Einstakt litaafbrigði í íslenska hrossastofninum
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Bændablaðið fregnaði af því að á Íslandi væri nú til graðfoli sem kominn er á fjórða vetur og er með einstakan lit. Freyja Imsland, doktor í erfðafræði, og Baldur Eiðsson, eigandi folans, staðfestu að svo væri.
Folinn sem um ræðir heitir Ellert og er frá Baldurshaga. Hann er óvanalegur á lit, bleikálóttur, breið-blesóttur, með stórt og mikið vagl í báðum augum. Fæturnir og kviðurinn hvítur. Bakið er dökklitt, en síðurnar yrjóttar eins og hálsinn. Litmynstrið á Ellerti er kallað ýruskjótt.
Gerð var sameindaerfðafræðileg rannsókn á Ellerti, og leiddi hún í ljós að hann ber glænýjan erfðaeiginleika sem kemur svona fram í litnum.
„Enn sem komið er er Ellert eini hesturinn í gervallri veröld sem ber nákvæmlega þessar literfðir. En þó vitum við eitthvað um litinn, út frá sameindafræðilegum skyldleika við hóp þekktra literfða sem finna má í ýmsum erlendum hrossakynjum. Þessi hópur lita nefnist ríkjandi hvítt, og er þekktastur þannig að fullorðin hross eru oft alhvít, með bleika húð en dökk augu,“ segir Freyja Imsland.
– Sjá nánar á bls. 23 í nýju Bændablaði.