Blanda - #12 - Fyrra hefti Sögu árið 2021
Markús Þórhallsson ræðir við Kristínu Svövu Tómasdóttur, ritstjóra, um innihald vorheftis Sögu 2021. Saga - tímarit Sögufélags kemur út tvisvar á ári, vor og haust. Efni þess er fjölbreytt og tengist sögu og menningu landsins í víðum skilningi. Auk Kristínar Svövu ritstýrir Vilhelm Vilhelmsson Tímaritinu Sögu.
Þetta fyrsta hefti 2021 er óvenju þykkt og í því eru fjórar ritrýndar greinar. Grein Barts Holterman byggir á ítarlegri einsögulegri rannsókn á vitnisburði sem kom fram fyrir dómi í Hamborg árið 1602 og varpar athyglisverðu ljósi á alþjóðlega viðskiptahætti á Íslandi við upphaf dönsku einokunarverslunarinnar. Grein Sveins Mána Jóhannessonar er af hugmyndasögulegum toga en þar fjallar hann um repúblikanisma og kannar áhrif hans á hugmyndaheim sjálfstæðisbaráttunnar og kvenfrelsisbaráttunnar á Íslandi á síðari hluta nítjándu aldar. Í þriðju grein heftisins skrifar Þorsteinn Vilhjálmsson um tengsl takmarkana barneigna og mannkynbóta í íslenskri orðræðu á millistríðsárunum. Loks fjallar Helga Jóna Eiríksdóttur um skjalasöfn sýslumanna, þá rannsóknarmöguleika sem þau bjóða upp á og þá skjalfræðilegu greiningu sem liggur slíkri notkun til grundvallar.
Í heftinu eru 14 ritdómar og ein ritfregn en einnig skrifar Ólína Þorvarðardóttir svar við ritdómi Viðars Hreinssonar um bók hennar, Lífgrös og leyndir dómar.
Á forsíðu að þessu sinni eru gripir sem fornleifafræðingar grófu upp úr gömlum ruslahaug í Hljómskálagarðinum sumarið 2020. Fáir eru jafn meðvitaðir um merkingu og mikilvægi sorps og einmitt fornleifafræðingar og um það skrifar Ágústa Edwald Maxwell forsíðumyndargrein.
Sigurður Gylfi Magnússon hefur umsjón með álitamálunum og skrifar ásamt þremur nemendum sínum, Þórhildi Elísabetu Þórsdóttur, Jakobi Snævar Ólafssyni og Svavari Benediktssyni, álitamálapistla um margskonar blekkingar í sögulegu og fræðilegu ljósi.
Í þættinum Saga og miðlun fjallar Björn Þór Vilhjálmsson um ritun, heimildir og heimildarvanda íslenskrar kvikmyndasögu sem hefur verið ofarlega á baugi undanfarið. Erla Hulda Halldórsdóttir skrifar grein um verk og hugsjónir Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur kynja- og sagnfræðings sem lést síðastliðið sumar. Í viðhorfsgein veltir Helgi Þorláksson fyrir sér hvaða hugtak sé best að nota um stöðu Íslands gagnvart Danmörku fyrr á öldum. Loks skrifar Helga Hlín Bjarnadóttir um athyglisvert bréfasafn lausakonu í Reykjavík á nítjándu öld fyrir þáttinn Í skjalaskápnum.
Einnig birtast andmæli við doktorsvörn Kristjönu Kristinsdóttur í sagnfræði við Háskóla Íslands sem fjallar um þróun konunglegrar stjórnsýslu og skjalasöfn lénsmanna á tímabilinu 1541 til 1683. Loks er í heftinu að finna ársskýrslu Sögufélagsins fyrir 2020-2021.
Blanda er framleidd af Sögufélaginu og dreift á bbl.is og streymisveitur samkvæmt samkomulagi við Hlöðuna - hlaðvarp Bændablaðsins.
Fleiri þættir
Blanda #19 Kristjana Vigdís um Þrautseigju og mikilvægi íslenskrar tungu
Í þessum þætti af Blöndu ræðir Kristjana Vigdís Ingvadóttir sagnfræðingur um Þrautseigju og mikilvæg...
Blanda #18 Davíð Ólafsson um Frá degi til dags
Í þessum þætti af Blöndu spjallar Davíð Ólafsson sagnfræðingur um efni nýju bókarinnar hans sem heit...
Blanda #17 Haukur Ingvarsson um Fulltrúa þess besta í bandarískri menningu
Einar Kári Jóhannsson ræðir við Hauk Ingvarsson um nýja bók hans, Fulltrúi þess besta í bandarískri...
Blanda #16 Páll Björnsson um Ættarnöfn á Íslandi
Markús Þórhallsson ræðir við Pál Björnsson um nýja bók hans, Ættarnöfn á Íslandi: Átök um þjóðararf...
Blanda #15 Már Jónsson um Galdur og guðlast
Markús Þórhallsson ræðir við Má Jónsson um Galdur og guðlast. Galdramál 17. aldar eru óhugnanlegur v...
Blanda #14 Þorsteinn Vilhjálmsson um mannkynbætur á Íslandi
Einar Kári Jóhannsson ræðir við Þorstein Vilhjálmsson um grein hans, Betra fólk: Tengsl takmarkana b...
Blanda - #13 - Íslenskir þjóðardýrlingar - viðtal við Jón Karl Helgason
Einar Kári Jóhannsson ræðir við Jón Karl Helgason, prófessor í íslensku, um bók hans Ódáinsakur: Hel...
Blanda - #11 - Væringjar og saga norrænna manna í austurvegi
Gestur ellefta þáttar Blöndu er Sverrir Jakobsson, prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Á sí...
Blanda - #10 - Landnám kynjasögunnar
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir skrifaði grein í hausthefti Sögu 2020 sem ber heitið „Landnám kynjasögun...
Blanda - #9 - Hjalti Hugason um heimagrafreiti á Íslandi
Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við Háskóla Íslands, er gestur Blöndu að þessu sinni. Hjalti...
Blanda - #8 - Vísindi og ríkisvald í Bandaríkjunum
Í áttunda þætti Blöndu segir Sveinn Máni Jóhannesson sagnfræðingur frá doktorsritgerð sinni sem hann...
Blanda - #7 - Tímaritið Saga
Í sjöunda þætti Blöndu kemur Kristín Svava Tómasdóttir, annar ristjóra Sögu, og ræðir við Markús Þór...