Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum grundvelli og hefur það þróast með breyttum tíðaranda og tækniframförum. Það heyrir til undantekninga að landbúnaðarmiðaður prentmiðill sé sá stærsti meðal fréttamiðla þjóða en í slíkri stöðu hefur Bændablaðið verið að undanförnu. Að baki slíkri frammistöðu liggur mikill metnaður allra þeirra sem hafa komið að útgáfunni allt frá upphafi.

Nýstofnuð Bændasamtök Íslands voru útgefandi fyrsta tölublaðs og 1. árgangs Bændablaðsins sem kom út þriðjudaginn 14. mars árið 1995. Blaðið kom út á fyrsta Búnaðarþingi hinna sameinuðu samtaka Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Allt frá upphafi hefur blaðið verið sent til bænda endurgjaldslaust.

Á upphafsárum þess var blaðinu ætlað að kynna fyrir öðrum stefnu Bændasamtakanna og veita gagnlegar upplýsingar um landbúnaðinn.

„Með slíku kynningarstarfi skapast auknir möguleikar að hafa áhrif á umræðuna um landbúnað og gera hana jákvæðari fyrir hann. Slíkt er mjög mikilvægt til þess að gildi hans fyrir samfélagið njóti sammælis,“ ritar Jón Helgason, fráfarandi formaður Búnaðarfélags Íslands í fyrsta leiðara blaðsins.

Síðan þá hefur blaðið þróast með breyttum tímum, breikkað út umfjöllunarefni sín og nálganir að efnistökum og kafað ofan í málefni sem tengjast landbúnaði og málefnum hinna dreifðu byggða.

Blöð geta haft áhrif

Áskell Þórisson var ritstjóri Bændablaðsins frá árinu 1995 til 2006 og auglýsingastjóri frá upphafi var Eiríkur Helgason en hann starfaði fyrir blaðið til ársins 2013. Viðtal við Áskel má nálgast á bls. 38. Þar lýsir hann vel fyrstu árum útgáfunnar, hvernig vinnsla prentmiðla var mun flóknari fyrir tíma internets og hins stafræna og hvaða fjallabaksleiðir þurfti að fara til að koma prentmiðlinum til lesenda. Hann segir þar óneitanlega gagn af því að Bændablaðið sé til staðar og bendir á mikilvægt hlutverk fjölmiðla, bæði sem aðhald og endurspeglun á samfélagið.

„Blöð geta haft áhrif. Ef þau eru skrifuð og unnin af fólki sem hefur metnað fyrir því sem það er að gera, og vill gera vel, þá síast það út í gegnum síðurnar á blaðinu,“ segir Áskell.

Auglýsingadeild Bændablaðsins hefur stóreflst hin síðari ár og skilað miklum árangri. Komast jafnan færri auglýsendur að en vilja. Mynd / ghp
Útbreiðslan tvöfaldast

Þröstur Haraldsson tók við ritstjórn Bændablaðsins á haustmánuðum 2006 en hafði þá þegar verið að leggja efni til blaðsins í þónokkur ár. Hann var ritstjóri í tæp fimm ár, á afar róstusömum tímum.

„Ég kom að blaðinu sem blaðamaður vorið 2006 en hafði raunar skrifað frílansgreinar fyrir Áskel af og til frá því hann tók við blaðinu 1995. Hann hættir haustið 2006 og ég varð þá ritstjóri. Á þeim tíma hafði blaðið náð talsverðri útbreiðslu, en hún tvöfaldaðist minnir mig meðan ég er ritstjóri. Fyrstu þrjú árin var gengi blaðsins mjög gott, en haustið 2008 varð eitt lítið efnahagshrun sem hafði talsverð áhrif. Ég held ég geti sagt að auglýsingarnar hafi hrunið með efnahag landsins, en þær voru samt furðu fljótar að aukast aftur og þegar ég hætti um áramótin 2010/11 var hagur þess orðinn viðunandi aftur,“ segir Þröstur.

Blaðið lét ekki sitt eftir liggja í umdeildum málum sem upp komu í kjölfar efnahagshrunsins. Umfjöllunarefni blaðsins víkkuðu út og náðu til breiðari lesendahóps en þeirra sem voru beintengdir landbúnaði.

Árið 2007 var vefur Bændablaðsins, bbl.is, opnaður og hefur hann birt efni og stutt við prentmiðilinn allar götur síðan. Hefur það gert honum kleift að ná enn víðtækari útbreiðslu.

