Heimildarmyndin „Gullskipið“
Sunnudaginn 13. mars frunsýndi RÚV heimildarmyndina ,,Gullskipið“ sem Jón Ársæll Þórðarson og hans fólk hafa unnið að síðastliðin fjögur ár.
Hér var um mesta sjóslys Íslandssögunnar að ræða þegar Het Wapen Van Amsterdam strandaði á Skeiðarársandi árið 1667 og með því um 200 manns. Við gerð myndarinnar hafa fundist margar gamlar filmur frá því að Kristinn Guðbrandsson í Björgun og Bergur á Klaustri leituðu skipsins á síðustu öld, sem nú fyrst líta dagsins ljós.
Þegar og ef skipið finnst verður það líka heimssögulegur viðburður.
Framleiðandi myndarinnar eru þeir Jón Ársæll Þórðarson og Steingrímur Jón Þórðarson, en þeir félagar hafa unnið saman að kvikmyndum og þáttagerð í rúman aldarfjórðung. Tónlist í myndinni er eftir Þórð Inga Jónsson/Lord Pusswhip.
Líklegur strandstaður Het Wapen Van Amsterdam á Skeiðarársandi á þessu gamla landakorti er talinn á svæðinu sem merkt er með rauðu.
Um skipið, strandið og leitina
- Árið 1667 strandaði eitt af glæsilegustu skipum hollenska flotans á eyðilegri sandströnd á Íslandi. Skipið var að koma frá Austur-Indíum hlaðið gulli og gersemum.
- Stærsti eyðisandur á jörðinni gleypti skipið og allt sem í því var.
- Aðeins sagan lifði, sagan um Gullskipið.
- Á seinni hluta 20. aldar reyndu íslenskir ofurhugar með hjálp íslensku ríkisstjórnarinnar og ameríska sjóhersins að finna hollenska Gullskipið og grafa það upp en án árangurs.
- Gríðarlega erfiðar aðstæður, jökulárnar stóru undan Vatnajökli, stærsta jökli Evrópu, og öldur Norður-Atlantshafsins láta ekki að sér hæða.
- Íslenskur frumkvöðull, Gísli Gíslason, myndaði alþjóðlegt teymi ofurhuga til að finna og endurheimta það sem hinn mikli sandur tók til sín á óveðursdeginum mikla seint í september árið 1667.
- Með nýjustu tækni og vísindum og vissuna um árangur, ætla Gísli og hans menn að gera það sem engum hefur áður tekist. Að endurheimta úr sandinum Het Wapen Van Amsterdam með öllu því sem það hefur að geyma og skrifa um leið merkilegan kafla í sögu siglinga á jörðinni.
Þann 4. september árið 1983, eftir sex mánaða stanslaust bras, komust leitarmenn niður að skipinu sem þeir töldu vera Het Wapen van Amsterdam. Í ljós kom að þetta var togarinn Friedric Albert sem strandaði 1903 og voru vonbrigðin mikil.
Het Wapen van Amsterdam. Mynd af líkani sem Karl Friðrik Ragnarsson í Vík í Mýrdal gerði af skipinu.