Fjölnir Íslandsmeistari skákfélaga 2025
Íslandsmóti skákfélaga lauk um liðna helgi í Reykjavík. Skákdeild Fjölnis varð Íslandsmeistari með fáheyrðum yfirburðum, en þeir unna alla sína andstæðinga og enduðu mótið með fullt hús stiga.
Þetta var annað árið í röð sem Fjölnir vann titilinn en félagið hafði aldrei unnið titilinn áður þar til í fyrra.
Íslandsmót skákfélaga er deildarskipt keppni og tefla sterkustu skákfélög landsins í úrvalsdeild. Síðan er teflt í 1., 2., 3. og 4. deild. Næststerkustu liðin eru í 1. deild og síðan koll af koll niður í 4. deild. Liðin geta unnið sig upp í næstu deild fyrir ofan eða fallið niður í næstu deild fyrir neðan ef illa gengur, eða svipað og í t.d. fótbolta.
Það eru þó krýndir meistarar í öllum deildum og Víkingaklúbburinn, Taflfélag Reykjavíkur-c sveit, Dímon og Skákfélag Íslands urðu hlutskörpust í 1. til 4. deild. Fjölmennustu skákfélög landsins eiga nokkur lið í keppninni og sum þeirra eiga eitt eða jafnvel fleiri lið í öllum deildunum.
Langflest félögin/liðin koma af höfuðborgarsvæðinu en skákfélög utan af landi eru að sjálfsögðu líka með. Skákfélag Akureyrar mætti með 4 lið, Taflfélag Vestmannaeyja og Goðinn í Þingeyjarsýslu mættu til leiks með 3 lið hvort félag. Skákfélag Selfoss og nágrennis kom með tvö lið, og Taflfélag Snæfellsbæjar, Skákfélag Sauðárkróks, Grindavík og Skáksamband Austurlands komu með eitt lið hvert félag. Taflfélag Snæfellsbæjar var t.d. hársbreidd frá því að vinna sig upp úr 4. deildinni en endað í 3. sæti.
Skákmenn sem taka þátt í Íslandsmóti skákfélaga eru af öllum stærðum og gerðum og á öllum aldri eins og meðfylgjandi mynd ber með sér.
Ef lesendur Bændablaðsins luma á áhugaverðum skákum geta þeir haft samband.