Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hörður Bender hugleiðir á hvítlauksakrinum: „Takk, móðir jörð, takk fyrir vera kennarinn minn, takk fyrir að sýna mér svo hvað ég hef gert rétt og rangt, takk fyrir að passa upp á börnin þín í allan vetur og leyfa svo okkur að njóta. Takk!“
Hörður Bender hugleiðir á hvítlauksakrinum: „Takk, móðir jörð, takk fyrir vera kennarinn minn, takk fyrir að sýna mér svo hvað ég hef gert rétt og rangt, takk fyrir að passa upp á börnin þín í allan vetur og leyfa svo okkur að njóta. Takk!“
Mynd / smh
Líf og starf 10. júní 2021

Aðgangur seldur að hvítlauksakrinum í ágúst

Höfundur: smh

Það eru til um 600 yrki af hvítlauk í heiminum. Á síðustu átta mánuðum hafa sex þeirra verið til reynsluræktunar á Efri-Úlfsstöðum í Austur-Landeyjum, þar sem í fyrsta skiptið er gerð alvöru atlaga að því að rækta á Íslandi hvítlauk á stórum akri. Reiknað er með þriggja til fimm tonna uppskeru seinni partinn í ágúst og er fyrirhugað að efna til hvítlaukshátíðar á bænum þar sem fólki gefst kostur á að koma og tína sér ferskan hvítlauk og taka með sér heim.

Hörður Bender er hvítlauks­bóndinn á Efri-Úlfsstöðum, hrossaræktandi, hugleiðslukennari og ferðaþjónustubóndi með meiru. Hann segir að yrkin sem hann sé með skiptist í yrki annars vegar með mjúkan stilk og hins vegar harðan stilk, sem séu harðgerðari og líkari þeim sem talin eru upprunaleg villt yrki á landsvæðunum við Kákasusfjöll. „Reynslan á þessum átta mánuðum hefur sýnt mér að þrjú þessara yrkja eiga ekki heima hér í Austur-Landeyjum og því ætla ég að taka þau út en prófa önnur fjögur í staðinn og ég ætla líka að taka stærra land undir ræktunina og marfalda hana,“ segir Hörður – augsýnilega spenntur fyrir möguleikunum sem hann sér í stöðunni.

„Mér sýnist að um 70 til 80 prósent af því sem ég plantaði út í haust hafi lifað veturinn,“ bætir hann við.

Hvítlauksakurinn á Efri-Úlfsstöðum er að taka á sig lit og mynd. 

Tilraunin stendur enn yfir

Hörður segir að enn sé ekki alveg ljóst hver árangurinn verður af þessari tilraun, en útlitið sé gott þrátt fyrir erfitt vor. „Við lærum margt á þessu ræktunarári, enda margvíslegir þættir sem við getum tekið mið af þegar árangurinn er metinn. Til dæmis er landið ekki allt einsleitt þó það líti út fyrir að vera það – það er í rauninni lagskipt; sumt með þéttari moldaráferð en annað sendnara. Svo eru hæðir og lægðir. Síðan reyndi talsvert á plönturnar í vor og byrjun sumars, með miklum þurrkum og kulda,“ segir Hörður og nefnir til marks um það að sjö stiga frost hafi mælst eina nótt á seinni hluta maímánaðar.  „Við sáum það á blöðunum að endarnir visnuðu eitthvað en plönturnar stóðu þetta að mestu af sér. Hvítlaukurinn getur hins vegar dafnað ágætlega í þurrki og raunar betur en í mikilli vætu, eins og við sjáum hér á akrinum þar sem honum gengur betur á hæðunum en lægðunum.

