Af samgöngum
Þegar lognið flippar út og tekur upp á því að ferðast um háloftin með ógnarhraða og draga jafnvel með sér vatnsdropa og snjókorn út í vitleysuna er ekki von á góðu. Slíkt hafa Íslendingar fengið að finna fyrir undanfarna daga og í raun meira og minna það sem af er ári.
Við duttlungum í veðurfari tjáir lítt að þenja sig, þó við sjáum það gjarnan á samfélagsmiðlum nútímans að fólk pirri sig við slíku. Grípa þá sumir til að agnúast út í veðurfræðinga líkt og tapsárir fótboltaáhugamenn sem öskra hástöfum á hliðarlínunni; út af með dómarann, út af með dómarann! – Bölmóðsfrík með allt á hornum sér geta þó vart réttlætt lengur viðbrögð af þessum toga gagnvart veðurfræðingum, því þeir hafa sannarlega sýnt það að undanförnu hversu glöggir þeir eru orðnir að spá fyrir væntanleg veður, og það jafnvel með viku til hálfsmánaðar fyrirvara eða meira.
Óveður og ófærð fær fólk þó gjarnan til að leiða hugann að mikilvægi greiðra samgangna. Með auknum búferlaflutningum fólks út fyrir borgarmörk Reykjavíkur og sér í lagi austur fyrir Hellisheiði verða raddir t.d. háværari um nauðsyn þess að halda opnum veginum alla daga ársins. Fólk þurfi jú nauðsynlega að komast til og frá vinnu. Furðar fólk sig á því af hverju sægur moksturstækja sé ekki til reiðu til að mæta þeirra kröfum um greiðar samgöngur þegar það þarf á að halda. Ekki er laust við að fólk í harðbýlli landshlutum vestan-, norðan- og austanlands fyllist nokkurri undrun yfir slíkum viðbrögðum.
Ef litið er yfir sögu byggðar á Íslandi, þá er augljóst að góðar samgöngur hafa alltaf verið lykillinn að því að byggð gæti þrifist til lengri tíma. Ferðalög milli landshluta voru þá nær eingöngu iðkuð þegar minnstar líkur voru á óveðrum og snjókomu. Flutningar fólks og varnings fóru þá að mestu fram með skipum. Þannig var þessu háttað langt fram á síðustu öld, eða þar til bifreiðar fóru að verða algengar og til akfærir vegir sem voru gerðir milli landshluta. Samt var þessi tæknibylting í samgöngunum með flutningum á fólki og vörum milli landshluta með bílum ekki veruleiki sem allir gátu treyst á.
Lengi fram eftir síðustu öld voru sumir staðir án almennilegs vegasambands. Vegurinn um Óshlíð til Bolungarvíkur var t.d. ekki opnaður fyrr en öldin var að verða hálfnuð og sömuleiðis vegurinn frá Ísafirði til Súðavíkur. Þá var komið fram á áttunda áratug síðustu aldar að vegur var opnaður um Ísafjarðardjúp. Enn á árinu 2022 búa Vestfirðingar við þá nöturlegu staðreynd að samgöngur á landi eru mjög erfiðar. Vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum hafa svo, aðallega af umhverfispólitískum ástæðum, verið að miklu leyti látnar sitja á hakanum í áratugi. Íbúar í þessum landshluta þurfa oft dögum og jafnvel vikum saman að búa við algjört samgönguleysi á vegum vegna ófærðar og snjóflóðahættu. Á meðan staðan er slík í heilu landshlutunum er ekki skrítið að íbúar þar fái kjánahroll þegar kvartað er yfir að fólk komist ekki ferða sinna allan sólarhringinn þegar nær dregur höfuðborgarsvæðinu.
Sama hvað líður tölvutækni og hugtökum um störf án staðsetningar, eru góðar samgöngur enn lykillinn að því að lífvænlegt þjóðfélag geti þrifist. Pólitískir fulltrúar okkar geta ekki horft framhjá þessari staðreynd. Ef menn vilja halda uppi lífvænlegri byggð í landinu þá verður einfaldlega að gera betur en gert hefur verið í sumum landshlutum til þessa.