Þýskaland losar 2.489 tonn af CO2 á ferkílómetra, en Ísland er samt sagt losa meira með 60 tonn á ferkílómetra
Andrúmsloftið á jörðinni er sameign allra jarðarbúa. Loftmengun er líka alþjóðlegt vandamál og mengun í einu landi skiptir hvern einasta jarðarbúa því jafnmiklu máli. Óháð staðsetningu, kyni, eða litarhætti. Þetta hefur verið viðurkennt af alþjóðasamfélaginu í öllu talinu um loftslagsvá. Hins vegar hefur verið búið til heljarmikið kolefnishagkerfi í kringum þetta þar sem jafnræði milli jarðarbúa er víðsfjarri. Í því kerfi geta stórþjóðir sem menga mjög mikið komið mun betur út en smáþjóðir, vegna niðurdeilingar losunar á CO2 á íbúafjölda.
Kerfið sem opinberlega er notast við til að gefa út samanburðartölur um losun þjóða á gróðurhúsalofttegundum reiknar mengun út frá hlutfalli losunar CO2 á hvern íbúa í einstökum löndum. Þessi aðferðarfræði gefur stórundarlegar niðurstöður þegar horft er á rauntölur um losun gróðurhúsalofttegunda og í heildarsamhengi hlutanna. Einnig út frá þeirri staðreynd að andrúmsloftið er hreyfanlegur massi sem hringsólar með veðrakerfum umhverfis jörðina.
Ástæðan er að dreifing jarðarbúa er mjög breytileg og flatarmál lands á hvern jarðarbúa mjög mismunandi eftir löndum. Staðsetning mengunarvalda, eins og stórra verksmiðja og kolaorkuvera, er líka mjög breytileg þannig að eitt álver í fámennu og dreifbýlu landi getur gefið því mun hærri mengunarstuðul en 100 álver í fjölmennu og þéttbýlu landi. Því gefur þessi reikniaðferð afar skrýtnar niðurstöður sem líta einstaklega furðulega út gagnvart ríkjum eins og Íslandi sem býr við hreinustu orkuframleiðslu sem völ er á í heiminum.
Braunkohlekraftwerk Schkopau brennir, eins og nafnið bendir til, brúnkolum sem er mun verra eldsneyti en venjuleg kol. Þetta 900 megawatta orkuver (210 MW stærra en Kárahnjúkavirkjun) er í sameiginlegri eigu Uniper í Þýskalandi og Saale Energie GmbH, sem aftur er í eigu tékknesku orkusamstæðunnar EPH. Orkuverið brennir allt að 6 milljónum tonna af þýskum brúnkolum á ári og framleiðir með því gufu og raforku, samkvæmt gögnum Uniper.
Er meðal-Íslendingur að menga 73% meira en meðal-Þjóðverji?
Með þessum aðferðum sem íslensk umhverfisyfirvöld tala meðal annars fyrir sem heilagan sannleik, fá menn það út að Íslendingar mengi um 73% meira á mann en meðal-Þjóðverji. Það er þrátt fyrir að tölur Eurostat sýni að Þjóðverjar eru með ótal verksmiðjur, ásamt kola og olíukyntum raforkuverum að losa 2.489 tonn af CO2 að meðaltali á ferkílómetra lands á meðan Íslendingar eru að losa um 60 tonn.
Þetta kemur líka vel fram þegar rýnt er í skýrslur um losun gróðurhúsalofttegunda frá öðrum sjónarhóli en venjulega er gert. Þar má t.d. nefna skýrslu Alþjóðaorkustofnunarinnar (IEA), sem heitir Global Energy Reviw 2019. Einnig skýrslu Eurostat sem byggir á gögnum frá því í júní 2020 og tileinkuð Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC). Skýrslan ber titilinn „Greenhouse gas emission statistics – emission einvetories“.
Helstu drifkraftar losunar CO2 ekki til umræðu
Í skýrslu Eurostat er tiltekin heildarlosun gróðurhúsalofttegunda að losun vegna flugsamgangna meðtöldum, en fyrir utan losun úr landi (þ.m.t. framræstu landi eða mýrum) losun vegna landnotkunar og losun vegna skógræktar. Það þýðir t.d. að endurheimt votlendis og mokstur í framræsluskurði skiptir ekki nokkru einasta máli í samkomulagi þjóðanna um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda.
