Virkni félagslífsins fyrir öllu
Við heimskautsbauginn, rúma fjörutíu km frá landi, liggur nyrsta byggð Íslands, Grímsey. Þótt fámenn sé er félagslífið í fullum blóma, t.a.m. Kvenfélagið Baugur sem er nær sjötíu ára.

Ljós og skuggar leika listir sínar á þessum fámenna stað, en íbúafjöldinn telur um 20 manns að vetrarlagi en er heldur meiri þegar tekur að sumra. Þarna er þó rótgróið samfélag sem heldur utan um mikið og gott félagslíf, þar eru starfandi bæði Kiwanisklúbburinn Grímur svo og kvenfélagið Baugur, stofnað árið 1957.
Yfir veturinn eru það sex til átta konur sem halda uppi öflugu starfi kvenfélagsins og segir formaðurinn, Anna María Sigvaldadóttir, ávallt eitthvað um að vera og mæting sé þétt og góð á alla viðburði þótt samfélagið sé ekki stórt.
„Um þessar mundir er auðvitað haldið þorrablót, það hefur haldist öll þau 34 ár sem ég hef búið hér – og það er mikil skemmtan. Við höfum haft þann háttinn á að gestir koma hver og einn með sinn þorramat. Það getur nefnilega verið svo bagalegt að kaupa heilmikinn mat og sitja svo uppi með hann ef veðrar allt í einu þannig að þurfi að fresta blótinu. Fólk hefur tekið vel í þetta og mætingin afar góð. Nú í ár fengum við hljómsveitina Í góðu lagi frá Húsavík auk annarra skemmtiatriða, en við höfum alltaf haft þann háttinn á að gera góðlátlegt grín að hvert öðru, sýnum vídeósketsa og þar fram eftir götunum. Þetta er siður hér á þorranum,“ segir Anna María.
Nauðsynlegt að halda samfélaginu virku
„Almennt þá eldum við tvisvar í mánuði ofan í Kiwanismenn þegar þeir halda fundi og sömuleiðis fyrir þá mánaðarlegu fundi sem við höldum sjálfar. Saltkjöt og baunir, páskakaffi, sjávarréttakvöld og sólstöðuhátíð í kringum 21. júní. Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur, karlakór Eyjafjarðar kom hingað í fyrra og söng fyrir kaffihlaðborði. Þegar við vorum hérna fleiri búsett þá voru spilakvöld einu sinni í mánuði og við spiluðum vist.
Jólahlaðborð er svo í okkar höndum fyrir jólin og jólaball milli jóla og nýárs, mjög vel mætt á hvort tveggja – Kiwanismenn taka að sér skötuveisluna á Þorláksmessu. Félagslífið er öflugt eins og ég nefndi áðan og ef við viljum halda því lifandi verðum við að halda áfram að vera virk í samfélaginu þótt við séum fámenn. Það er bara þannig. Auðvitað er í dag meira flakk á fólki en áður, lítið mál að skjótast inn eftir og fara á tónleika – sem var ekki hér áður fyrr þegar fólk fór ekki í land nema að nauðsyn bæri til,“ segir Anna María og hlær.

Samfélagið hefur alla tíð haldið upp á 11. nóvember, afmælisdag Willard Fiske, velgjörðarmann eyjarinnar, og þá er boðið upp á heitt súkkulaði og kökur. „Þetta er siður sem hefur haldist hér frá því að elstu menn muna og sama hve mannfjöldinn er mikill í eyjunni,“ segir Anna María. Willard Fiske var bandarískur ritstjóri og fræðimaður sem féll fyrir landi okkar og þjóð, lærði íslensku og dvaldi á Íslandi um hríð 1879. Við andlát sitt ánafnaði hann Grímsey heilmiklum auðæfum, samfélaginu til heilla.
Fjarvinna og styrkir ýmissa málefna
„Hvað varðar styrki þá erum við duglegar að styrkja almenn málefni þó við séum sjaldnast með bein verkefni. Við styrkjum til dæmis unga konu sem er búsett hérna, Drífu Ríkarðsdóttur, en hún gerði sér lítið fyrir og setti þrjú Íslandsmet í kraftlyftingum á Reykjavíkurleikunum í fyrra. Við höfum styrkt hana bæði á HM og EM. Sama gildir um krakka héðan sem eru að fara í keppnisferðir, við höfum styrkt hollvinasamtök og mataraðstoð RKÍ í fjöldamörg ár. Í rauninni þegar fólk leitar til okkar þá reynum við að verða að liði. Ef það er jarðarför í Grímsey þá gefum við undantekningalaust erfidrykkjuna.

Kirkjan í Grímsey, Miðgarðskirkja, brann fyrir nokkrum árum en er nú að mestu byggð aftur. Kvenfélagið Baugur veitti þangað bæði fjármagni auk heilmikils vinnuframlags. Til viðbótar gáfu þær kirkjunni timburklæðninguna að innan auk þess að standa fyrir söfnun með happdrættisvinningum og söfnuðu þannig tæpri milljón.
„Að lokum verð ég að nefna að við í kvenfélaginu fengum styrk fyrir nokkrum árum og höfum í félagsheimilinu útbúið herbergi þar sem hægt er að vinna fjarvinnu. Þar eru tölvur, hækkanleg skrifborð og góð aðstaða fyrir hvern þann sem hefur áhuga á að koma og leigja sér rými fyrir lítinn pening. Við viljum að fólk geti unnið héðan eins og annars staðar í fjarvinnu,“ segir Anna María.
Næsta víst er að tilhugsunin um fjarvinnu frá þessum fallega stað heilli marga og því ekki úr vegi að kanna þann möguleika, vitandi af blómstrandi félagslífi í bland við þá innri ró.
