Guterres vill rússnesk áburðarefni
Sameinuðu þjóðirnar vinna að því, ásamt Bandaríkjunum og Evrópusambandinu, að koma rússneskum áburðarefnum og matvælum á heimsmarkað.
„Án áburðar árið 2022 getur orðið fæðuskortur árið 2023. Útflutningur á matvælum og áburði frá Úkraínu og Rússlandi er nauðsynlegur til að róa hrávörumarkaði og lækka verð til neytenda,“ sagði Antonio Guteress, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, í heimsókn til Istanbúl í lok ágúst. Aljazeera greinir frá.
Rússland og Úkraína eru með stærstu framleiðendum heimsins á matvælum og Rússland á áburðarefnum. Úkraínumönnum hefur tekist að flytja út 650.000 tonn af korni í gegnum hafnir sínar við Svartahafið, en dugar það ekki til samkvæmt aðalritaranum.
Viðskiptaþvinganir Vesturlanda á Rússa ná ekki yfir matvæli og áburð, en þrátt fyrir það hefur útflutningur á þessum hrávöruflokkum nær stöðvast. Sameinuðu þjóðirnar eru í samstarfi við Bandaríkin og ESB til þess að losa um hindranir á útflutningi sem snúa m.a. að tryggingum, fjármögnun og skipaflutningum.