Erfitt uppdráttar hjá hunangsframleiðendum
Hunangsframleiðendur í Evrópu horfðu fram á sögulega lélegt framleiðsluár í fyrra og nú lítur út fyrir að árið í ár muni litast af miklum andstæðum í álfunni.
Í Norður-Evrópu var framleiðsla yfir meðallagi góð á meðan suðurhluti álfunnar, þar sem mesta framleiðslan á sér stað í venjulegu ári, varð fyrir alvarlegum þurrkum, svo framleiðsla þar var allt að 80% minni en í meðalári.
Síðastliðið sumar í Norður- Evrópu einkenndist af blómstrandi vori með nægri nektarframleiðslu þar sem rigndi reglulega á meðan Suður-Evrópa glímdi við eina verstu þurrka í áratugi sem hafði áhrif á getu býflugnanna til að framleiða hunang. Enn fremur hefur orkukreppan og almenn verðbólga haft alvarlegar afleiðingar á afkomu evrópskra býflugnaræktenda svo margir hverjir óttast um framtíðarstöðu greinarinnar. Sem dæmi má nefna hækkun á verði umbúða, þar með talið á glerkrukkum, sem hefur verið á bilinu 15-60% eftir löndum, eldsneyti upp undir 40% hækkun, rafmagn á bilinu 50-150% hækkun ásamt fóðri fyrir býflugur, sem hefur hækkað um allt að 70%. Með hliðsjón af því að birgðir hunangs frá 2021 til 2022 hafa verið mjög litlar og eftirspurn haldist stöðug þá sýnir núverandi staða nokkurt ósamræmi á evrópskum markaði.
Krefjast aðgerða
Stanislav Jaš, formaður vinnuhópsins Hunang, hjá Evrópusamtökum bænda, Copa Cogeca, vakti máls á vandanum á dögunum og lét eftirfarandi ummæli falla:
„Evrópskir býflugnaræktendur eru að ganga í gegnum mjög mikilvægt tímabil. Ég hef á tilfinningunni að ég sé að endurtaka mig ár eftir ár en sjálfbærni evrópskrar framleiðslu og nauðsynleg frjóvgunarþjónusta er í húfi. Við erum að missa framleiðslumöguleika á mörgum lykilsvæðum í Evrópu, aðallega vegna loftslagsbreytinga og efnahagsástands sem ógnar hagkvæmni býflugnaræktar alls staðar í ESB. Meira en nokkru sinni fyrr verðum við að sjá gagnsæi á hunangsmarkaði. Í samræmi við víðtæka stefnumótun um sjálfbærni samkvæmt evrópska græna samningnum, eins og Farm to Fork- stefnunni, getur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ásamt evrópskum höfuðborgum, komið á fót áþreifanlegum verkfærum og aðferðum sem gætu hjálpað bæði framleiðendum og neytendum. Við biðjum um raunverulegar aðgerðir!“
Fleiri bú en minni framleiðsla
Vegna stöðunnar hefur Copa Cogeca ítrekað ákall sitt um endurskoðun á hunangstilskipun ESB, sem á meðal annars að styrkja upprunamerkingar ásamt því að bæta reglur um rekjanleika til að berjast gegn viðskiptum með falsað hunang. Nauðsynlegt þykir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggi til lagabreytingar og eftirlitskerfi sem styður við afkomu hunangsframleiðenda, tryggi aðgang neytenda að ósviknum og vönduðum mat og geri aðildarríkjunum kleift að berjast gegn svikum.
Hunangsframleiðendur í Evrópusambandinu framleiða um 60% af því sem neytt er í álfunni. Samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), dróst framleiðslan í ESB saman um 16% milli áranna 2015-2020 en fjöldi býflugnabúa jókst um 16% á sama tíma. Frá árunum 2016-2021 hefur innflutningur á hunangi frá Kína til ESB verið stöðugur en á sama tíma hefur meðalinnflutningsverð lækkað um 21%. Hins vegar hefur innflutningur frá Úkraínu aukist á sama tíma um 47% og er núverandi meðalverð á evrópsku hunangi sem selt er í lausu á bilinu 3-5 evrur á kílóið.