Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Skjaldfannardalur. Bærinn Laugaland er fremst til hægri á myndinni, en innar í dalnum vinstra megin við Selá er bærinn Skjaldfönn.
Skjaldfannardalur. Bærinn Laugaland er fremst til hægri á myndinni, en innar í dalnum vinstra megin við Selá er bærinn Skjaldfönn.
Mynd / Úr skýrslu Orkustofnunar
Fréttir 18. janúar 2016

Bræður frá Bakkafirði skoða öfluga vatnsaflsvirkjun í Skjaldfannardal

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Undirbúningsvinna er nú hafin  við Austurgilsvirkjun við upptök Selár í Skjaldfannardal við Ísafjarðardjúp. Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn, segist telja að þessar hugmyndir séu mjög jákvæðar fyrir svæðið í heild.  
 
Á bak við þetta verkefni stendur Bjartmar Pétursson, sem er fiskútflytjandi og núverandi eigandi Laugalands í Skjaldfannardal. Með honum er bróðir hans, Kristinn Pétursson, en þeir eiga uppruna að rekja á Bakkafjörð. Kristinn mun hafa verið að vinna að undirbúningi rannsóknarhlutans, en hann sat m.a. á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Austurlandi á árunum 1988 til 1991.
 
Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn, telur að ef af verði geti þetta orðið mikil lyftistöng fyrir innanvert Ísafjarðardjúp. Ekki sé verra að þeir sem að baki þessum hugmyndum standa séu mjög skarpir og vel meinandi menn.
 
Vegslóði gerður að rótum Drangajökuls
 
Í sumar var ruddur vegaslóði inn sunnanverðan dalinn og upp undir Drangajökul, eða að því svæði sem líklegt er fyrir uppistöðulón hugsanlegrar virkjunar. Segir Indriði að Vegagerðin hafi afsalað sér íhlutun vegna þessarar vegagerðar að öðru leyti en því að gerð hafi verið krafa um að framkvæma þetta með eins litlu raski og mögulegt væri. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, heimsótti Indriða á Skjaldfönn og skoðaði svæðið í haust ásamt fleirum. 
 
Uppsett afl áætlað 35 megawött
 
Bjartmar sagði í samtali við Bændablaðið að virkjanahugmyndirnar hafi verið settar í matsferli rammaáætlunar á síðasta ári. Samkvæmt skýrslu Orkustofnunar er gert ráð fyrir að uppsett afl Austurgilsvirkjunar yrði 35 megawött (MW) og áætluð orkugeta á ári 228 gígawattstundir (GWh). Hún myndi nýta vatnsafl sem fengist úr Vondadalsvatni sem er í 414 metra hæð yfir sjó, Skeifuvatni og Djúpa polli. Ráðgert er að meðalhæð inntakslóns í Vondadalsvatni yrði í 435 metra hæð yfir sjó. Þaðan yrði lögð 3,9 km löng vatnspípa úr trefjaplasti að stöðvarhúsi við Selá í Skjaldfannardal sem yrði í 45 metra hæð yfir sjó. Reiknað er með að nær allt jökulrennsli Selár fari í inntakslónið.  
 
Til samanburðar má nefna Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum sem nú er í undirbúningi. Þar er gert ráð fyrir 55 megawatta virkjun. VesturVerk áformar að umhverfis-, vatns- og jarðfræðirannsóknum vegna  Hvalárvirkjunar verði lokið fyrir árslok 2016. Þá er þriðja virkjunin, en nokkru minni, í undirbúningsferli á Ströndum, en það er Skúfnadalsvirkjun. 
 
Indriði Aðalsteinsson segir að hann sem landeigandi á Skjaldfönn og aðrir landeigendur í dalnum hafi á síðasta ári gefið leyfi til rannsókna sem talið sé að taki um 3 til 4 ár að framkvæma. 
 
Lítið umhverfisrask
 
„Allt varðandi þessa virkjun er að mínu mati mjög jákvætt. Svæðið sem kæmi til með að fara undir vatn við suðurenda Drangajökuls er ekkert nema tjarnaklasar, snjóskaflar og stórgrýtisurð. Virkjunarsvæðið yrði að mestu í landi Laugalands. Vatnamælingamenn og aðrir sem hafa skoðað þetta eru mjög bjartsýnir á að þarna fáist nægilegt og stöðugt vatn.“
 
Minnkar flóðahættu og skapar möguleika fyrir ferðaþjónustu
 
„Þá mun þetta lón jafna mikið vatnsrennsli Selár þannig að flóð í ánni sem hafa verið að kvelja mann og pína á undanförnum árum yrðu sennilega alveg úr sögunni. Þá gæti þetta bætt fiskgengd í Selá. Með vegagerð vegna virkjunarinnar yrði í fyrsta sinn hægt að komast akandi alveg að Drangajökli. Þetta gæti skapað mikla möguleika fyrir ferðamennsku og akstur vélsleða og jeppa á jökulinn yfir sumartímann á auðveldari máta en verið hefur.“
 
Hringtenging getur stóraukið afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum
 
Ótryggt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum hefur verið mjög í umræðunni á undanförnum árum. Eitt stærsta vandamálið þar er aðflutningur raforku frá raforkuflutningskerfi Landsnets  inn á Vestfirði og skortur á hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum ef einhvers staðar verður truflun eða rof á línum. Því hafa verið uppi hugmyndir um að leggja rafstreng frá Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum yfir í Ísafjarðardjúp og þaðan  mögulega með sæstreng í Álftafjörð eða í Arnarnes við Skutulsfjörð. Slík lagning yrði þó mjög dýr í framkvæmd. Með Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal yrðu flutningsleiðir og tengingar við landskerfið mögulega einfaldari og ódýrari auk þess sem tenging við Hvalárvirkjun myndi styrkja báða virkjunarkostina. 
 
„Ef þetta gengur eftir verður þetta mikil bylting fyrir alla möguleika á svæðinu sem ekki voru áður fyrir hendi eins og vegna ferðaþjónustu,“ segir Indriði Aðalsteinsson. 

3 myndir:

Skylt efni: vatnsaflsvirkjun

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu
Fréttir 29. nóvember 2024

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Laxabraut 31 ...

Kjúklingar aftur í Grindavík
Fréttir 29. nóvember 2024

Kjúklingar aftur í Grindavík

Reykjagarður hf. hefur endurvakið kjúklingarækt í Grindavík eftir ellefu mánaða ...