Kindurnar hlýða bara kalli Svavars, 84 ára göngugarps
Eins og margir vita þá eru alltaf nokkrar kindur með lömbum í Heimakletti í Vestmannaeyjum sem áhugabændur eiga. Um er að ræða útigangskindur, sem una hag sínum vel á klettinum.
Svavar Steingrímsson, sem er 84 ára, er eldhress Vestamannaeyingur, sem gengur nánast á hverjum degi upp á Heimaklett sér til ánægju og yndisauka til að heilsa upp á kindurnar. Hann er alltaf með brauð í poka og það líkar þeim vel. Kindurnar, sem eru um 45, eru flestar styggar og ekki mikið gefnar fyrir fólk á klettinum en öðru gegnir um Svavar, það er nóg að hann flauti einu sinni eða tvisvar út í loftið og þá koma þær hlaupandi úr öllum áttum til hans og hópast í kringum hann til að fá brauðmola.
Það hefur margoft sýnt sig að ef einhverjir aðrir flauta og þótt þeir séu með brauð með sér, þá láta kindurnar sér fátt um finnast og sýna engin viðbrögð, þær koma bara ef Svavar flautar.