Í skýrslunni er líka gengið hreint til verks og sagt að helstu drifkraftar losunar gróðurhúsalofttegunda vegna m.a. aukinnar orkuframleiðslu sé ekki til umræðu í skýrslunni. Þar komast menn samt að því að á árinu 2018 hafi losun gróðurhúsalofttegunda í ESB ríkjunum 27 (þ.e. án Bretlands), verið 21% minni en 1990. Þá hafi samdrátturinn í losun á þessu tímabili numið 1.018 milljónum tonna af CO2 ígildum. Þannig sé ESB að standast þau markmið að draga úr losun um 20% fyrir 2020 og á réttri leið varðandi markmið um 40% samdrátt á losun 2040 miðað við losun 1990 og allt miðað við höfðatölu.
Vissulega eru þetta huggulegar tölur sem lofa góðu. Dæmið lítur hins vegar talsvert öðruvísi út gagnvart einstökum þjóðum ef horft er á hlutina út frá sömu gögnum Eurostat, en á forsendum sem hvergi er talað um í skýrslunni eða opinberri umræðu um losun gróðurhúsalofttegunda.
Losun á heimsvísu nam 32,2 gígatonnum árið 2019, eða 4,2 tonnum á hvern jarðarbúa
Í skýrslu Alþjóðaorkustofnunarinnar (IEA) kemur fram að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á jörðinni hafi verið að aukast flest árin frá 1990. Lítil sem engin aukning hafi þó verið á árunum 2013 til 2016, en síðan talsverð aukning frá 2017. Þannig hafi losunin numið 32,2 gígatonnum (Gt) árið 2019, eða 32,2 milljörðum tonna af CO2 ígildum.
Ef við umreiknum það á alla 7,6 milljarða íbúa jarðarinnar 2019 eins og gert er í viðteknum viðmiðunarútreikningum ESB í loftslagsmálum, þá þýðir það 4,2 tonn á hvern einasta mann á jörðinni. Það er miklu lægri tala en meðaltalið í ESBríkjunum og ætti þá líklega að segja ansi mikið um hver er að menga fyrir hverjum. Þegar íbúar eru aftur á móti hólfaðir niður í mismunandi stórum hópum á misstór landsvæði, með mismunandi stórum mengunarvöldum, þá geta komið út ansi skrítnar niðurstöður. Því hlýtur að vera erfitt að rökstyðja að slíkir útreikningar, sem yfirvöld m.a. á Íslandi miða við, standist alltaf vísindalegar kröfur.
Með hreinustu orku í heimi en samt mestu mengunarsóðar Evrópu?
Í þeirri tölfræði sem notuð er í reiknilíkönum Eurostat er beitt þeirri aðferðafræði að umreikna losunartölur yfir á íbúafjölda hinna ýmsu Evrópulanda, líka landa utan ESB. Þessi aðferðafræði er jafnframt eina haldbæra skýringin sem hægt er að finna á því af hverju hið fámenna Ísland með allan sinn hreinleika sýnir eins háar losunartölur á CO2 og raun ber vitni. Þær tölur hafa síðan líka verið notaðar af umhverfisráðherra Íslands nýverið til að rökstyðja hótanir um að Íslandi beri að greiða refsitolla fyrir að standa sig illa í mengunarmálum. Þetta hefur líka verið notað sem röksemd fyrir því að leggja sífellt hærri kolefnisskatta á eigendur bíla með brunahreyflum á Íslandi. Það er þrátt fyrir að viðurkennt sé samkvæmt öllum raunmælingum, að landið sé líklega það umhverfisvænsta í heimi hvað varðar framleiðslu á raforku, með nærri 100% úr endurnýjanlegum orkulindum og kyndingu húsnæðis með jarðhita og hreinni raforku.
Vissulega skyggir það á hreinleikamynd orkuframleiðslu á Íslandi að héðan selja íslensk orkufyrirtæki aflátsbréf sem þau kalla hreinleikavottorð um uppruna orku. Komið hefur fram í fréttum að þessi aflátsbréf hafa verið notuð, m.a. í Hollandi, til að blekkja neytendur þar sem fyrirtæki geta sagst vera að framleiða vöru með hreinni orku frá Íslandi sem eru hrein ósannindi. Enda er það útilokað þar sem engir raforkuflutningar fara fram frá Íslandi til annarra landa. Öðru máli gæti gegnt ef hér væri framleitt vetni með raforku frá íslenskum vatns eða vindorkuverum og það síðan selt til útlanda. Þá væri hægt að láta slíku vetni fylgja vottorð um hreinan uppruna. Sala á aflátsbréfunum eða hreinleikavottorðunum þýðir að Orkustofnun á Íslandi verður að taka inn í upprunaskráninguna á Íslandi mengun frá upprunalandi kaupenda bréfanna. Þannig stóð einungis eftir að 9% raforku á Íslandi á árinu 2019 var sögð framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Samt heldur sama stofnun því fram að 99,9% raforkunnar sé framleidd með endurnýjanlegum hætti og viðurkennir þannig að sala upprunavottorða sé blekkingaleikur.
