Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Að umgangast fjöregg sitt hirðuleysislega
Í deiglunni 22. desember 2023

Að umgangast fjöregg sitt hirðuleysislega

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Í heimi breytinga í veldisvexti verður sú spurning áleitnari hvað skipti raunverulega máli. Í ríkara mæli erum við í raun neydd til að veita athygli því sem eru grunnforsendur fyrir lífi okkar hér á jörð.

Um það er engum blöðum að fletta að við verðum að leggja ítrustu krafta í að gæta þeirra auðlinda sem standa undir frumþörf hverrar lífveru: að nærast. Þegar öllu er á botninn hvolft er það að taka til sín fæðu í einhverri mynd það sem viðheldur lífi. Segja má að svefn og hvíld sé einnig slík frumþörf, sem og kynhvöt til æxlunar.

Forsenda þess að lífvera geti nærst sér til viðhalds og vaxtar er að hún hafi aðgang að næringu. Ef við hugleiðum stöðu manneskjunnar í því samhengi þarf hún annað
hvort að framleiða fæðu sína sjálf eða reiða sig á að aðrir geri það og gefi henni eða selji. Og hér erum við komin að kjarna málsins. Framleiða þarf fæðu og sjá fyrir hreinu vatni. Í orrahríð þeirrar loftslagsvár sem bæði skelfir okkur og skaðar og knýr til athafna og framsýni í senn, skiptir öllu máli að verja fæðuframleiðslu;
heilnæma framleiðslu afurða af landi og úr sjó, byggða á vistvænum og sjálfbærum aðferðum. Þetta gera sér flestir ljóst núorðið og mikil vakning hefur orðið á heimsvísu.

Samhengi hlutanna

Hér á Íslandi eigum við fjöregg sem heitir landbúnaður. Í stuttu máli má segja að landbúnaður snúist um að yrkja landið og rækta dýr til manneldis og hefur verið lifibrauð mannkyns allt frá lokum síðustu ísaldar og upphafi nýsteinaldar.

Fjölmargt fellur undir landbúnað, m.a. alifuglarækt, eggjaframleiðsla, garðyrkja, geitfjárrækt, hrossarækt, jarðrækt, loðdýrarækt, nautgriparækt, sauðfjárrækt, skógarframleiðsla, svínarækt og æðarrækt, sbr. opinberan lista íslenskra stjórnvalda.

Innlendur landbúnaður er fjöregg vegna þess að hann getur tryggt okkur, hér á þessari eyju lengst norður í Atlantshafi, fæðu þótt aðflutningsleiðir til landsins bresti. Hann er fjöregg vegna þess að út frá umhverfissjónarmiðum eigum við að nýta það sem er næst okkur. Sömuleiðis eigum við hér fiskinn í sjónum, hreint vatn og hreint andrúmsloft, heilnæman jarðveg og almennt góða búskaparhætti sem stuðlar að matvælaöryggi okkur til handa.

En hvers vegna er þá íslenskur landbúnaður olnbogabarn þjóðarinnar? Hvers vegna er almenn umræða oft og tíðum neikvæð í garð landbúnaðarins og þeim sem í honum. Hvað myndi gerast ef innlendur landbúnaður legðist hreinlega af? Hér er stórt spurt, en að gefnu tilefni, því að grunnstoðir íslensks landbúnaðar hafa undanfarið veikst og jafnvel hefur verið gengið svo langt að segja að verið sé að eyðileggja íslenskan landbúnað til langframa.

Menn skyldu hafa í huga að auðvelt og fljótlegt er að rýra og skemma en tafsamt og erfitt að byggja upp á ný, það er segin saga. Það er ástæða fyrir því að íslenskir bændur eru nú að flosna upp í vaxandi mæli og ekki ljóst hvað síðustu aðgerðir stjórnvalda megna að hemja þá óheillaþróun. Undirstöðurnar hafa verið nagaðar og veiktar vegna áhuga- og andvaraleysis.

Þorri fólks gerir sér ljóst að halda þarf landinu í byggð. Landbúnaður er gjarnan uppistaðan í lífsviðurværi og atvinnu á afskekktari dreifbýlissvæðum landsins og oft grunnur sem ýmis þjónusta og nýsköpun hvíla á. En nú flosnar fólk upp úr sveitum því það nær ekki að lifa af búskap sínum og ungu fólki sem hefur áhuga á að starfa innan landbúnaðar og hasla sér þar völl hrýs hugur við að festast jafnvel í þrældómi og skuldafeni.

Misviturt stjórnvaldið hefur gleymt því að annast fjöreggið svo sem vera ber og því erum við í þeirri stöðu að bændur hrópa endurtekið á hjálp – og nú sem aldrei fyrr. Þá er stokkið af stað með dúsu og plástra sem mega sín heldur skammt og alls staðar í kerfinu eru svarthol sem góð áform um að renna stoðum undir landbúnað sogast jafnharðan inn í.

