Heimafólk lítt hrifið af áformum Zephyr
Matsáætlun um vindorkuver á Þorvaldsstöðum í Borgarbyggð er nú í skipulagsgátt. Í innkomnum umsögnum koma fram blendin viðbrögð heimafólks.
Zephyr Iceland hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir vindorkuver á Þorvaldsstöðum, Borgarbyggð. Opið er fyrir umsagnir um áætlunina í skipulagsgátt til 26. mars.
Zephyr Iceland (dótturfyrirtæki norska vindorkufyrirtækisins Zephyr) áformar að reisa vindorkuver í landi Þorvaldsstaða í sveitarfélaginu Borgarbyggð, með um 50–70 MW uppsett heildarafl, mögulega reist í áföngum. Gert er ráð fyrir að fjöldi vindmylla verði um 11–14 og að afl hverrar um sig verði 5–7 MW. Miðað við um 50 MW afl yrði árleg raforkuframleiðsla vindorkuversins um 180–190 GWst.
Hæð vindmylla er sögð verða 180–250 m á hæð. Þvermál vindmylluspaða er áætlað 150– 160 m. Þvermál á undirstöðum er áætlað um 25 m og stærð hverrar undirstöðu um 600 m2. Geymslusvæði hverrar vindmyllu er áætlað um 5.000 m2 að stærð. Vegir innan framkvæmdasvæðis verða malarvegir, alls sennilega um 8 km að lengd og um 4–4,5 m breiðir. Leggja þarf aðkomuveg frá Þorvaldsstöðum inn á fyrirhugað framkvæmdasvæði. Sá vegur getur orðið um 3–4 km langur.

á Þorvaldsstöðum, Borgarbyggð, af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði á
Hallkelsstaðaheiði í landi Þorvaldsstaða. Kort / COWI
Talsverðar vegaframkvæmdir
Í matsáætlun COWI fyrir Zephyr segir að Hallkelsstaðaheiði í landi Þorvaldsstaða sé talin vera tilvalinn staður fyrir vindorkugarð. Vísbendingar séu um að vindaðstæður þar séu góðar, ásýndaráhrif frá byggð hófleg og hægt er að tengjast raforkuflutningskerfi Landsnets þaðan.
Fram kemur að líklegast sé að höfnin við Grundartanga verði nýtt fyrir aðflutning á vindmyllum til landsins. Þaðan liggi Vesturlandsvegur og Borgarfjarðarbraut með bundnu slitlagi að gatnamótum Borgarfjarðarbrautar og Þverárhlíðarvegar. Frá gatnamótunum liggi aðkoma að fyrirhuguðum vindorkugarði á Hallkelsstaðaheiði um Þverárhlíðarveg og Hvítársíðuveg sem eru malarvegir sem gert er ráð fyrir að þurfi að styrkja. Á sjálfri heiðinni þurfi vegagerð til að komast að hverju vindmyllustæði og safnstöð raforku. Í matsferlinu verði einnig skoðað hvar unnt verður að koma fyrir tímabundinni aðstöðu verktaka sem og steypustöð ef þörf er talin á því.
Ítarlegri vindmælinga þörf
Vindmyllur eru sagðar verða tengdar við safnstöð raforku með rafstrengjum sem geti verið um 33 kV. Staðsetning safnstöðvar innan vindorkugarðsins hafi ekki verið ákveðin. Gera megi ráð fyrir að safnstöð verði um 5.000-7.000 m2 að flatarmáli. Gert sé ráð fyrir að leggja strengi og kapla meðfram vegum innan framkvæmdasvæðis eins og kostur er. Úr safnstöð raforku verði vindorkugarðurinn tengdur við flutningskerfi Landsnets. Sú tenging gæti orðið á bilinu 17–46 km að lengd eftir því hvaða tengivirki er um að ræða.
Segir enn fremur að val á staðsetningu fyrirhugaðs vindorkugarðs sé m.a. til komið vegna þess að náttúruleg skilyrði til þess að virkja vind virðist vera góð á svæðinu. Engin mannvirki séu á svæðinu í dag. Samkvæmt fornleifaskráningu séu engar friðlýstar fornleifar á svæðinu og hvorki skráðar heimildir né ummerki bendi til þess að snjóflóð eða aurskriður hafi fallið á framkvæmdasvæðinu.
Ítarlegri mælingar á vindafari séu nauðsynlegar. Til standi að mæla vindaðstæður í um 80 m hæð í minnst 12 mánuði og verði óskað eftir leyfi sveitarfélagsins til þeirra mælinga.
Neikvæðar umsagnir
Allmargar umsagnir höfðu borist í skipulagsgátt vegna matsskýrslunnar þegar Bændablaðið fór í prentun. M.a. frá Borgarbyggð. Þar er bent á að í gildandi aðalskipulagi skuli landbúnaðarsvæði ofan 300 m h.y.s. vera óbyggð mannvirkjum öðrum en fjallaskálum, neyðarskýlum og þeim sem tengjast raf- og fjarskiptaveitum. Í jaðri þess svæðis sem tilgreint er undir vindmyllugarð sé skilgreind vatnsvernd. Svæðið sé á náttúruminjaskrá og undir hverfisvernd í aðalskipulagi sveitarfélagsins.
Ekki sé framkvæmdaleyfi vegna efnisöflunar úr ætluðum námum og vegir beri ekki áætlaða flutninga vegna byggingar vindmyllanna. Borgarbyggð muni taka afstöðu til verkefnisins þegar vindlundir hafi verið settir í nýtingarflokk rammaáætlunar. Áhersla sé lögð á gott samráð við íbúa á svæðinu og aðra hagsmunaaðila sem mögulega geti orðið fyrir áhrifum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar.
Þá hafa íbúar í Borgarbyggð, auk fleiri aðila, sent inn umsagnir og eru þær flestar neikvæðar í garð fyrirhugaðs vindmylluvers. Það sé staðsett á svæði sem er á náttúruminjaskrá, er á óbyggðum víðernum, skarist við vatnsverndarsvæði, sé á hefðbundnu útivistarsvæði, miklu fuglasvæði og liggi undir fjölfarinni flugleið, svo nokkuð sé nefnt.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra segir í umsögn að vindmyllurnar yrðu væntanlega mjög áberandi í landslagi, muni sjást víða að og myndu þannig hafa veruleg sjónræn áhrif í Hrútafirði.