Ný tækni frá Hyzon Motors í geymslu vetnis í ökutækjum
Hyzon Motors fyrirtækið sérhæfir sig í smíði lausna fyrir notkun á vetni í efnarafala í ökutæki. Fyrirtækið, sem er með aðsetur í New York-ríki, gaf út tilkynningu í lok júlí að það hafi þróað nýtt vetnisgeymslukerfi sem geti dregið úr þyngd og framleiðslukostnaði atvinnubíla sem búnir eru efnarafölum fyrir vetni.
Hið nýja einkaleyfisvarða vetnisgeymslukerfi samþættir notkun á léttum efnum í tanka sem hafðir eru í grind úr málmi. Sagt er að slíkt kerfi sé um 43% léttara en hefðbundnir vetnistankar og kosti um 52% minna í framleiðslu. Þá séu um 75% færri íhlutir í þessu kerfi en öðrum vetnisgeymslukerfum sem nú eru notuð. Kerfið gefur auk þess möguleika á að vera með 5 til 10 mismunandi vetnistanka.
Nýja tæknin hefur þegar verið sett upp í flutningabílum í Evrópu og er reiknað með að hægt verði að bjóða þessa tækni í hvaða gerð vetnisbíla sem er á fjórða ársfjórðungi yfirstandandi árs 2021. Þróun þessarar tækni hefur farið fram á milli Hyzon Europe og Hyzon US, en fyrirtækið hyggst framleiða þetta nýja kerfi bæði í Rochester í New York og í Groningen í Hollandi.