„Á fyrstu árunum voru umræðuefni blaðsins hefðbundin landbúnaðarpólitík, líf og störf bænda og landsbyggðarfólks, en með hruninu hljóp meiri harka í alla pólitík,“ segir Þröstur og rifjar upp það jákvæða viðhorf sem Bændablaðið naut í hans ritstjórnartíð.

„Ég gæti talið upp ýmis hrósyrði sem ég fékk að heyra um blaðið meðan ég stýrði því en ætla að láta eina tilvitnun nægja. Þannig var að einn starfsmanna Bændasamtakanna kom í heimsókn til roskins bónda á Suðurlandi, kveður dyra og gengur inn. Í anddyrinu var nýútkomið tölublað Bændablaðsins og hann tók það með sér og færði bónda, sem svaraði: „Nú, er Bændablaðið komið út? Þá verður ekki unnið meira í þessari sveit í dag.“

Mest lesni prentmiðillinn

Hörður Kristjánsson tók við ritstjórn blaðsins árið 2011. Á þeim tólf árum sem hann stýrði blaðinu jukust umsvif útgáfunnar verulega.

Blaðsíðum hvers tölublaðs fjölgaði og upplag þess stækkaði til muna og varð þá útbreiddasta blað landsins. Þegar Bændablaðið tók fyrst þátt í prentmiðlakönnun Gallup árið 2012 kom enda í ljós að blaðið væri langmest lesna blað landsbyggðarinnar og hefur verið síðan þá.

Þegar Bændablaðið fagnaði 20 ára útgáfuafmæli undir eignarhaldi Bændasamtaka Íslands var Tímarit Bændablaðsins gefið út. Árlegur útgáfudagur þess var stílaður inn á Búnaðarþing en síðar kom það einnig út í tilefni landbúnaðarsýningar sem haldin var í Laugardalshöll.

Í pistli sínum í fyrsta tímaritinu, árið 2015, fjallar Hörður um velgengni blaðsins þá síðustu ár og sterka stöðu þess. Hann segir þar að slíkur árangur hafi einungis náðst með „þrotlausri vinnu starfsfólks í náinni og ánægjulegri samvinnu við bændur og lesendur“. Eiga þessi orð enn fyllilega við í dag.

Síðar segir Hörður: „Það er líka afar mikilvægt í hörðum fjölmiðlaheimi að Bændablaðinu auðnist að halda landsmönnum vel upplýstum um mikilvægi allra búgreina fyrir land og þjóð.“

Tímaritið kom út á árunum 2015 til 2021 og þótti góð viðbót við blaðið en með hækkandi prentkostnaði stóð slík útgáfa ekki undir sér.

Hörður nefnir mikinn lestur Bændablaðsins í pistli í Tímariti Bændablaðsins árið 2017 og segir hann að árangurinn sé „í raun ótrúleg niðurstaða og líklegast einsdæmi á heimsvísu fyrir sérhæft blað af þessum toga“.

Þá hafði hann reiknað sér til að um að þrír einstaklingar væru að meðaltali að lesa hvert einasta prentaða eintak Bændablaðsins að staðaldri. „Þessi árangur er síður en svo sjálfsagður. Þar hefur blaðið notið einstaklega mikillar velvildar og góðra samskipta við fólk um allt land og eru sjómenn og flugmenn þar ekki undanskildir. Án þessa væri Bændablaðið hvorki fugl né fiskur né pappírsins virði.“ Staða Bændablaðsins meðal mest lesnu prentmiðla landsins hefur haldist allar götur síðan.

Hörður lét af störfum vorið 2022 og tók þá undirrituð við ritstjórn Bændablaðsins.

Beint frá bónda

Bændablaðið starfrækti hlaðvarp, Hlöðuna, árin 2019–2021 en þar var boðið upp á fjölbreytta þætti með landbúnaðartengdu efni og er það enn aðgengilegt á helstu streymisveitum.

Samfélagsmiðlar gegna orðið hlutverki í útbreiðslu fjölmiðla og heldur Bændablaðið úti aðgangi á Facebook og Instagram. Á þeim vettvangi hafa bændur látið ljós sitt skína síðan í ársbyrjun 2024, en við útgáfu hvers blaðs hefur eitt bú tekið yfir samfélagsmiðla blaðsins og lýst lífi og starfi í nokkra daga. Geta lesendur þar öðlast þekkingu beint frá bónda í bókstaflegri merkingu.

