Eignast allt Lífland
Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af framtakssjóði. Fyrir átti hann helming fyrirtækisins.
Hlutinn kaupir Þórir af framtakssjóðnum Horni III, sem er í rekstri Landsbréfa. Sjóðurinn keypti helmingshlut fyrirtækisins af erfingjum Kristins Björnssonar sem lést árið 2015, en Kristinn og Þórir áttu Lífland saman. Arnar Þórisson tók við hlutverki forstjóra fyrirtækisins af föður sínum árið 2023 eftir að Þórir lét af daglegum störfum.
Lífland hét áður Mjólkurfélag Reykjavíkur og var stofnað árið 1917. Fyrirtækið sérhæfir sig í sölu og framleiðslu á fóðri fyrir búfé ásamt sölu á rekstrarvörum fyrir bændur. Lífland á Nesbú egg og Kornax hveiti og á jafnframt norska dótturfyrirtækið Lifland Agri sem sérhæfir sig í sölu á búnaði fyrir fjós. Hjá Líflandi og dótturfélögum þess starfa samtals 140 starfsmenn.