Svaka sæt ljóska og pínu súr vinkona
Getum við ekki öll verið sammála um að ljóskurnar í lífi okkar eru flestar virkilega sætar?Sumar jafnvel svo dísætar að það getur verið erfitt að leiða hugann að nokkru öðru, í öllu falli svona rétt á meðan að við sem erum hvað veikust fyrir erum í sama herbergi og þær.
Fæst viljum við heldur breyta þessum elskum svo nokkru nemi, heldur treystum á að ljóskan sé nákvæmlega eins í hvert einasta skipti sem leiðir okkar liggja saman. Enda hvarflar varla að nokkrum að leita annað.
En í nafni fjölbreytileikans og þess að þroska smekk okkar ögn betur er nauðsynlegt að skipta aðeins um takt öðru hvoru, samt auðvitað án þess að móðga og hafna okkar allra sætustu og bestu ljóskum.
Að því sögðu býð ég upp á tvær ljóskur að þessu sinni sem sverja sig svo sannarlega í ætt við þær áðurnefndu, en önnur þeirra er örlítið súrari en við eigum að venjast. En hún er samt líka mjög sæt og ég hvet lesendur til að fagna þessari súrsætu ljósku og prófa sig áfram því sýran úr límónunni á afskaplega vel við hvíta og sæta súkkulaðið sem ljóskurnar byggja sína tilveru á.
Ljóska með límónu og sýrðum rjóma
150 g smjör
200 g hvítt súkkulaði
100 g sykur
50 g hunang
100 g rjómi
100 g hveiti
3 egg
2 límónur
jarðarber
Skolið límónur og þerrið, rífið börkinn af með fínu rifjárni, og kreistið safann. Bræðið smjör í potti, blandið rjóma, sykri og hunangi í annan pott og hitið að suðu. Setjið súkkulaði og límónubörk í stóra skál, hellið bráðnu smjöri yfir og blandið saman. Hrærið rjómablöndunni saman við, því næst eggjum og límónusafa, og síðast hveitinu. Klæðið botninn á bökunarformi með bökunarpappír og hellið deiginu í. Bakið á 130 °C í 30–40 mínútur, fylgist vel með því að alls kyns atriði hafa áhrif á endanlegan bökunartíma! Kælið kökuna, skerið í passlega bita. Berið fram með jarðarberjum og sýrðum rjóma með límónu.
Sýrður rjómi með límónu
3 dl sýrður rjómi, helst 36% feitur
1 msk. fljótandi hunang
1 límóna
Skolið límónur og þerrið. Rífið börkinn af með fínu rifjárni og kreistið safann. Blandið sýrðum rjóma og hunangi saman ásamt límónusafa og berki. Athugið að setja ekki allan safann og börkinn strax saman við, smakkið til og metið hvort þið notið allt.
Ljóska með möndlum og vanilluplómur
150 g smjör
200 g hvítt súkkulaði
150 g sykur
100 g rjómi
100 g hveiti
3 egg
50 g skrældar möndlur
Bræðið smjör í potti, setjið rjóma og sykur í annan pott og hitið að suðu. Setjið súkkulaði í stóra skál og hellið heitu smjörinu yfir og hrærið saman. Hrærið rjómablöndunni vel saman við, því næst möndlum og eggjum og síðast hveitinu. Klæðið botninn á bökunarformi með bökunarpappír og hellið deiginu í. Bakið á 130 °C í 30–40 mínútur og látið kólna á borðinu, skerið í passlega bita og berið ljóskuna fram með ristuðum möndlum og vanilluplómum í sírópi.
Vanilluplómur
150 g sykur
2 dl vatn
1-2 vanillustangir (eða betri gerðin af vanillusírópi úr búð)
1 anísstjarna
6 stk. plómur
Kljúfið vanillustangir eftir endilöngu og skafið innan úr þeim með bakinu á hnífnum og setjið allt saman í nettan pott, bætið sykri, vatni og anísstjörnu við og sjóðið á hægum hita í 10 mínútur. Skerið plómur í tvennt (fernt ef þær eru mjög stórar) og fjarlægið steina. Bætið plómunum í sírópið og hitið varlega að suðu og slökkvið.
Plómurnar eiga að sjóða í gegn, en halda forminu. Kælið plómurnar og geymið í sírópinu í kæli þar til þið notið þær.
Almennt um bökunartíma á kökum
Almennt miða ég við blástursstillingu fyrir það hitastig sem fylgir uppskriftinni. Ekki taka leiðbeiningum um hitastig og mínútufjölda of bókstaflega, því að það er alls ómögulegt fyrir þann sem skrifar leiðbeiningarnar að vita ýmislegt í ykkar aðstæðum. Til dæmis stærð og ummál þess bökunarforms sem þið veljið.
Verði t.d. 800 g af kökudeigi í ljóskuna að köku sem er 1 cm að þykkt eða kannski 5 cm, þá er augljóst að það muni skakka ansi miklu á bökunartímanum. Kannski viljið þið bjóða ljóskunni ykkar upp á netta „sólbrúnku“, þá er ráð að hækka hitastigið. Hvaða tegund af ofni þið notið, tækin eru eins ólík og þau eru mörg. Ekki má treysta blint á að hitastilling skili nákvæmlega réttri niðurstöðu inni í sjálfum ofninum.
Svo er mjög algengt að heimilisofnar skili misjöfnu hitastigi eftir því hvar í ofninum kakan bakast.