Ég vonast til að móðir jörð muni ekki gefa síður af sér hér hjá mér, hér í þessum frjósama eldfjallajarðvegi, en hún gerir víða á snauðari svæðum á erlendri grundu.“

Fallegur hvítlaukur úr Mosfellsdal. Mynd / Úr einkasafni

Með fangið fullt af fallegum hvítlauk

Áhuginn hjá Herði á hvítlauks­ræktuninni kviknaði fyrir tveimur árum þegar hann af gamni sínu prófaði að panta hvítlauk hjá Garðyrkjufélgi Íslands til útplöntunar. „Þar sem ég stóð með fangið fullt af fallegum hvítlauk í Mosfellsdalnum haustið 2019, þar sem við rekum annað heimili okkar, sló þessu niður í höfuðið á mér; auðvitað erum við að fara að rækta hvítlauk á akri á Efri-Úlfsstöðum. Þetta var stórt franskt yrki – einstaklega fallegt. Önnur smærri yrki og seinvaxnari eru bragðmeiri. Ég sé fyrir mér að við verðum með nokkrar slíkar tegundir sem geta hentað fyrir fjölbreytt tilefni; mildari sé notaður ferskur jafnvel í matargerð.

Auðvitað er gaman að geta boðið upp á ferskan hvítlauk, en geymslan er líka atriði sem þarf að huga að en hann er þurrkaður og þannig er hægt að geyma hann í marga mánuði. Í slíkum geymslum þarf að lofta vel um hann og hann geymdur við um það bil tólf gráður.

Fyrst um sinn verður öll uppskeran seld fersk, en þegar ég verð kominn upp í kannski 50 eða 100 tonna framleiðslu þá þarf hluti þess að fara í geymslu.

Hvítlaukshátíðin í lok ágúst

Að sögn Harðar vakti gríðarlega athygli þegar Bændablaðið sagði frá því að það væri verið að planta út í hvítlauksakur í október á síðasta ári. „Við erum búin að fá helling af fyrirspurnum um hvenær hann verði tilbúinn og hvort það verði ekki hægt að taka forskot á sæluna. Við sjáum hins vegar fyrir okkur að þegar kemur að uppskerutímanum í lok ágúst, að við bjóðum fólki hingað heim á uppskeruhátíð. Við erum með fyrirmyndir frá Skandinavíu og frá mörgum Evrópulöndum þar sem það tíðkast að bjóða fólki á akrana til að tína sjálft uppskeruna fyrir tiltekið kílóverð. Þetta er þekkt úti, til dæmis með berjategundir og ýmsar grænmetistegundir þar sem skiptir máli að ferskleikinn sé sem mestur.

Hvítlaukurinn er reyndar þess eðlis að hann er nokkuð blautur þegar hann er tekinn upp og það þarf að geyma hann í nokkra daga við stofuhita áður en hann er matreiddur og borðaður.

Hjá okkur væri kannski miðað við að hver gæti tínt eitt kíló, eða eitthvað svoleiðis. Síðan myndi það þróast bara með árunum.“ 

Hörður keypti útplöntunartæki frá Frakklandi og plantaði hvítlauknum úr því í fjórar raðir í akurinn.

Jóga og íslenskur landbúnaður 

Hörður hefur kennt jóga og hugleiðslu í nokkur ár – og fléttar þá starfsemi saman við hestaferðir og ferðaþjónustu. „Já, við höfum boðið upp á „retreats“ hér núna í þrjú ár – eða vettvang þar sem við blöndum saman jóga og upplifun á náttúrunni; staðbundnum mat úr íslenskri sveit og tengingu við íslenska hestinn. Ég sé fyrir mér að hvítlauksræktunin verði bara góð viðbót við þetta starf. Við erum með lítinn fjárbúskap líka í Mosfellsdalnum og þá má segja að við höfum allt til alls hér til að bjóða upp á það besta úr sveitinni; íslenskt lambakjöt og hvítlaukinn okkar –  og svo er stutt að sækja kartöflurnar í Þykkvabæinn.

Við höfum fengið talsvert af erlendu ferðafólki til okkar, en í fyrra komu nánast eingöngu Íslendingar,“ segir Hörður og vonast til þess að landið sé á ný að rísa.

Hörður skoðar þroskann á hvítlauknum og er ánægður með þróunina þrátt fyrir erfitt vor.

Skylt efni: Hvítlaukur

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...