Væta frá Leirulæk hlaut 10 fyrir skeið. Knapi Þorgeir Ólafsson.
Væta frá Leirulæk hlaut 10 fyrir skeið. Knapi Þorgeir Ólafsson.
Mynd / Óðinn Örn
Á faglegum nótum 20. september 2024

Sýningarárið 2024 - fyrri hluti

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson, ráðunautur í hrossarækt.

Sýningarárið 2024 var viðburðaríkt og hápunktur sumarsins var Landsmót í Reykjavík. Afar góð mæting var til dóms þetta árið og breiður hópur frábærra hrossa glöddu augað á sýningarbrautunum.

Það voru alls felldir 1.565 dómar á 15 sýningum, en fjöldi hrossa sem mættu til dóms var 1.154. Ekki hafa fleiri dómar verið felldir á einu ári síðan 2018 en það ár voru dómarnir 1.575. Gaddstaðaflatir við Hellu var sá sýningarstaður þar sem flest hrossin voru dæmd, eða 664 hross. Þá voru 283 hross dæmd á Hólum í Hjaltadal.

Landsmót var haldið á félagssvæði Fáks í Víðidal í ár og tókst afar vel. Miðað var við að til dóms á kynbótabrautinni kæmu 170 hross, sem urðu þó 173 vegna þess að í nokkrum tilfellum voru hross jöfn að stigum. Alls voru 168 hross dæmd á mótinu en aðeins var um forföll þegar að sýningum kom. Þá hlutu sjö stóðhestar fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fjórir hestar hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi en sérstök umfjöllun um þá er hér í blaðinu.

Í töflum nr. 1 og 2 sem fylgja má sjá meðaltöl og breytileika í einkunnagjöf allra eiginleika í sköpulagi og hæfileikum kynbótahrossa sem sýnd voru árið 2024 á Íslandi.

Meðaltöl einstakra eiginleika eru á svipuðu róli og síðastliðin ár en eru þó heldur hærri, sem dæmi má nefna að á síðasta ári var meðaltal aðaleinkunnar 8,03 en er nú 8,09. Meðaltal sköpulags hefur aldrei verið hærra en nú, og í fyrra var það 8,16. Dreifing einkunna er aftur á móti nánast sú sama og síðastliðin ár þannig að notkun skalans við

einkunnagjöf hefur ekki dregist saman. Meðaltal fyrir skeið er 6,89 ef öll hross eru tekin með í útreikningi. Ef einungis eru skoðuð hross sem hlutu skeiðeinkunn (hærra en 5,5) að þá er meðaltal fyrir skeið um 7,80 sem er líklega hæsta meðaltal sem við höfum séð fyrir skeið. Enda eru einkar margir afkvæmahestar sem eru að skila hrossum til dóms þessa dagana að gefa góða skeiðgetu. Klárhross voru 31% sýndra hrossa í ár en það er svipað hlutfall og undanfarin ár (var 32% í fyrra). Á Landsmóti voru 18% hrossa klárhross en hlutfall þeirra er töluvert mismunandi milli aldursflokka á mótinu eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Meðalaldur hrossa sem til dóms komu í ár voru 6 ár (5,98) sem er heldur lægri meðalaldur en á síðasta ári þegar meðaldur sýndra hrossa var 6,1 ár. Þetta skýrist aðallega af því að fleiri fjögurra og fimm vetra hross eru sýnd á Landsmótsárum og er því meðalaldur alltaf heldur lægri þegar þau ár ber að garði. Meðaldur sýndra hrossa hefur verið afar stöðugur síðastliðin ár en til samanburðar var meðalaldurinn 6,2 ár á Landsmótsárinu 2018.

