Vegagerðin á móti efnistöku í fjörunni
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps er mjög ósátt við þá ákvörðun Vegagerðarinnar að leyfa ekki efnistöku af sandi í fjörunni austan við Vík í Mýrdal.
Í bókun sveitarstjórnar segir m.a.:
„Vitað er að efnisflutningar með ströndinni nema milljónum rúmmetra á ári en áformuð efnistaka yrði ekki nema lítið brot af því. Fullyrðingar Vegagerðarinnar um að efnistaka, sem háð verður jafn ströngu eftirliti og lagt er til, muni án efa auka á rofhraða eru með öllu órökstuddar.
Mikið er í húfi fyrir samfélagið í Mýrdalshreppi að tilraunir til þess að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf sveitarfélagsins fái eðlilegan framgang. Slíkt þarf ekki að vera á kostnað umhverfisins og sveitarstjórn Mýrdalshrepps mun eftir sem áður standa jafnt vörð um hagsmuni náttúrunnar og samfélagsins.“
Í umsögn Vegagerðarinnar segir m.a.:
„Afstaða Vegagerðarinnar helst því óbreytt í málinu og er Vegagerðin mótfallin efnistöku úr fjörunni. Stöðugt landrof er á fjörunni og mun efnistaka án efa auka á rofhraða hennar. Mýrdalshreppur hefur sent umsókn til Vegagerðarinnar um að ríkið fjármagni þriðja sandfangarann, austan við þann sem byggður var síðast.
Umsóknin byggir á þeim staðreyndum að töluvert rof á sér stað á ströndinni og strandlínan ekki tryggð nema með gerð þessa þriðja sandfangara. Með því að leyfa efnistöku í fjörunni rétt austan við áhrifasvæði sandfangaranna er hreppurinn í þversögn við umsögn um byggingu á þriðja sandfangaranum.“