Mikilvægi og ábyrgð sveitarfélaga við vernd líffræðilegrar fjölbreytni
Hver er staða líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum í dag? Lífríki heimsins hnignar hratt af mannavöldum. Raunar er talið að breytingarnar séu hraðari en áður hefur þekkst í jarðsögunni og nefnist yfirstand andi jarðsögutímabil mann öldin (Anthropocene) vegna yfirgnæfandi áhrifa mannsins á umhverfi jarðar.
Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni má einkum rekja til breytinga á landi og legi sem fylgja auknum fólksfjölda og auðlindanotkun. Forsendur fyrir mannlífi og öllu öðru lífi á jörðinni velta á að okkur takist að stöðva hnignunina. Viðfangsefnið snýst ekki einungis um áhrif á lífríki heldur hefur bein tengsl við mikilvæga hagsmuni mannsins eins og matvælaframleiðslu, vatnsgæði og jarðvegsvernd. Það eru engin önnur mál brýnni en að ná tökum á hnignun náttúrunnar.
Mikilvægt er að nálgast vandann á heildrænan hátt. Þannig er afar brýnt að samstilla viðbrögð við tapi líffræðilegrar fjölbreytni og hamfarahlýnun eins og Sameinuðu þjóðirnar leggja nú ríka áherslu á. Á fundi þeirra um líffræðilega fjölbreytni í Montréal 2022 (COP15) undirrituðu 196 þjóðir, Ísland þar á meðal, tímamótasamning um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Samningurinn felur í sér sundurliðun markmiða til að ná tökum á vandanum, m.a. að árið 2030 njóti 30% af láði og legi verndar og að maðurinn lifi í sátt við náttúru jarðar árið 2050. Við þetta tækifæri sagði aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, að þjóðir heims væru að fremja sjálfsmorð með umgengni sinni við náttúruna („we are committing suicide by proxy“).
Hvert er hlutverk og mikilvægi sveitarfélaga við vernd líffræðilegrar fjölbreytni?
Það þarf ekki ítarlega greiningu á íslensku samfélagi til að sjá að ábyrgð á varðveislu lands og þar með á líffræðilegri fjölbreytni liggur að miklu leyti hjá sveitarfélögum. Skipulagsvald sveitarfélaga gengur í mörgum tilfellum framar en álit fagstofnana sem fara með málefni náttúru og skipulags. Ákvarðanir um landnotkun sem teknar eru hjá sveitarfélögum ráða því miklu um hvernig tekst að sporna við hnignun náttúrunnar og á sama tíma hvernig lífsgæði verða í framtíðinni, en fjöldi rannsókna sýnir að fólk sem hefur greiðan aðgang að lítt spilltri náttúru lifir betra og innihaldsríkara lífi sem er lykill að farsælu samfélagi (Ann. Rev. Env. Res. 2013. 38:473–502). Skipulagsvaldinu fylgir því gríðarleg ábyrgð.
Viðvarandi þrýstingur er og verður á að auka landnýtingu og álag á náttúru en slíkt felst því miður í flestum nýframkvæmdum. Í þeirri stöðu er nauðsynlegt að hafa skýra forgangsröðun sem byggir á bestu þekkingu og tryggir viðeigandi vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Mikilvægt skref er að náttúruverðmæti sveitarfélaga séu þekkt og að tekið sé tillit til þeirra á fullnægjandi hátt. Eitt meginmarkmið skipulagslaga (123/2010) er einmitt „að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“.
Mörg mikilvæg mál hvíla á sveitarfélögum, til dæmis varðveisla landbúnaðarlands. Í þessu felst mikil áskorun því nær öruggt má telja að nauðsynlegt verður að framleiða meira af matvælum í náinni framtíð. Bara það að samræma nauðsynlega náttúruvernd og fyrirsjáanlega aukningu á útbreiðslu landbúnaðarlands er ærið verkefni eins og dæmi frá öðrum þjóðum sýna. Segja má að stýringarhlutverk sveitarfélaga varðandi landnotkun snúist um að finna málamiðlun milli nýtingar og verndar. Þar gleymist stundum að það er eitt form nýtingar að láta land í friði. Að taka frá land eða nýta hóflega styður við þau heilbrigðu vistkerfi sem eru grundvöllur matvælaframleiðslu og samfélags til framtíðar. Til að hægt sé að finna þessa málamiðlun þurfa sveitarfélög að hafa góðar upplýsingar um eðli og dreifingu náttúrugæða á sínum svæðum.
