Fagnað í Flóaskóla
Flóaskóli í Villingaholti í Flóahreppi fagnaði tuttugu ára afmæli á dögunum. Af því tilefni var blásið til veislu.
Flóaskóli er staðsettur í Villingaholti og tók til starfa haustið 2004. Í grunnskólanum eru 110 nemendur og starfsmenn eru 33 talsins. Þórunn Jónsdóttir er skólastjóri Flóaskóla. „Það var gaman hve margir gáfu sér tíma til að koma til okkar að njóta dagsins með okkur. Ég hef ekki heyrt annað en gestir hafi verið ánægðir og við hér í skólanum vorum mjög sátt. Nemendur stóðu sig með prýði, tóku á móti gestum, kynntu skólastarfið og lögðu ýmiss konar þrautir og spurningar fyrir gestina. Boðið var upp á afmælisköku og skólanum bárust margar góðar gjafir,“ segir hún. Magnús Hlynur Hreiðarsson var viðstaddur afmælisfögnuðinn og tók meðfylgjandi myndir.