Þjóðarsálin og landbúnaðurinn

Svo er annað sem skiptir hér máli. Það er eins og þjóðin sjálf, þjóðarsálin, líti sumpart á landbúnaðinn sem einhvers konar frekjukast, tuð, þreytandi fólk einhvers staðar úti í sveitum sem sífellt barmi sér og helst að ósekju. Sem hallærislið í fleiri en einni merkingu. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra nema síður sé. Halda skyldi til haga að við erum öll úr sveit á einn eða annan hátt en samt hefur orðið til einhverslags andlegt rof hjá þjóðinni milli sveita og þéttbýlis. Þó býr tæpur fjórðungur þjóðarinnar í dreifbýli.

Mál er til komið að þjóðin taki sér landbúnað sinn að hjarta, sjái að hann er ein af helstu grunnstoðum samfélagsins sem okkur ber að annast, þroska og halda áfram að þróa að nútímaháttum, okkur sjálfum til viðhalds og velfarnaðar. Hann er ekki síður grunnstoð en menntun og heilbrigðismál, svo dæmi sé tekið. Grunnstoð sem ber að hlúa að, þykja vænt um og gera þannig úr garði að vera megi stoltur af. Líkt og við tökum stundum menningu okkar upp úr skúffunni og veifum á tyllidögum en annars ekki, umgöngumst við landbúnað okkar sem hálfgerðan ómaga sem ekki er vert að halda mikið á lofti nema, einmitt, á tyllidögum eða þegar við viljum ræða hversu hreinar landbúnaðarafurðir okkar séu í alþjóðlegu samhengi.

Lykilfólk í þróuninni

Við ættum einnig að hafa í huga að bændur þessa lands eru sérfræðingar á sínu sviði, nátengdir andardrætti landsins, þörfum moldarinnar og því sem af henni vex. Þegar kemur að því að beina okkur til umhverfisvænni lífshátta er þetta lykilfólk í að sjá og skilja hvar má breyta og bæta. Já, og koma því í verk.

Þegar við stöndum frammi fyrir því að endurhugsa meðferð okkar á jarðvegi og hvernig megi varðveita gæði hans og efla þau, vernda náttúrulega fjölbreytni, efla dýravelferð, ræktunaraðferðir, kolefnisbindingu, lífræna ræktun, nýsköpun og sjálfbærni, þá viljum við hafa bændur með okkur í liði því þar er kunnáttufólk á ferð. Einnig varðandi tækniframfarir í landbúnaði, að auka skilvirkni með lágmarks mengun á öllum sviðum og allt mögulegt annað. 

Að yrkja landið er ekki auðveld glíma á Íslandi þar sem vaxtartímabil gróðurs er stutt ár hvert og myrkur og kuldi hamla vexti, landfræðilegar aðstæður til ræktar takmarkaðar, jarðvegsrof verulegt og veður oft válynd. Við eigum þó ýmis spil uppi í erminni, hreina vatnið okkar og vatnsaflið, jarðhitann og hreint andrúmsloft, svo fátt eitt sé nefnt.

Á veraldarvísu er samkeppni um land og landgæði mikil og fer vaxandi í samhengi við matvælaframleiðslu. Þessa sér einnig stað hér á Íslandi og mun sjálfsagt aukast.

Verndum fjöregg okkar

Kerfin eru mannanna verk og því einnig mannanna verkefni að breyta þeim jafnharðan þannig að þau þjóni sem best hag landsmanna og þörfum, sem taka breytingum í tímans rás. Það eru hrein öfugmæli að þau sem hafa lagt fyrir sig að yrkja landið og framleiða fæðu ofan í landsmenn, hreina og heilnæma fæðu, leiti nú mörg leiða til að bregða búi áður en þau sökkva endanlega í hyldýpisfen skulda, þrátt fyrir að flest vinni þetta fólk auk landbúnaðarins fleiri störf til að afla meiri tekna. 

Hér er um verulegan hluta fæðuöryggis þjóðarinnar að tefla, til lengri og skemmri tíma litið, byggð í sveitum landsins, eina meginundirstöðu velferðar okkar. Við eigum að leita leiða til að efla landbúnað okkar á alla lund og finna aðferðir til að útvíkka hann og þróa þannig að við getum fengið sem fjölbreyttust grunnmatvæli úr eigin ranni með nútímalegum og umhverfisvænum aðferðum.

Við þurfum að búa innlendum afurðum þá markaðslegu umgjörð að þær séu alltaf fyrsti valkostur almennings.

Við eigum að taka okkar inn- lenda landbúnað að hjarta, styðja við hann af fremsta megni og vera stolt af honum því hann er fjöregg og við megum ekki gleyma því.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...