Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Gróðrarstöðin Dalsgarður var útnefnd verknámsstaður garðyrkjunnar 2014
Mynd / Hkr.
Fréttir 9. maí 2014

Gróðrarstöðin Dalsgarður var útnefnd verknámsstaður garðyrkjunnar 2014

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti garðyrkjuverðlaunin 2014 í Garðyrkjuskólanum að Reykjum í Hveragerði á opnu húsi skólans sumardaginn fyrsta en skólinn á 75 ára afmæli á þessu ári. Gróðrarstöðin Dalsgarður var valin verknámsstaður garðyrkjunnar 2014, hvatningarverðlaun garðyrkjunnar 2014 féllu í skaut Yndisgróðri sem er samstarfsverkefni um garð- og landslagsplöntur fyrir íslenskar aðstæður og það var Magnús Ágúst Ágústsson garðyrkjuráðunautur sem fékk heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2014.

Verknámsstaðurgarðyrkjunnar 2014

Gróðrarstöðin Dalsgarður – Gísli Jóhannsson, garðyrkjufræðingur
Gróðrarstöðin Dalsgarður var stofnuð á fardögum árið 1946 út úr prestssetrinu Mosfelli í Mosfellsdal. Stofnendur voru Jóhann Jónsson og Birta Fróðadóttir. Dalsgarður hlaut lögbýlisréttindi árið 1958.
Í upphafi var ræktunin blönduð en fljótlega var farið í að rækta rósir til afskurðar, pottaplöntur og útiræktað grænmeti. Árið 1980 gerðust Fróði og Gísli Jóhannssynir meðeigendur og voru þá ræktaðar rósir og túlipanar til afskurðar ásamt útirækt. Túlipanaræktunin datt þó niður á árunum 1990-2000. Frá árinu 2000 er Gísli Jóhannsson einn eigandi Dalsgarðs. Gróðrarstöðin er með 3000 m2 í gróðurhúsum auk 700 m2 plastskála. Rósir eru ræktaðar í 2000 m2, laukar til afskurðar í 1000 m2 og jarðarber í 1700 m2.
Gísli Jóhannsson hefur starfað við garðyrkju, aðallega rósarækt, frá barnæsku og útskrifaðist úr Garðyrkjuskólanum árið 1980. Verknám stundaði hann í Óðinsvéum í Danmörku en hann tók auk þess eitt ár í garðyrkjufræðum á Söhus gartnerskole í Óðinsvéum árið 1982. Árið 1983 vann hann við lífræna ræktun í Hollandi. Gísli hefur verið virkur í félagsmálum garðyrkjubænda, setið í stjórn Félags blómaframleiðenda og í stjórn Sambands garðyrkjubænda auk þess sem hann situr í fagnefnd Garðyrkjuskólans fyrir ylræktarbrautina og hefur þannig tekið virkan þátt í mótun námsins.
Í gegnum tíðina hefur dágóður hópur garðyrkjunema stundað verknám í Dalsgarði. Nemendur hafa fengið fjölbreytt og gott verknám og fagleg sjónarmið höfð að leiðarljósi í kennslunni. Það er því skólanum sönn ánægja að veita Gísla Jóhannssyni og Dalsgarði viðurkenningu sem verknámsstaður garðyrkjunnar árið 2014.

Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar 2014

Yndisgróður – samstarfsverkefni um garð- og landslagsplöntur fyrir íslenskar aðstæður, verkefnisstjóri Samson Bjarnar Harðarson hjá Landbúnaðarháskóla Íslands
Verkefnið Yndisgróður hófst þann 1. júlí 2007 með styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins, landbúnaðarráðuneytinu og Norðurslóðaáætlun (NPP). Yndisgróður er samstarfsverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands, Grasagarðs Reykjavíkur, Rannsóknarstöðvar Skógræktar á Mógilsá og Félags garðplöntuframleiðenda sem ásamt Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar hafa lagt til nær allar plöntur endurgjaldslaust. Markmið verkefnisins hefur frá upphafi verið „að finna bestu hentugu garð- og landslagsplöntur sem völ er á fyrir íslenskar aðstæður og miðla upplýsingum um þær“.
Verkefnið hefur safnað ítarlegum upplýsingum um garð- og landslagsplöntur í sérhannaðan gagnagrunn þar sem 726 yrki af um 180 tegundum trjáa og runna hafa verið skráð, auk upplýsinga um harðgerði, ræktunar- og notkunarmöguleika, uppruna þeirra og staðsetningu í plöntusöfnum. Á heimasíðu Yndisgróðurs má meðal annars finna upplýsingasíðu um einstakar tegundir og yrki sem mælt með til notkunar hérlendis.
Eitt aðalverkefni Yndisgróðurs hefur verið uppbygging klónasafna og sýnireita á nokkrum stöðum á landinu, svokallaðra yndisgarða. Þeir eru sex talsins og eru staðsettir á Blönduósi, í Sandgerði, Laugardalnum í Reykjavík, Fossvogi í Kópavogi, á Hvanneyri og hér á Reykjum í Ölfusi sem jafnframt er aðalsafn verkefnisins. Yndisgróður hefur átt mjög gott samstarf við þau sveitarfélög sem hafa lagt til land, vinnu og kostnað við gerða garðanna og umhirðu.
Yndisgarðarnir hafa þríþætt hlutverk. Í fyrsta lagi að varðveita úrval erfðarauðlindar íslenskra garð- og landslagsplantna, í öðru lagi til að rannsaka harðgerði og eiginleika þessara plantna og í þriðja lagi til að vera sýnireitir fyrir fagfólk og almenning. Á komandi árum mun Yndisgróður leggja áherslu á vali á úrvalsyrkjum og markaðssetningu þeirra.
Verkefnið Yndisgróður er fyrsta verkefni sinnar tegundar á Íslandi þar sem farið er heildstætt í velja það besta úr íslenskum plöntuefniviði og opnar jafnframt möguleika á að kynbæta enn frekar úr þessum úrvalsefniviði og fá plöntur sem eru sérsniðnar fyrir íslenskar aðstæður. Skólinn telur því vel við hæfi að veita Yndisgróðursverkefninu hvatningarverðlaun garðyrkjunnar 2014 og vonar að það eigi langa lífdaga fram undan.