Í meðfylgjandi töflu er fjöldi hrossa sem kom til dóms í hverjum aldurs- og kynflokki á nýafstöðnu sýningarári:

Alls voru 288 feður að baki sýndra hrossa í ár og í meðfylgjandi töflu er listi yfir þá hesta sem áttu tíu eða fleiri sýnd afkvæmi sem komu til dóms:

Tíur ársins

Þegar breytileiki í einkunnagjöf er skoðaður má sjá að nokkrar tíur voru gefnar á árinu fyrir einstaka eiginleika. Þórshamar frá Reykjavík fékk 10 fyrir bak og lend og er hann einungis þriðja hrossið í sögunni til að hljóta þessa einkunn. Hann er undan Reginn frá Reykjavík og Bót frá Reyðarfirði, ræktandi og eigandi hans er Leó Geir Arnarsson. Afar ánægjulegt er að yfirlína hestsins nýtist vel í reið en hann er afar burðarmikill á hægu tölti og hlaut 9,5 fyrir þann eiginleika á Landsmóti. Alls hlutu níu hross 10 fyrir prúðleika á fax og tagl á árinu. Þá hlaut Steinn frá Stíghúsi 10 fyrir brokk á vorsýningu í Spretti. Faðir Steins er Vökull frá Efri-Brú og móðir er Álöf frá Ketilsstöðum, Álfsdóttir. Steinn er afar skrefmikill, framhár, hágengur og öruggur á brokki og flugrúmur. Fimm hross hlutu 10 fyrir skeið á árinu og er það með mesta móti á einu ári en það gerðist síðast árið 2016 að svo mörg hross hlutu 10 fyrir skeið. Þetta eru hrossin Væta frá Leirulæk, Hildur frá Fákshólum, Mjallhvít frá Sumarliðabæ 2, Herakles frá Þjóðólfshaga 1 og Liðsauki frá Áskoti. Athygli vekur að tvö af þessum hrossum, þeir Herakles og Liðsauki, eru undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum en hann er að gefa frábæra skeiðgetu. Þá er Mjallhvít undan Stála frá Kjarri og eru þeir feðgar, Álfaklettur og Stáli, báðir með 132 stig fyrir skeið í kynbótamatinu. Þá er einnig athygli vert að Hildur frá Fákshólum og Væta frá Leirulæk eru báðar undan Gnýpu frá Leirulæk sem er undan Stikli frá Skrúð. Hún ber greinilega marga verðmæta erfðavísa fyrir skeiðgetu. En faðir Hildar er Ölnir frá Akranesi og faðir Vætu er Konsert frá Hofi.

Hildur frá Fákshólum hlaut einnig 10 fyrir skeið. Knapi Helga Una Björnsdóttir.

Þá voru tvær hryssur sem hlutu 10 fyrir stökk á árinu, þær Edda frá Rauðalæk og Díana frá Bakkakoti. Óvanalegt er að tvö hross hljóti 10 fyrir þennan eiginleika sama árið en einungis sjö hross hafa hlotið 10 fyrir þennan eiginleika í sögunni. Edda frá Rauðalæk er undan Kiljan frá Steinnesi og Elísu frá Feti, Gustsdóttur en Kiljan hefur einmitt verið að gefa gæðastökk í gegnum tíðina; mikla framhæð og teygju á stökki. Þá er Díana frá Bakkakoti undan Frama frá Ketilsstöðum og Brynju frá Bakkakoti; afar mjúk, framhá og ferð- og svifmikil á stökki. Tvö hross hlutu 10 fyrir samstarfsvilja á árinu en það eru þau Hulinn frá Breiðstöðum og Arney frá Ytra-Álandi. Hulinn frá Breiðstöðum er undan Kveik frá Stangarlæk 1 og Díönu frá Breiðstöðum, Sveins- Hervarsdóttur. Hulinn er frábærlega þjáll, viljugur og samstarfsfús og var sýning á honum á Landsmóti hrein listasýning. Arney frá Ytra-Álandi er undan Skýr frá Skálakoti og Erlu frá Skák, hún er fágætum hæfileikum búin og sýndi ótrúleg afköst og gæði á gangi einungis fimm vetra gömul; bráðgert náttúruafl.

Edda frá Rauðalæk hlaut 10 fyrir stökk. Knapi Guðmundur Björgvinsson. Myndir / Óðinn Örn

Þá voru tveir hestar sem hlutu 10 fyrir fet á árinu, þeir Grímar frá Þúfum og Svarti-Skuggi frá Pulu. Grímar er undan Sólon og Grýlu frá Þúfum, hreint frábær á feti; gegnummjúkur og skrefmikill. Þá er Svarti-Skuggi frá Pulu undan Veg frá Kagaðarhóli og Sóldísi frá Pulu, sem er undan Sædyn frá Múla. Svarti- Skuggi rekur því ættir sínar til Höfða- Gusts í báðar ættir og er sérstakur útgeislunarhestur eins og mörg hross sem rekja ættir sínar til Gusts.

