Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Jafna þarf samkeppnisstöðu bænda
Fréttir 7. mars 2024

Jafna þarf samkeppnisstöðu bænda

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Trausti Hjálmarsson, sauðfjárbóndi í Austurhlíð í Biskupstungum, var kjörinn formaður Bændasamtaka Íslands (BÍ) til næstu tveggja ára í beinum rafrænum kosningum félaga í BÍ um síðustu helgi.

Trausti bauð sig fram gegn sitjandi formanni, Gunnari Þorgeirssyni, garðyrkjubónda á Ártanga í Grímsnesi, sem var kjörinn formaður á Búnaðarþingi árið 2020.

Samstaða allra búgreina

Trausti var formaður deildar sauðfjárbænda hjá BÍ frá 2022 en gaf ekki kost á endurkjöri á nýliðnum Deildarfundi sauðfjárbænda. Hann hefur setið í stjórn BÍ frá Búnaðarþingi 2022.

Hann segir það ekki breyta neinu, hvað varðar almenna hagsmunabaráttu bænda, að sauðfjárbóndi hafi valist til forystu nú. „Ég hef tekið það skýrt fram að mitt framboð var fyrir alla íslenska bændur og mun leggja áherslu á samstöðu allra búgreina, því að mörgu leyti erum við öll að glíma við sömu áskoranirnar,“ segir Trausti.

Kerfisbreytingar í ytra umhverfi

Varðandi þá áskorun að samdráttur er í innlendri kjötframleiðslu í flestum greinum, segir Trausti að nauðsynlegt sé að bændur nái vopnum sínum í þeirri baráttu. „Við þurfum að ná í gegn ákveðnum kerfisbreytingum í ytra umhverfi landbúnaðarins sem jafnar samkeppnisstöðu okkar gagnvart þeirri samkeppni sem kemur utan frá. Þannig þurfum við að nýta þann slagkraft sem hefur myndast á síðustu mánuðum, sem birtist í því að bændur standa þétt við bakið hver á öðrum, þvert á búgreinar.

En við náum því ekki öðruvísi en í góðu samtali við stjórnvöld og almenning í landinu sem hefur mikið að segja um hvað við bændur eigum að framleiða, því það er almenningur sem á að velja matvörur sínar í verslunum. En til þess að fólkið hafi almennilegt svigrúm til að velja á milli innfluttra og innlendra matvara þá þarf auðvitað framboð að vera til staðar af þeirri innlendu. Það er bara risastórt verkefni að vinna í þessu, sem hefur verið á borðum okkar bænda allra og verður áfram. Á meðan ekki er nægileg vörn í ytri skilyrðum landbúnaðarins höfum við þurft að gefa eftir á markaði. En þarna eigum við sóknarfæri.“

Stjórnvöld viðurkenna vandann

Við síðustu endurskoðun búvörusamninga tókst samninganefnd bænda ekki að fá meira fjármagn inn í gildandi samninga til að bæta starfsskilyrðin fyrir sína skjólstæðinga. Trausti, sem sat í samninganefndinni, segir að það sé rétt að engir varanlegir fjármunir hafi fengist út úr endurskoðuninni. Hins vegar sé ljóst að stjórnvöld viðurkenni afkomuvanda búgreinanna, sem meðal annars hafi birst í fjárhagsstuðningi sem kynntur var í lok síðasta árs í kjölfar tillagna starfshóps ráðuneytisstjóra.

„Það segir sig alveg sjálft að það þarf að taka þetta samtal þéttar við stjórnvöld og hefjast handa fljótlega við undirbúning að gerð nýrra búvörusamninga. Við vonum að sá skilningur stjórnvalda sem hefur birst á undanförnum misserum sjáist í næstu samningaviðræðum um næstu búvörusamninga. Slíkar viðræður verða alltaf að byggja á afkomunni í landbúnaði og hvernig er brugðist við þessum afkomuvanda í landbúnaði sem hefur verið. Bændur eiga meira skilið heldur en þau skilyrði sem þeim hefur verið boðið upp á, miðað við hvað þeir hafa heilt yfir staðið sig vel,“ segir Trausti. „En þetta þarf að gerast í góðu samtali við stjórnvöld, því bændur fara ekki svo auðveldlega í verkfall,“ bætir hann við.

Að sögn Trausta er ástæða til bjartsýni, því það sem hafi gerst nýtt í þessum málum öllum sem snúa að kjarabaráttu bænda er að stjórnvöld hafi sjálf farið í mikla greiningu á stöðu landbúnaðarins. „Óhjákvæmilega verður byggt á þeirri vinnu og þeirri vinnu sem unnin hefur verið hjá Bændasamtökunum. Þá vaknar sú spurning hvað stjórnvöld séu tilbúin að gera til að standa vörð um innlenda landbúnaðarframleiðslu.“

Þegar hann er beðinn um að nefna eitt atriði sem hann vildi breyta í starfsumhverfi landbúnaðarins, ef hann hefði fullkomið vald til þess, segir hann án umhugsunar að það væri tollaumhverfið. „Það verður að viðurkenna sem fyrst tollverndina sem hluta af starfsskilyrðum landbúnaðarins og endurskoða það sem okkur er boðið upp á þar.“

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...