Það sem skekkir líka þessa mynd um mengun í heiminum er að mestu mengunarvaldarnir, eins og orkuframleiðsla og stóriðnaður, eru fyrir utan sviga þegar rætt eru um aðgerðir og refsingar í loftslagsmálum.
Losun CO2 sögð nema 8,7 tonnum á íbúa í ESB
Í skýrslu Eurostat kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda í ESB ríkjunum 27 var samtals 3.893.100.000 tonn í CO2 ígildum (um 3,9 milljarðar tonna) á árinu 2018. Það gerir 8,7 tonn á hvern einasta íbúa að meðaltali og hafði lækkað um 1,9 tonn á íbúa frá árinu 2000. Það eru tölur án Bretlands, en útganga þess þýðir að losun gróðurhúsalofttegunda í ESB ríkjunum eykst að meðaltali um 0,1 tonn á hvern einasta íbúa. Það þýðir að Bretar voru þá að losa minna en meðaltal ESB ríkja sýnir. Þarna er verið að nota tölur samkvæmt mælikerfi sem gengið var út frá við gerð Parísarsamkomulagsins þar sem stóru tölurnar eru utan sviga.
Þýskaland með 2.489 tonna losun á CO2 á ferkílómetra en 10,8 tonn á mann
Ef tölur um losun á CO2 eru skoðaðar í öðru ljósi og settar í samhengi við land, raunverulega losun, fjölda verksmiðja og orkuvera og stærð ríkja í ferkílómetrum, þá lítur dæmið allt öðruvísi út. Samkvæmt tölum Eurostat nam losun Þýskalands á gróðurhúsalofttegundum 2018 samtals 888,7 milljónum tonna ígilda CO2. Ef því er deilt niður á stærð landsins, um 357.340 ferkílómetra, þá nemur losunin rétt tæpum 2.487 tonnum á ferkílómetra.
Ef þessu er hins vegar deilt niður á hvern einasta af um 82 milljónum íbúa Þýskalands, þá voru þeir að meðaltali að losa um 10,8 tonn af CO2 á ári hver um sig (10,7 samkvæmt Eurostat).
Ísland með 60 tonna losun af CO2 á km2, en 17,8 tonn á mann
Samkvæmt sömu tölum í sömu skýrslu var heildarlosun Íslands 6,2 milljónir tonna af CO2 á árinu 2018.
Ef því er deilt niður á flatarmál landsins (102.775 km2), þá gerir það um 60,3 tonn á ferkílómetra, eða aðeins um 2,4% af losuninni í Þýskalandi.
Ef þessu er hinsvegar deilt niður á hvern íbúa Íslands 2018 (348.450) þá nam losunin um 17,8 tonnum á mann, eða um 73% meira en losunin var í Þýskalandi. Talan er reyndar 17,5 samkvæmt Eurostat og þá væntanlega miðað við eldir íbúatölu og hafði aukist um 1,2 tonn á íbúa frá árinu 2000.
Einungis Luxemborg er sögð með meiri losun á mann eða 20,3 tonn af CO2 ígildum. Þetta er síðan borðið á borð fyrir þjóðina af stjórnvöldum og ESB sem staðreynd um sóðaskap Íslendinga í loftslagsmálum og að við stöndum okkur næst verst allra Evrópuþjóða!
Ef við tökum síðan einungis heildar kolefnislosunina á Íslandi eins og hún er gefin í skýrslu Eurostat, og reiknum það í hlutfalli af heildarlosuninni í þýskalandi án allra annarra viðmiðana, þá er útkoman margfalt ýktari. Þjóðverjar voru að losa rúmlega 143 sinnum meira en Íslendingar. Samt ætlast umhverfisráðherra til að við borgum refsiskatt fyrir okkar losun.
