Ætla að auka vægi fjölskyldubúskapar
Sameinuðu þjóðirnar gáfu út fyrir nokkrum árum að áratugur fjölskyldubúskapar skyldi vera frá 2019-2028.
Markmiðið með því er að varpa ljósi á hvað það þýðir að stunda fjölskyldubúskap í heimi sem breytist hratt og sýna fram á mikilvægt hlutverk þess konar búskapar. Litið er á átakið sem lið Sameinuðu þjóðanna í að ná sjálfbærnimarkmiðum sínum.
Um 80% af þeim mat sem við neytum veltur á vinnu fjölskyldubúa um allan heim og því eru þessi bú í lykilstöðu til að eyða hungri og að móta framtíð matvæla.
Fjölskyldubúskapur býður upp á einstakt tækifæri til að tryggja fæðuöryggi, bæta lífskjör, fara betur með náttúruauðlindir, vernda umhverfið og ná fram sjálfbærri þróun, sérstaklega í dreifbýli. Fjölskyldubúskapur er í lykilstöðu til að gera matvælakerfi á hverju svæði sjálfbærari, en til þess þurfa stjórnvöld að styðja bændurna í að minnka matarsóun og að stjórna betur náttúruauðlindum. Ákall Sameinuðu þjóðanna er að til að auka vægi fjölskyldubúskapar og til að stuðla að nýliðun þurfi bændur að hafa aðgang að innviðum, tækni, nýsköpun og mörkuðum.