Hækkun sjávarmáls og fólksflutningar
António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, lét fyrir skömmu hafa eftir sér að hækkun sjávarmáls vegna loftslagsbreytinga muni leiða af sér fólksflutninga af áður óþekktri stærð.
Í máli Guterres kom fram að sjávarmál hafi hækkað mikið undanfarna áratugi og að allt bendi til að slíkt eigi eftir að aukast og að ekki sé langt í að það eigi eftir að hafa veruleg áhrif á íbúa víða um heim. Miðað við núverandi hækkun mun sjárvaryfirborð hækka um allt að hálfan metra fyrir árið 2100 og munu þá borgir eins og London, Los Angeles og Bangkok fara að hluta á kaf og sama gildir um Norðurmýrina í Reykjavík.
Guterres segir að hækkun sjávarmáls muni hafa gríðarleg áhrif á líf og lífsafkomu milljarða manna. Ræktarland til matvælaframleiðslu mun dragast saman, fátækt aukast og tíðni sjúkdóma einnig. Hann sagði að eina leiðin til að höndla vanda sem í vændum er sé að þjóðir heims tækju höndum saman um að leysa hann í sameiningu.
Máli sínu til stuðnings benti aðalritarinn á nýjar upplýsingar frá Alþjóðaveðurathugunarstofnuninni sem sýna að hitastig sjávar hafi hlýnað
meira á síðustu hundrað árum en ellefu þúsund árin þar á undan. Meðal afleiðinga hlýnunar sjávar er hraðari bráðnun heimskautaíssins auk þess sem sjór þenst út við hlýnun.