Kannabisframleiðsla í Kaliforníu umfram eftirspurn
Á síðasta ári er áætlað að í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum hafi verið framleidd ríflega sex milljón kíló af hampi. Framleiðslan er fimm sinnum meiri en áætluð notkun í ríkinu, sem er um milljón kíló á ári. Ræktun og neysla kannabis er lögleg í Kaliforníu.
Reyndar er svo komið að vegna geysilegrar offramleiðslu á kannabis í Kaliforníu hefur orðið verðfall á afurðinni.
Í kjölfar mikillar framleiðslu umfram eftirspurn hafa yfirvöld velt fyrir sér spurningunni um hvað verði um það magn sem ekki er nýtt innan ríkis. Að sögn þeirra sem láta sig málið varða er einungis um eitt svar að ræða og það er að umframframleiðsla sé seld til annarra ríkja og í mörgum tilvikum til ríkja þar sem hampur er enn ólöglegur.
Stjórnvöld í Kaliforníu segja verða að gera allt til að koma í veg fyrir að mikið magn af kannabis sé framleitt í ríkinu og selt ólöglega annars staðar.
Þrátt fyrir að ræktun og neysla á kannabis sé leyfileg í Kaliforníu og mörgum öðrum ríkjum í Bandaríkjunum er hvoru tveggja enn ólöglegt samkvæmt alríkislögum Bandaríkjanna.
Ein lausnin til að koma í veg fyrir ólöglegan útflutning á kannabis frá ríkinu, samkvæmt stofnun sem kallast California Bureau of Cannabis Control, er að gefa út ræktunarleyfi sem jafnframt fælu í sér bann á að selja uppskeruna utan ríkisins.
Meðal þeirra sem hafa gert það gott með ræktun kannabis og framleiðslu afurða úr plöntunni er hópur nunna sem kalla sig Sisters of the Valley, eða systurnar í dalnum, sem segjast rækta kannabis eftir alda gömlum ræktunaraðferðum. Sem er náttúrulega þvæla þar sem Systurnar í dalnum beita nýjustu ræktunartækni til að hámarka uppskeruna..