Brugðist við áfellisdómi
Matvælastofnun hefur brugðist við niðurstöðum stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar sem birt var 16. nóvember 2023, þar sem áfellisdómur birtist um eftirlit stofnunarinnar með dýravelferð.
Stofnunin hefur gefið út skýrslu þar sem þeim viðbrögðum er lýst lið fyrir lið sem gripið hefur verið til í kjölfar úttektar og ábendinga Ríkisendurskoðunar.
Ekki náð að byggja upp nægilegt traust
Í stjórnsýsluúttektinni kom fram að stofnunin stæði frammi fyrir margvíslegum áskorunum þar sem ekki hafi tekist að byggja upp nægilegt traust sem nauðsynlegt sé hverri eftirlitsstofnun.
Í samantekt skýrslu Matvælastofnunar segir að stofnunin hafi unnið að stefnumótun og öðrum umbótum með það að markmiði að efla stofnunina í að sinna sínu hlutverki, hlúa betur að starfsfólki og efla traust almennings og viðskiptavina á störfum stofnunarinnar.
Ný vinnubrögð við beitingu þvingunarúrræða í dýravelferðarmálum hafi aukið skilvirkni og hraðað úrvinnslu mála. Farið var í sérstakt átaksverkefni með öllum starfsmönnum í frumframleiðslueftirliti og hafi samræming þegar aukist til muna sem og samráð milli umdæma. Aukin áhersla hafi verið lögð á að meta hæfni og getu umráðamanna til að halda dýr sem og getu þeirra til að sinna eigin eftirliti í samræmi við kröfur löggjafar. Brugðist er við ábendingum varðandi dýravelferð eins hratt og vel og unnt er.
Allar ábendingar teknar alvarlega
Þá segir í skýrslu Matvælastofnunar að í lok síðasta árs hafi 92% slíkra ábendinga um dýravelferð annaðhvort verið lokið eða komið í ferli innan stofnunarinnar þar sem allar ábendingar væru teknar alvarlega, rýndar og settar í viðeigandi ferli.
Skýrslu Matvælastofnunar má nálgast í gegnum vef hennar, mast.is