Fuglaflensa breiðist út
Skæð fuglaflensa er nú útbreidd í villtum fuglum um allt land en ekki eru vísbendingar um fjöldadauða.
Í umfjöllun á vef Matvælastofnunar kemur fram að sú tegund fuglaflensunnar sem talin er vera útbreidd sé H5N5. Nýleg tilfelli af henni voru staðfest í dauðum hrafni rétt hjá húsnæði Matvælastofnunar á Selfossi og í ritu á Hallormsstað. Áður hafi þetta afbrigði greinst í erni á Breiðafirði og æðarfugli í Ólafsfirði. Sterkar vísbendingar séu um að þessi gerð hafi borist með villtum fuglum til landsins síðsumars.
Ekki hafi borist tilkynningar um fjöldadauða í villtum fuglum nú í haust sem bendi til að áhrif þessa afbrigðis á villtu fuglastofnana séu ekki mjög alvarleg. Annað afbrigði fuglaflensunnar sem algengust var hér á landi á síðasta ári í villtum fuglum virðist núna ekki vera mjög útbreidd. Matvælastofnun hvetur almenning áfram til að tilkynna fund á veikum og dauðum fuglum til stofnunarinnar, helst með gps-hnitum fundarstaðarins.
Þá eru enn í gildi varúðarráðstafanir til verndar alifuglum og öðrum fuglum í haldi og eru þær aðgengilegar í gegnum vef Matvælastofnunar.