Norðurlandamót ungmenna í skák
Norðurlandamót ungmenna í skák fór fram í Borgarnesi 14. - 16. febrúar. Mótið á sér mikla sögu en fyrsta mótið fór fram árið 1979 og hefur farið fram árlega síðan þá.
Á mótinu er teflt í fimm aldursflokkum og eiga Norðurlandaþjóðirnar að jafnaði tvo fulltrúa í hverjum flokki. Tefldar voru sex umferðir í hverjum aldursflokki og skipuðu tólf keppendur hvern aldursflokk fyrir sig. Íslendingar eignuðust einn Norðurlandameistara, Aleksandr Domalchuk-Jonasson, sem vann elsta aldursflokkinn.
Sýnt var beint frá mótinu á skákvefnum lichess.org og til þess að það gangi upp er teflt á sérstökum skákborðum sem ætluð eru til þess. Sérstakir nemar eru neðan í öllum taflmönnunum og einnig eru nemar í öllum reitum á hverju borði svo að hægt sé að senda beint út á netið. Áhugasamir geta því fylgst með heiman að frá sér og þurfa ekki að missa af neinu. Þar að auki sést í þessum beinu útsendingum hvaða leikur þykir vænlegastur til árangurs í hverri stöðu fyrir sig. Keppendur sjá það auðvitað ekki fyrr en eftir að skákinni lýkur.
Það hefur færst mjög í vöxt að beinar útsendingar frá skákmótum séu í boði á netinu og stundum eru allar skákir sem tefldar eru sýndar. Undirritaður hefur sjálfur teflt á svona borði og sem betur fer voru sennilega fáir að fylgjast með þeim skákum enda töpuðust þær allar með glæsilegum hætti.
Ef lesendur Bændablaðsins luma á áhugaverðum skákum geta þeir haft samband - Hermann Aðalsteinsson, lyngbrekku@simnet.is.

Hvítur á leik og mátar í 3 leik.
Dd8 skák. Kxd8. Svartur drepur drottingu hvíts með kóng enda um þvingaðan leik að ræða. Þá leikur hvítur Bg5 skák, og það er tvískák, bæði frá biskupnum og hróknum á d1. Svartur leikur Ke8 enda eini leikurinn í stöðunni og þá leikur hvítur Hd8 og mát.