Heilbrigðisskoðanir kynbótahrossa

Heilbrigði kynbótahrossa var athugað eins og undanfarin ár, bæði fyrir og eftir dóm. Allir áverkar sem hrossin hlutu í dómi voru stigaðir í þrjá flokka og á þetta við bæði særindi í munni og ágrip á fótum. Fyrsta stigs athugasemdir teljast ekki vera eiginlegir áverkar en eru t.d. særindi í munni sem ná ekki í gegnum slímhúð eða strokur á fótum sem ná ekki í gegnum húð, og eru án eymsla eða bólgu. Annars stigs athugasemdir eru áverkar, s.s. lítil sár í munni eða á ágrip á fótum sem ná þó ekki einum cm. Þriðja stigs athugasemdir eru alvarlegir áverkar og á þá lund að hrossið hlýtur ekki reiðdóm og getur ekki mætt til yfirlitssýningar.

Í ár voru skráð ágrip á fótum í 14% tilfella, sem er svipað og var í fyrra en þá var tíðni ágripa 15%. Megnið af þessum athugasemdum, eða 83% voru í flokki 1. Tíðni eiginlegra áverka á fótum (flokkar 2 og 3) var því hjá 2,3% hrossa. Áverkar af þriðja stigi voru afar fáir eða einungis 3 á árinu. Þá voru skráð særindi eða blóð í munni í 4% tilfella og var í öllum tilfellum um fyrsta stigs særindi að ræða. Það má því halda því fram að staðan á þessum málum sé ásættanleg þó við viljum gera enn betur en tíðni alvarlegra áverka hefur farið minnkandi ár hvert undanfarið. Þetta skýrist væntanlega fyrst og fremst af hestvænni sýningum og betri undirbúningi hrossa sem koma til dóms. Þá er reynt að taka á grófri reiðmennsku með því að veita knöpum áminningar, og í ár voru slíkar áminningar skráðar á tvo knapa.

Skoðun eistna var framkvæmd á öllum stóðhestum sem komu til dóms þar sem mæld er stærð eistnanna, stinnleiki þeirra metinn og athugað með frávik svo sem snúninga á eistnalyppum og annað. Þéttleiki eistna er metinn í þremur flokkum þar sem flokkur I lýsir þéttum og eðlilegum eistum, í flokki II eru þau aðeins lin viðkomu og í flokki III teljast eistun vera grautlin. Mikill meirihluti stóðhestanna er með þétt og eðlileg eistu eða tæplega 90% stóðhestanna sem mættu til dóms. Minnihluti stóðhesta var talinn með eistu að stinnleika II og enginn með stinnleika III. Sjö stóðhestar sem mættu til eistnaskoðunar voru merktir með eistnagalla, en þá var um snúninga á eistum að ræða (bæði eistu snúin) hjá einum hesti, og of mikil smæð eistna (heildarbreidd beggja eistna undir 8,0 cm) hjá sex hestum. Enginn hestur var með misstór eistu eða eineistni. Þetta er afar svipaður fjöldi og undanfarin ár. Ef meðaltal á heildarbreidd eistna er skoðað, þá kemuríljósaðþaðer10,2cmíárog staðalfrávikið er um 1 cm.

Þessar stærðir hafa ekki breyst neitt í 20 ár og því ljóst að eistu íslenskra stóðhesta eru ekki að minnka að meðaltali sem er vel.

Starfsfólk og staðarhaldarar

Að lokum er rétt og ljúft að þakka öllu starfsfólki kynbótasýninganna í ár fyrir vel unnin störf. Mikið til er þetta sama fólkið ár frá ári og hópurinn orðinn samhentur og góður; hvort sem það eru dómarar, sýningarstjórar eða ritarar. Einnig vil ég þakka gott samstarf við staðarhaldara á hverjum sýningarstað, en hvarvetna hefur verkefninu verið tekið af áhuga og metnaði og reynt að hafa alla þætti sýninganna sem besta. Þá vil ég þakka sýnendum, ræktendum og eigendum hrossanna fyrir skemmtilega viðkynningu og gott samstarf á árinu.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...