Kjörbúðin áfram á Hellu
Engin óvissa er um framtíð Kjörbúðarinnar á Hellu, að sögn Gunnars Egils Sigurðssonar, forstjóra Samkaupa, sem rekur verslunina.
„Rekstrarkostnaður er að aukast gríðarlega mikið í okkar rekstri og allt þetta ár hefur okkar starfsfólk unnið frábært starf í kostnaðaraðhaldi sem hefur orðið til þess að við höfum ekki hækkað útsöluverð í takt við hækkun innkaupsverða. Verðbreytingar birgja og framleiðenda eru fordæmalausar og höfum við móttekið tæplega 600 tilkynningar um verðbreytingar birgja og framleiðenda og flest allar eru það hækkanir,“ segir Gunnar.
Í 16. tbl. Bændablaðsins sagði Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, formaður byggðarráðs Rangárþings ytra, að íbúar kvörtuðu undan háu vöruverði í þessari einu matvöruverslun Hellu. Gunnar Egill segir Kjörbúðina bjóða upp á nauðsynjavörur til heimilisnota sem eru á samkeppnishæfu verði við lágvöruverslanir.
„Þannig hefur Kjörbúðin stuðlað að hagkvæmum innkaupum í dreifðu byggðum landsins, boðið upp á mikið af góðum tilboðum og vörur í eigin inn flutningi á lægra verði.“ Hann bendir einnig á að hægt sé að fá 2% afslátt af matarkörfunni og aðgang að sértilboðum ef verslað sé í gegnum smáforrit Samkaupa.
Samkaup rekur verslanir Kjörbúðarinnar á sextán stöðum kringum landið. Einnig rekur fyrirtækið dagvöruverslanirnar Nettó, Krambúðina og Iceland. Samkaup keypti rekstur og starfsemi verslunar Krónunnar á Hellu árið 2021 en Krónunni bar að selja verslunina vegna mikils markaðsstyrks á svæðinu og í því skyni að efla samkeppni á dagvörumarkaði skv. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins árið 2019.