Heiðursverðlaun
garðyrkjunnar 2014

Magnús Ágúst Ágústsson, garðyrkjuráðunautur er fæddur á Löngumýri á Skeiðum þann 23. apríl 1950 á fyrsta sunnudegi í sumri, sonur hjónanna Emmu Kristínar Guðnadóttur og Ágústar Eiríkssonar bónda og garðyrkjufræðings. Magnús er kvæntur Rannveigu Árnadóttur og eins og hann segir sjálfur frá þá er það góður maki sem gerir manni kleift að helga sig áhugamálinu að fullu. Uppeldið og nám við Menntaskólann á Laugarvatni leiddi til þess að líffræðinám við HÍ varð fyrir valinu en lokaritgerð Magnúsar fjallaði um fóðurfræði sauðfjár. Tilviljun ein leiddi til þess að Magnúsi var boðið að halda utan til náms við háskólann í Reading til að nema tækni og ræktun með lýsingu í gróðurhúsum í apríl 1975. Tilviljunin var þannig að styrkur hafði fengist frá UNDP/FAO til að kosta 2 Íslendinga til náms í Englandi. Óli Valur Hansson garðyrkjuráðunautur og Björn Sigurbjörnsson forstjóri RALA sátu á skrifstofu þess síðarnefnda og veltu fyrir sér hvern ætti að senda auk Hilmars Magnússonar. Þá gekk Magnús framhjá skrifstofu Björns og hann segir: Þarna er maðurinn… Eftir það varð ekki aftur snúið enda nóg af ágætum fóðurfræðingum til að sinna sauðfénu. Að námsdvöl lokinni hóf Magnús störf sem tilraunastjóri við Garðyrkjuskóla ríkisins en fyrstu árin var unnið að tilraunum sem styrktar voru af UNDP/FAO undir yfirumsjón breskra sérfræðinga. Magnús sinnti starfi sem tilraunastjóri við Garðyrkjuskólann fram til ársloka 1985 en það ár gerðist hann garðyrkjubóndi í Lindarbrekku í Hveragerði og rak garðyrkjustöðina fram til ársins 1993. Árið 1990 var Magnús ráðinn sem landsráðunautur í ylrækt hjá Búnaðarfélagi Íslands, síðar Bændasamtökum Íslands og frá árinu 2003 vann hann sem landsráðunautur í garðyrkju. Hann fluttist yfir til Rannsóknamiðstöðvar landbúnaðarins við stofnun hennar í ársbyrjun 2013. Magnús sinnti stundakennslu í Garðyrkjuskólanum meðfram öðrum störfum sínum á árunum frá 1986 til 2001 en árin 2001-2003 var hann fagdeildarstjóri ylræktarbrautar.
Magnús hefur skrifað fjöldann allan af greinum um garðyrkju, bæði vísindagreinar um niðurstöður tilrauna, faggreinar fyrir garðyrkjuframleiðendur og fræðandi greinar fyrir almenning og hefur verið óþreytandi við að miðla upplýsingum um fag sitt til annarra. Garðyrkjubændur hafa notið krafta hans um árabil og fullyrða margir þeirra að Magnús sé lykilmaður í þeim árangri sem náðst hefur í framleiðslu í íslenskum gróðurhúsum. Það er því skólanum sannur heiður að sæma Magnús heiðursverðlaunum garðyrkjunnar árið 2014. 

12 myndir:

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...