Fjárbúskapur og æðardúnn
Jóhanna Ósk Kristjánsdóttir, bóndi og húsfreyja í Árnesi II, segir náttúrufegurð í Árneshreppi einstaka en að því miður sé einangrun hreppsins mikil á veturna og að hana verði að rjúfa til að ungt fólk vilji flytja sveitina.
„Ég flutti hingað vorið 1990 og uni hag mínum vel,“ segir Jóhanna. „Ég var ekki hér síðastliðinn vetur en bjó með yngstu dóttur okkar Ingólfs Benediktssonar bónda í Reykjavík vegna þess að hún var að klára tíunda bekk í Fellaskóla. Ég geri svo fastlega ráð fyrir að vera með búsettu hér allt árið í framtíðinni.“
Dúntekjan veruleg búbót
Ingólfur og Jóhanna eru með rúmlega tvö hundruð kindur á fóðrum auk þess sem þau nytja dún í Árnesey ásamt ábúendunum í Árnesi II. Jóhanna segir að dúntekjan sé veruleg uppbót fyrir búið og haldi því í raun uppi. „Tekjur af æðardúninum eru breytilegar milli ára og fara eftir verðinu sem við fáum fyrir hann og hversu mikið eyjan gefur. Magnið getur verið allt frá þrjátíu og upp í sjötíu kíló af hreinsuðum dún þegar mest er enda varpið stórt.
Vinnan við varpið og dúninn er talsverð. Við förum í eyjuna á vorin og hugum að hreiðrunum og dyttum að fuglahræðunum. Eftir að fuglinn kemur er farið um eyjuna og dúni safnað í poka og hann fluttur í land á báti. Þegar komið er í land er dúnninn settur á grindur til að þurrka hann og hrista úr honum mesta ruslið. Inni til að byrja með en úti þegar veður leyfir. Því næst er dúnninn sendur í hreinsun hjá Íslenskum æðardúni.“
Vonandi um tímabundna fækkun að ræða
Jóhanna segir að þrátt fyrir að það sé slæmt fyrir sveitina að ellefu manns séu að flytja burt vonist hún til að um tímabundna fækkun sé að ræða og að það flytji nýtt fólk í hreppinn og helst fólk með börn.
„Mín persónulega skoðun á fækkuninni er sú mikla einangrun sem fólkið í hreppnum býr við og þeim raunveruleika að fólk er bundið hér nánast allan veturinn. Það er flug á Gjögur tvisvar í viku á veturna en einu sinni í viku á sumrin en því miður er það ferðamáti sem ég get ekki notfært mér nema í ýtrustu neyð vegna flughræðslu. Ég er því í raun föst hér eftir að vegurinn lokast um áramótin og þar til hann er opnaður aftur um 20. mars.
Í mínum huga er númer eitt, tvö og þrjú að rjúfa vetrareinangrun hreppsins til að hingað vilji flytja ungt fólk,“ segir Jóhanna í Árnesi II.