Hvað geta sveitarfélög gert?
Hér eru nokkrar uppástungur um hvað sveitarfélög geta gert til að vernda líffræðilega fjölbreytni og þar með lífsgæði til framtíðar:
Staða líffræðilegrar fjölbreytni í stjórnsýslu: Sveitarfélög eru flest farin að taka beint tillit til loftslagsbreytinga í bókhaldi og stjórnsýslu. Mikilvægt er að líffræðileg fjölbreytni komist á sama stig og að sveitarfélög móti sér metnaðarfulla og opinbera stefnu um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og náttúruvernd. Samþætta þarf þessi tvö svið og taka tillit til þeirra þvert á viðfangsefni í stjórnsýslunni. Á heimasíðu Biodice, sem er faglegur samstarfsvettvangur um líffræðilega fjölbreytni, má finna einfalda samantekt um helstu áhersluatriði Sameinuðu þjóðanna hvað varðar líffræðilega fjölbreytni og sem samþykkt voru á COP15 í Montéal (https://biodice.is/kunming-montreal-global-biodiversity-framework/). Gott er fyrir sveitarfélög að hafa þau meginatriði í huga við stefnumótun.
Skipulagsgerð: Mikilvægt er að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni við skipulagsgerð. Skipulagsáætlanir ólíkra sveitarfélaga eru gjarnan hver annarri líkar og stundum byggðar á takmarkaðri yfirsýn yfir náttúruverðmæti og á einföldum þekjum landupplýsinga sem geta átt misvel við. Inn á skipulag sveitarfélaga rata yfirleitt afmarkaðir blettir án þess að tekið sé tillit til samfellu og heildar vistkerfa og þess heildarálags sem er fyrir á svæðinu. Mikilvægt er að sveitarfélög hafi góða hugmynd um: a) helstu einkenni líffræðilegrar fjölbreytni innan sveitarfélags, b) ábyrgð sveitarfélags á mismunandi þáttum líffræðilegrar fjölbreytni á landsvísu og c) mikilvægi sveitarfélags við vernd tiltekinna þátta líffræðilegrar fjölbreytni á alþjóðavísu. Með þessu væru sveitarfélög að tryggja betur fjölbreytni búsvæða og lífríkis til framtíðar og taka tillit til hlutfallslegrar ábyrgðar sinnar á tilteknum þáttum lífríkisins.
Lágmarkskröfur um náttúruvernd samkvæmt lögum og metnaðarfull framtíðarsýn um sjálfbæra nýtingu eiga ekki alltaf samleið. Til dæmis er lágmarksfjarlægð bygginga frá vatnsbökkum í byggingareglugerð 50 m og votlendi nýtur ekki verndar nema blettir nái 2 ha (lög 60/2013). Hvorugt byggir á mældum áhrifum framkvæmda á lífríki. Einnig er algengt að landnotkun hafi áhrif langt út fyrir mörk skilgreindra athafnasvæða. Slík notkun getur þar með haft víðtækari áhrif á vistkerfi en lagt var upp með og einnig á hagsmuni nágranna. Hér má t.d. nefna að skógrækt og mannvirki grisja stofna ábyrgðartegunda fugla hundruð metra út fyrir framkvæmdasvæði (moi.hi.is). Því miður er líklegt að sveitarfélög eigi eftir að ganga jafnt og þétt á líffræðilega fjölbreytni ef metnaður þeirra miðast einungis við lágmarkskröfur í lögum og reglugerðum.
