Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar á herðum sér í nýrri ríkisstjórn. Stjórnarsáttmálinn mun vera ítarlegur og innihalda langan kafla um landbúnað.
Ráðuneytum verður fjölgað og málaflokkar færast að einhverju leyti milli ráðuneyta, m.a. munu málefni sveitastjórnar og skipulagsmál færast undir nýtt innviðaráðuneyti sem byggir á samgönguráðuneyti. Talið er næsta víst að Sigurður Ingi Jóhannsson stýri því. Ennfremur er gert ráð fyrir að formenn stjórnarflokka haldi sínum ráðuneytum.
Flokkarnir munu hafa skipt á ráðuneytum m.a. er lagt til að umhverfisráðuneytið færist undir Sjálfstæðisflokkinn og heilbrigðisráðuneytið verði á ábyrgð Framsóknarflokks.
Þingflokkar funda nú og kynna leiðtogar þeirra nýjan stjórnarsáttmála. Ef stjórnarflokkar fallast á tillögu formanna mun verða boðað til blaðamannafundar á morgun, sunnudag, þar sem ný ríkisstjórn verður kynnt.