JA Group
JA Group, sem japönsku bændasamtökin eiga og eru hluti af, reka banka sem kallast Norinchukin Bank á landsvísu en Shinren í héraði og tryggingafélag sem heitir Zenkyoren. Bankinn er með stærri bönkum í landinu og Zenkyoren í hópi stærstu tryggingafélaga í heimi. JA Group kemur einnig að olíu- og gasdreifingu í Japan.
JA stendur fyrir Japanese Agriculture en landbúnaðarhluti samsteypunnar kallast Zen-Noh og er með ítök í flestu sem snýr að matvælaframleiðslu, geymslu, sölu og dreifingu á matvælum, fiski, mjólk, eggjum, kjöti- og plöntuafurðum, fóðri, áburði og öðrum efnum til landbúnaðar. Auk þess að reka fjölda mat- og dagvöruverslana. Samtökin reka afurðastöðvar, pökkunarverksmiðju fyrir matvæli og framleiða umbúðirnar sjálf. Þau eiga hlut í fyrirtæki sem framleiðir landbúnaðartæki og um tíma var á markaði dráttarvél sem kallaðist Zen-Noh en framleidd af Kubota.
Bændasamtökin reka rannsóknarstofur og tengjast landbúnaðarrannsóknum í samvinnu við háskólasamfélagið.
Reka dagblað og öfluga fræðslu- og ráðgjafarþjónustu
Samtökin reka öfluga fræðslu- og ráðgjafarþjónustu tengda landbúnaði, markaðssetningu og kynningu á matvælum undir heitinu Zenchu sem líka gefur út dagblað á landsvísu. Zenchu sér einnig um samskipti við opinbera stjórnsýslu í landinu og lobbíisma.
Zen-Noh á í viðskiptum víða um heim og stunda umtalsverða utanríkisverslun bæði sem inn- og útflutningsfyrirtæki. Félagið er með skrifstofur vítt og breitt um Japan og útibú í Þýskalandi, Ástralíu, Kína, Brasilíu, Taílandi, Kanada, Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum.
Rúmlega átta þúsund starfsmenn
Starfsmenn JA eru rúmlega átta þúsund. Samkvæmt ársskýrslu Zen-Noh var velta JA Group árið 2015 um 6,2 billjónir jena eða um 6,8 billjónir íslenskra króna.