir sínar.
Frumvarpið fól engin útgjöld í sér fyrir ríkissjóð þar sem allur kostnaður við framkvæmd þess greiddist af tekjum af búnaðarmálasjóðsgjaldi.
Þjónustan lögð niður 1994
Árið 1994 lagði landbúnaðarráðherra fram lagafrumvarp á Alþingi um að forfallaþjónusta í sveitum yrði lögð niður. Var þetta í samræmi við niðurstöðu nefndar sem í sátu fulltrúar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda auk fulltrúa ráðherra og skilaði áliti þetta sumar.
Forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum hafði starfað frá 1979 en framlag ríkisins til starfseminnar hafði verið fellt niður um nokkurt skeið og þjónustan eingöngu fjármögnuð með hluta af Búnaðarmálasjóðsgjaldi. Einstök búgreinafélög höfðu getað sagt sig frá forfallaþjónustunni og höfðu öll félögin gert það nema félög sauðfjárbænda og loðdýrabænda.
Lögin um forfallaþjónustu í sveitum voru felld úr gildi í lok árs 1994.
Sértækar aðgerðir í Covid
Afleysingaþjónusta stóð bændum áfram til boða næstu ár með einum eða öðrum hætti, oft á vegum Búnaðarsambandanna vítt um landið. Umræða um afleysingaþjónustu fyrir bændur hélt þó áfram að koma upp í ýmsu samhengi allt fram á síðustu ár. Á Búnaðarþingi 2018 var samþykkt ályktun um afleysingaþjónustu í landbúnaði þar sem stjórn Bændasamtakanna var falið að vinna að því að koma á fót afleysingaþjónustu fyrir bændur. Það var svo í Covid-heimsfaraldrinum sem gripið var til sértækra aðgerða út úr neyð.
Bændasamtök Íslands gerðu samkomulag, fyrir hönd sinna félagsmanna, við félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun um fjárstuðning úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga til að standa undir kostnaði félagsmanna við afleysingaþjónustu fyrir bændur sem veiktust af völdum Covid-19.
Nokkrir aðilar voru á viðbragðslista sem tóku að sér bústörf þegar þörf var á. Bændur áttu kost á að sækja um afleysingu að hámarki í 14 daga. Búnaðarsamböndin sáu um utanumhald.
Byggt yrði á fyrirkomulaginu í faraldrinum
Í kjölfarið komu fram hugmyndir um að byggja mætti afleysingaþjónustu fyrir bændur á þessari fyrirmynd. Heiðbrá Ólafsdóttir og Erna Bjarnadóttir, þáverandi frambjóðendur Miðflokksins til alþingiskosninga, lögðu til í grein hér í Bændablaðinu í ágúst 2021 að nota mætti Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einyrkja til þess að fjármagna afleysingar fyrir bændur:
„Til að greiða leið verkefnis sem þessa má benda á að Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einyrkja, sem er í eigu ríkisins, er fjárhagslega sterkur sjóður. Eigið fé sjóðsins í árslok 2019 nam kr. 1.102.139.632. Nánast engar útborganir eru úr sjóðnum. Stærsti hluti sjóðsins telst tilheyra bændum en auk þeirra greiða í sjóðinn sjálfstætt starfandi vörubifreiðastjórar og smábátasjómenn,“ sagði í greininni og enn fremur að fyrirkomulagið í Covid hefði gefist vel:
„Hér er komin fyrirmynd að lausn á þessu verkefni þar sem fjármunir sem safnast hafa upp í gegnum tíðina finna farveg og koma bændum til góða. Engin þörf verður á að setja upp enn eina stofnunina, þekkingin á viðfangsefninu er þegar til staðar hjá samtökum bænda. Bændasamtök Íslands hafa áður leitað möguleika til að fara þessa leið. Stuðningur sem þessi ætti að teljast til sjálfsagðrar félagsþjónustu, þegar veikindi eiga í hlut auk þess að vera öryggisatriði. Við teljum að Alþingi eigi að beita sér fyrir nauðsynlegri lagasetningu til að af þessu megi verða og munum beita okkur fyrir því á þeim vettvangi.“
Afleysingaþjónusta afar takmörkuð
Fátt hefur síðan heyrst af afleysingaþjónustu fyrir bændur þó að umræðan á deildarfundum búgreina í lok febrúar sl. bendi til þess að þörfin sé brýn. Það má sömuleiðis sjá á umsögn Bændasamtakanna um drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum 2023–2027.
Þar er bent á auknar áhyggjur innan bændastéttarinnar af atvinnutengdum sjúkdómum meðal þeirra sem starfa við landbúnað, m.a. kulnun og andlegum veikindum. Við skoðun á aðstæðum bænda kom fram að vinnuumhverfi þeirra er sérstaklega erfitt og krefjandi:
„Þannig þekki bændur ekki hugtök eins og styttingu vinnuvikunnar, helgar- eða sumarfrí. Lífsstíll og heimilislíf bænda er einnig samtvinnað vinnu þeirra með löngum og óreglulegum vinnustundum. Afleysingaþjónusta bænda er afar takmörkuð og mikið traust er lagt á nánustu aðstandendur eða næsta nágranna svo einhverjir áhættuþættir séu nefndir.“
Eins og fram kom hér í upphafi var svo, eftir því sem næst verður komist, síðast minnst á afleysingaþjónustu bænda undir liðnum aðrar aðgerðir í niðurstöðum ráðuneytisstjórahóps matvælaráðuneytisins um fjárhagsvanda landbúnaðar 4. desember 2023