Þróun byggðar: Sveitarfélög ættu að huga sérstaklega að því að koma í veg fyrir landbruðl (e. urban sprawl). Dreifð íbúðabyggð – t.d. búgarðabyggðir – er sérlega óhagstæð fyrir náttúruvernd og langtímahagsmuni íbúa og lífríkis og ætti að heyra sögunni til. Eins er mikill þrýstingur á að fjölga dreifðum mannvirkjum, svo sem smáhýsum og hótelum vegna ferðaþjónustu en hröð framvinda þeirrar atvinnugreinar er mikið áhyggjuefni vegna líffræðilegrar fjölbreytni og virðist byggja á þeirri þversögn að hægt sé að selja lítt spillta náttúru en ganga ákveðið á hana á sama tíma. Íbúum landsins mun enn fjölga og þörf verður á að byggja meira. Eins mun verða aukin þörf á að rækta matvæli og til þess þarf land. Bruðl á landi samræmist hvorki lífríkisvernd né fyrirhyggju varðandi fyrirséða notkun á landi. Hér er mikilvægt að sveitarfélög sýni festu og beri langtímahagsmuni íbúa og sjónarmið lífríkisverndar fyrir brjósti.
Beinar aðgerðir: Það er ýmislegt sem sveitarfélög og einstaklingar geta haft áhrif á og styður beint við líffræðilega fjölbreytni. Hér má til dæmis nefna: a) endurheimt og varðveislu votlendis sem hefur mjög jákvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni, seiglu vistkerfa, loftslag, vatnafar og fleira; b) uppgræðslu á lítt grónu landi; c) stýringu á umferð á viðkvæmum svæðum; d) að tryggja vernd svæða þar sem finnast tegundir eða búsvæði með hátt verndargildi. Hverfisvernd getur nýst í þessum tilgangi en einnig er mikilvægt að sveitarfélög og einstaklingar eigi í góðu samstarfi við stjórnvöld um friðlýsingar og friðun. Þá geta e) sveitarfélög geta stutt við vöktunar- og rannsóknaverkefni, f) bætt úr fráveitu- og úrgangsmálum og g) stutt við umhverfismennt í grunn- og leikskólum.
Lágmarka þætti sem hafa neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni: Sumt verður varla forðast í nútímasamfélagi enda snýst náttúruvernd um málmiðlanir, en almennt má segja að hvers kyns framkvæmdir sem loka yfirborði lands eða skipta fjölbreyttara landi út fyrir einsleitara, valdi tapi á búsvæðum og líffræðilegri fjölbreytni. Hér má nefna einhæfa ræktun, vegagerð og hvers kyns mannvirki. Ferðamennska er einnig líkleg til að hafa sívaxandi áhrif, einkum þegar auknum ferðamannastraumi er beint á viðkvæm svæði. Rétt er að hafa hálendið sérstaklega í huga. Brot á vel grónu landi fyrir einhæfa ræktun, t.d. fyrir nytjaskógrækt eða akuryrkju, getur einnig haft neikvæð áhrif á mikilvæga þætti líffræðilegar fjölbreytni. Þá er tilhneiging til að byggja fyrst á fallegum stöðum, t.d. þar sem útsýni er gott eða meðfram vatnsvegum en slíkir staðir eru oft hlutfallslega mikilvægir fyrir líffræðilega fjölbreytni. Huga ætti sérstaklega að skipulagi nálægt ám og vötnum.
Hér að ofan er fátt eitt talið er varðar tengsl sveitarfélaga og líffræðilegrar fjölbreytni. Mörg mál mæða á sveitarfélögum en þó er nauðsynlegt að þau sem stýra sveitarfélögum setji vernd líffræðilegrar fjölbreytni í forgang og þar með lífsgæði og hagsmuni þjóðarinnar til framtíðar. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni styður einnig við markmið í loftslagsmálum þó þar skyldi varast einfaldar lausnir. Best er að vinna að vernd líffræðilegrar fjölbreytni með skýrri forgangsröðun og framtíðarsýn sem byggir á fullnægjandi og faglegum upplýsingum.