Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Blómkálsframleiðandi hrökklast úr greininni
Fréttir 19. október 2023

Blómkálsframleiðandi hrökklast úr greininni

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændurnir í Norðurgarði hafa ákveðið að taka sér hlé frá grænmetisrækt eftir fjögur sumur í greininni.

Ásmundur Lárusson segir of lítið af grænmetinu hafa selst, þó svo að uppskeran hafi verið góð. Stærstur hluti græn-metisframleiðslunnar þeirra er blómkál, sem er ræktað samhliða mjólkurframleiðslu.

Líklegustu skýringarnar á dræmri sölu telur Ásmundur vera þær að Sölufélag garðyrkjumanna tilkynnti nauðsynlega verðhækkun og við það hafi stóru verslunarkeðjurnar aukið á innflutning, ásamt því sem framboð á innlendu blómkáli var meira en búist var við. Hann segir innflutt blómkál hafa verið selt samhliða því íslenska út ágúst, þó uppskeran hér byrji seinnipart júlí.

Upplifun Ásmundar var sú að innflutt blómkál hafi fengið meira pláss í verslunum samanborið við það íslenska, miðað við undanfarin ár. Á meðan hafi allir kælar hjá honum verið fullir. „Ég var kominn með níu tonn í kæli, en mátti bara selja tæpt tonn á viku.“ Hálfgert kvótakerfi er í gildi hjá Sölufélaginu og fá aðilar að leggja inn grænmeti miðað við framleiðslusögu síðustu þriggja ára. Þeir sem komi nýir inn þurfi að byggja sér upp kvóta.

Geymsluþol blómkálsins er ekki nema nokkrar vikur og jukust því afföllin eftir því sem grænmetið beið lengur. Um 17 prósent uppskerunnar fór forgörðum vegna geymsluskemmda sem annars hefði verið sett í fyrsta flokk. „Það hækkaði alltaf hlutfallið sem fór í kýrnar og í lokin var helmingurinn sem fór í fóðrið á móti því sem við létum í verslanir.“ Í Norðurgarði er ræktað brokkólí og hvítkál í minna magni og seldist það allt.

Eftir að búið er að reikna kostnað við fræ, áburð, yfirbreiðslur, vélavinnu, rafmagn og lágmarkslaun skilar framleiðslan liðlega 760 þúsund króna tapi af rúmlega níu milljón króna veltu. Í þessa tölu er búið að taka inn áætlaðan opinberan stuðning, sem er greiddur um áramót og getur verið breytilegur þar sem allir framleiðendur fá greitt úr sama pottinum.

Engin stytting vinnuviku

Ásmundur segist hafa áttað sig á því þegar hann byrjaði að þetta væri ekki mjög arðbær búskapur. Ræktun blómkáls er mjög vinnufrek og má hún ekki við miklum afföllum áður en hún fer að skila tapi.

Hann sá samt fyrir sér að þetta færi vel með kúabúskap, þar sem flest tæki og jarðnæði er til staðar. Þá fari ekkert til spillis því úrkastið fari í kýrnar og hægt sé að beita skepnum á upptekna garða. Þó það minnki skaðann að einhverju leyti, þá er blómkál ekki verðmætt kúafóður og segist Ásmundur ekki hafa orðið var við að það hafi aukið mjólkina í kúnum. „Þetta er þó vissulega fóður og þær slást um þetta.“

Bændurnir í Norðurgarði telja allar líkur á því að þau hætti grænmetisframleiðslu um sinn og horfa meðal annars til þess að byggja upp ferðaþjónustu í einhverri mynd í staðinn.

Þau hafi nýlega keypt jörð við hliðina á Norðurgarði með það í huga að stækka kúabúið, en allar framkvæmdir hafa verið settar á hilluna næstu fimm til tíu árin. Þá sér Ásmundur fram á að þurfa að draga saman í viðhaldi og að fresta þurfi nauðsynlegri endurnýjun á tækjakosti. Búreksturinn sé að verða lífróður á meðan vextir eru svona háir og erfitt er að borga af skuldum.

„Maður horfir fram á það að þurfa að vinna úti með þessu,“ segir Ásmundur. Þá mun Hannes Orri, sonur hans, vera eini aðilinn sem hafi fulla atvinnu af búrekstrinum þó Norðurgarður sé stórt kúabú. „Það er ekki skemmtileg staða fyrir börnin mín að taka við í þessu ástandi. Talandi um styttingu vinnuvikunnar hjá jafnöldrum þeirra þá eru þau að fara í öfuga átt.“

Ríkið þurfi að stíga inn

„Mér finnst núverandi staða bænda vera langt frá því viðunandi,“ segir Ásmundur. Búið er að skera stuðning til bænda stöðugt niður frá því hann hóf búskap fyrir 28 árum og er nú komið að þolmörkum. Ásmundur bætir við að ef stjórnvöld myndu hætta öllum stuðningi við landbúnað og bændur þyrftu að selja vörur sínar á því verði sem þær kosta í raun, myndi matvælaverð hækka verulega. Það myndi leiða til þess að innflutningur tæki yfir alla matvælaframleiðslu.

Raunin sé sú að öll ríki heims styrkja sína matvælaframleiðslu, sem geri það að verkum að bændur ráði að takmörkuðu leyti verðinu fyrir sína framleiðslu. „Ef við viljum sem þjóð vera með landbúnað verðum við að hlúa betur að honum,“ segir Ásmundur.

„Stærsti jákvæði punkturinn við að vera í grænmeti er að maður fær jákvæð viðbrögð frá fólki, sem er nærandi fyrir sálina,“ segir Ásmundur. Bein tengsl við viðskiptavini séu meiri en í mjólkurframleiðslu.

Nýtt Bændablað kom út í morgun

Skylt efni: Garðyrkja

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun
Fréttir 2. apríl 2025

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun

Á Hvammstanga er verið að þróa framleiðslu á íslensku víni. Rabarbarafreyðivínið...

Skepnur út undan í almannavörnum
Fréttir 1. apríl 2025

Skepnur út undan í almannavörnum

Dýraverndarsamband Íslands telur brýnt að styrkja stöðu dýra í almannavarnaástan...

Skoða bryggju austan við Vík
Fréttir 31. mars 2025

Skoða bryggju austan við Vík

Fyrirtækið EP Power Minerals Iceland ehf. hyggst gera bryggju við Alviðruhamra á...

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni
Fréttir 28. mars 2025

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni

Nærandi ferðaþjónusta er ný nálgun í ferðaþjónustu sem miðar að því að leggja ræ...

Endingarmeira malbik og vegklæðing
Fréttir 28. mars 2025

Endingarmeira malbik og vegklæðing

Með því að blanda hágæða jarðbiki úr endurunnum þakdúki í malbik eða vegklæðingu...

Amerísk kögurvængja og dvergmítill nýir landnemar
Fréttir 28. mars 2025

Amerísk kögurvængja og dvergmítill nýir landnemar

Dvergmítlar og ný tegund kögurvængju eru nýlegir landnemar á Íslandi og geta val...

Strandirnar standa sterkari eftir
Fréttir 27. mars 2025

Strandirnar standa sterkari eftir

Strandamenn hafa staðið í átaki til að stöðva fólksfækkun og efla innviði og atv...

Íslenskar paprikur árið um kring
Fréttir 27. mars 2025

Íslenskar paprikur árið um kring

Sölufélag garðyrkjumanna fékk nýverið 13,5 milljóna króna styrk vegna rannsókna ...