Fljótvirkasta leiðin til að lækka CO2 losunartölur á Íslandi er að fjölga íbúum
Það hefur vakið athygli að á meðan Íslendingar búa við þá margsönnuðu staðreynd að raforka hér á landi er nær 100% framleidd með endurnýjanlegum hætti, þá eru Íslendingar eigi að síður sæmdir þeim vafasama heiðri af Evrópusambandinu að vera næstmestu sóðarnir í losun á koltvísýringi út í andrúmsloftið, næst á eftir Lúxemborg. Það er að vísu miðað við höfðatölu og vega álverin á Íslandi þar langþyngst í þessu ríflega 360 þúsund manna þjóðfélagi. Ef íbúar hér væru talsvert fleiri, þá væri staðan allt önnur.
Augljósasta og fljótlegasta leiðin fyrir Íslendinga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, eða öllu heldur til að lækka losunartölur samkvæmt framangreindum útreikningum, væri því að fjölga íbúum Íslands snarlega. Við þurfum ekki að fara nema í 610.000 íbúa til að „menga minna“ en Þjóðverjar. Við gætum meira að segja náð því marki fyrr með því að fá kannski 100.000 Þjóðverja til að skrá lögheimili sitt á Íslandi sem myndu þá dragast frá íbúatölu Þýskalands. Þá gætum við líka greitt þeim fyrir slíkan flutning á ríkisfangi með smá hluta af þeim refsisköttum sem ráðherra hyggst láta Ísland greiða til óskilgreindra útlendinga og áhættufjárfesta vegna kolefniskvótakaupa fyrir að standa sig ekki í loftslagsmálum.
Með sömu aðferðafræði og ríki heims leyfa sér að nota í útreikningum á kolefniskvótum og viðmiðunum í losun gróðurhúsalofttegunda, þá gætu íbúar á Akureyri eða Reykjavík skellt nær allri skuldinni af loftmengun Íslendinga vegna rekstrar álvera á Reyðfirðinga, Hafnfirðinga og íbúa Hvalfjarðarsveitar og verið bara í fínum málum.
Það eitt og sér sýnir vel í hvaða ógöngum þjóðir heims eru með mengunartölur sem síðan eru notaðar til að búa til algjörlega nýja huglæga söluvöru sem eru kolefniskvótar. Slíka kvóta eru fjársterkir aðilar farnir grimmt að fjárfesta í til að hagnast á síðar.
Kolefniskvótar ganga kaupum og sölum
Fyrsti markaðurinn á viðskiptum með kolefniskvóta er runnin undan rifjum sérfræðinga ESB og heitir The EU emissions trading system (EU ETS). Er þetta kerfi sagt vera „hornsteinn“ stefnu ESB í baráttunni við loftslagsbreytingar.
Þetta kerfi gefur mönnum möguleika á að menga út í það óendanlega svo lengi sem menn eru viljugir til að kaupa losunarkvóta á móti losun á CO2. Einhver þarf á endanum að borga fyrir þetta og það gerist með því að kvótakaupunum er auðvitað velt út í verðlagið og almenningur borgar brúsann. – sniðugt? Allavega finnst uppfinningamönnum kolefnishagkerfisins það.
Kolefnishagkerfi aðeins að hluta nýtt í baráttu gegn losun CO2
Í Skýrslu Alþjóðabankans frá því í maí 2020, „State and Trends og Carbon Pricing 2020“, kemur fram að kolefniskvótaviðskiptakerfi ESB, „European Union Emissions Trading System (EU ETS)“, hafi leitt til innleiðingar á 61 aðgerð, þar af 31 vegna kvótaviðskipta og 30 vegna setninga kolefnisskatta í hinu ýmsu ríkjum, þar á meðal Íslandi. Þetta nái yfir 12 gígatonna losun á CO2. Þá segir líka í skýrslu sjóðsins að ríkisstjórnir víða um heim hafi í gegnum þetta skattlagningakerfi náð sér í tekjur upp á 45 milljarða dollara á árinu 2019.
Um 40% af þessum tekjum fór ekki í aðgerðir til að draga úr loftmengun, heldur beint í ríkishítina á hverjum stað. Samt er fullyrt að þetta kolefnisviðskiptakerfi sé alfarið hannað til að standa undir aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þarna liggur það fyrir svart á hvítu í skýrslu Alþjóðabankans, að með innleiðingu á þessu kolefnisviðskiptakerfi er verið að blekkja almenning.