Tvær námsritgerðir hafa verið ritaðar um Bændablaðið. Magnús Hlynur Hreiðarsson, sem hefur lagt til efni í blaðið frá árinu 2006, skrifaði um Bændablaðið í BA-ritgerð sinni í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2017. Þá tók Jón Oddur Jónsson Bændablaðið fyrir í námsritgerð við Háskólann á Bifröst árið 2023. Í báðum verkefnum hafa höfundar komist að þeirri niðurstöðu að Bændablaðið sé áreiðanlegur, líflegur, faglegur og traustur miðill, og upplýsandi um málefni atvinnugreinarinnar sem það stendur fyrir.

Bændablaðið hefur mælst mest lesni prentmiðill landsins tvö ár í röð. Í áraraðir hefur blaðið verið mest lesna blað landsbyggðarinnar en í fyrra bætti það um betur og reyndist einnig mest lesna blaðið á höfuðborgarsvæðinu. Heimild / Prentmiðlamæling Gallup á síðasta ársfjórðungi 2024
Afburðaárangur

Staða Bændablaðsins hefur aldrei verið sterkari og annað árið í röð mældist það mest lesni prentmiðill landsins árið 2024.

Í fyrsta sinn er Bændablaðið einnig mest lesna blaðið á höfuðborgarsvæðinu.

Lestur á vefsíðu Bændablaðsins hefur þrefaldast síðan árið 2021. Yngri lesendur hafa aldrei verið fleiri og má þar m.a. þakka framsetningu blaðsins á samfélagsmiðlum. Bændablaðið er því afskaplega dýrmætt vörumerki fyrir bændur til að ná til neytenda, því blaðið hefur verið vettvangur sem heldur á lofti málefnum sem snerta hinn mikilvæga atvinnuveg.

Auglýsingadeild blaðsins hefur jafnframt stóreflst hin síðari ár og skilað miklum árangri. Komast jafnan færri auglýsendur að en vilja. Á undanförnu ári hefur starfsmönnum blaðsins hlotnast sá heiður að vera tilnefndir til verðlauna fyrir störf sín.

Árið 2024 var forsíðumynd Sigurðar Más Harðarsonar frá árinu 2023 valin ein af bestu fréttamyndum ársins. Í ár var mynd Ástvaldar Lárussonar frá síðasta ári einnig valin til slíkrar tilnefningar. Þá hlaut undirrituð tilnefningu til blaðamannaverðlauna ársins 2024 í flokknum Umfjöllun ársins, en það var í fyrsta sinn sem efni blaðsins hlýtur slíka tilnefningu.

Blaðið er nú prentað í að jafnaði 33.000 eintökum og hefur verið að minnsta kosti 64 síður að lengd undanfarin þrjú ár.

Á undanförnu ári hafa starfsmenn blaðsins verið tilnefndir til verðlauna fyrir störf sín. Árið 2024 var forsíðumynd Sigurðar Más Harðarsonar frá árinu 2023 (efri) valin ein af bestu fréttamyndum ársins. Í ár var mynd Ástvaldar Lárussonar (neðri) frá síðasta ári einnig valin til slíkrar tilnefningar.

Áreiðanlegur og upplýsandi

Bændablaðið stendur fyrir fjölbreyttu umfjöllunarefni sem færir lesendum óvænta þekkingu á skýran máta.

Styrkleiki blaðsins felst í vönduðum efnistökum, sem aðrir fjölmiðlar sækja óhikað í, einmitt vegna þess að blaðið er traustur miðill. Þannig má leiða að því líkum að blaðið hafi áhrif á opinbera umræðu um landbúnaðarmál.

Hlutverk blaðsins er að miðla áreiðanlegum fréttum, veita faglegar upplýsingar og vera vettvangur skoðanaskipta. Við höfum verið óhrædd við að rýna í umdeild málefni með vönduðum fréttaskýringum. Við höfum lagt áherslu á metnaðarfulla blaðamennsku og að vera í sterku sambandi við bændur, vísindasamfélagið og fyrirtæki þvert á búgreinar og stjórnsýslu.

Tilgangur okkar hefur verið að lesandi geti viðað að sér svo skýrum og innihaldsríkum upplýsingum í Bændablaðinu að hann geti myndað sér upplýsta skoðun að lestri loknum og tekið afstöðu í mikilvægum málum. Það eru þessar umræður sem eru mikilvægar fyrir framgang landbúnaðar sem grunnstoðar samfélagsins. 

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...

Eignast allt Lífland
Fréttir 21. mars 2025

Eignast allt Lífland

Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af ...

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi
Fréttir 21. mars 2025

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi

Bændasamtök Íslands kalla eftir því að dráttarvélar og eftirvagnar í landbúnaði ...

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði
Fréttir 21. mars 2025

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði

Slátrun hjá Sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (SKVH) á Hvammstanga verður...

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...