Búið Espihóll valið fyrirmyndarbú LK
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Espihóll í Eyjafjarðarsveit hlaut nafnbótina Fyrirmyndarbú LK 2017, en um það var tilkynnt á árshátíð LK í tengslum við aðalfund á Akureyri á dögunum.
Verðlaunin eru veitt því búi sem þykir til fyrirmyndar á hinum ýmsu sviðum. Félagsbú er á Espihóli, rekið af bræðrunum Kristni og Jóhannesi Jónssonum, ásamt eiginkonum þeirra, Ástu G. Sveinsdóttur og Sigurlaugu Björnsdóttur. Á búinu eru 60,6 árskýr og meðalnytin voru þriðju hæstu á landinu árið 2016, eða 8.206 kg. Þykir búið til fyrirmyndar í hvívetna og er þátttakandi í félags- og ræktunarstarfi svo eftir er tekið.