Spáð að tonnið af CO2 fari í 80 dollara 2020 og í 100 dollara árið 2030
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að þótt kolefnisverð hafi verið að hækka, þá sé það of lágt á sumum svæðum til að standa undir kröfum Parísarsamkomulagsins. Æðsti kjarni þeirra sem fjalla um kolefnisverðið áætla að kolefnisverðið á þessu ári nái að minnsta kosti 40-80 dollurum á tonn af CO2 og verði komið í 50-100 dollara á tonnið árið 2030.
Í ágúst 2020 birtist frétt í Financial Times um kolefniskvótakerfi Evrópusambandsins. Þar kemur fram að lengi hafi verið torvelt að búa til verðmiða á kolefniskvóta sem síðan var ætlað að vinna gegn losun CO2. Allt í einu áttuðu stærstu áhættufjárfestingasjóðir (hedge funds) í olíubransanum sig á að þarna gæti verið verslunarvara sem hægt væri að hagnast verulega á. Í kjölfarið fór verðið að hækka og var kolefnistonnið í haust komið í 30 evrur (35-36 dollarar). Var þetta talið hafa áhrif á verðlag hjá raforkufyrirtækjum, stáliðjuverum og fleiri greinum. Þetta er samt talsvert undir væntingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem spáði í vor að verðið færi í 40-80 dollara á tonnið.
Þróun á kolefnisverði á skjön við markaðslögmál
Þróun verðs á kolefniskvótum hefur á síðustu mánuðum verið þvert á öll eðlileg markaðslögmál, því að vegna lokunar fyrirtækja í COVID19, minni eftirspurn og efnahagskreppu þá ætti kolefniskvótaverð að lækka að mati Financial Times. Það hefur hins vegar ekki gerst á undanförnum mánuðum, þvert á móti. Verðið hefur verið að hækka. Að vísu kom nokkurt bakslag í upphafi COVIDfaraldursins en síðan rauk verðið upp aftur.
Áhættufjárfestar uppgötva ný gróðatækifæri í kolefnisviðskiptum
Blaðið segir að þetta skýrist af því að ný tegund fjárfesta sé komin inn á markaðinn sem hafi engar áhyggjur af skammtímaáhrifum á markaði. Þeir kaupa kolefniskvóta á háu verði til að selja síðar á enn betra verði. Enda vita þeir að búið er að stilla fyrirtækjum og ríkisstjórnum upp við vegg af kolefnishagkerfinu þannig að þeir sem mælast með mikla mengun verða skyldaðir til að kaupa kolefniskvóta til að mæta þeirri mengun. Afleiðingin verður svo auðvitað hærra vöruverð og þannig græða allir á þessu nýja kolefnishagkerfi. Nema almenningur sem borgar brúsann á endanum eins og venjulega.
76,9% af raforku ESB er framleidd með óendurnýjanlegum orkugjöfum
Einungis 11,6% af orkuframleiðslu Evrópusambandsins var á árinu 2018 framleiddur í vatnsorkuverum og 11,5% í vindorkuverum. Þá voru 18,2% framleidd með kolum og brúnkolum. Af níu ríkjum sem framleiða brúnkol var Þýskaland langstærst með 45% af framleiðslunni. Á áttunda áratug síðustu aldar voru t.d. forsíður helstu blaða í Evrópu og aðrir fréttamiðlar uppfullir af fréttum af súru regni vegna kolabruna og einkum vegna bruna á hinum óhreinu brúnkolum sem losaði mikið af brennisteinsdíoxíði út í andrúmsloftið.
Samkvæmt úttekt Evrópusambandsins sem gefin var út af Euostat, hagstofu þeirra í ESB, þann 14. desember síðastliðinn, var 76,9% af orkugjöfum sambandsins óendurnýjanlegir á árinu 2018. Nýrri tölur virðast ekki fyrirliggjandi. Af þessu eru 9,3% kol og 8,9% með brúnkol, sem er jafnframt langversti mengunarvaldurinn af öllum orkugjöfum sem völ er á í heiminum.
Austur-Evrópubúar ekki verstir í nýtingu brúnkola
Það vekur athygli að þvert á það sem flestir halda þá eru það ekki AusturEvrópuríkin sem eru mestu sóðarnir í vinnslu og brennslu brúnkola, heldur velmegunarlandið Þýskaland. Það er hins vegar líka fjölmennasta ríki ESB með 82 milljónir íbúa svo hvert tonn í losun á CO2 og ýmsum öðrum skaðlegum lofttegundum hefur háan útþynningarstuðul.