Kristinn Hugason ráðinn samskiptastjóri Ísteka
Kristinn Hugason hefur hafið störf sem samskiptastjóri Ísteka.
Kristinn hefur meistaragráður í búfjárkynbótafræði (MSc) frá SLU og í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu (MA) frá HÍ, er fram kemur í fréttatilkynningu frá Ísteka.
„Hann starfaði um árabil sem landsráðunautur Búnaðarfélags Íslands í hrossarækt og hjá Bændasamtökunum eftir stofnun þeirra, síðan innan stjórnarráðsins; í sjávarútvegs- ráðuneytinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Þar sinnti hann m.a. málefnum sjálfbærrar þróunar, fiskeldis, matvælamálum, málefnum dýravelferðar og var formaður nefndarinnar sem samdi frumvarp til núgildandi laga um velferð dýra (lög nr. 55/2013), almennum landbúnaðarmálum og hrossaræktarinnar sérstaklega. Nú síðustu árin hefur Kristinn starfað sem forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins. Hann hefur stundað hestamennsku svo gott sem allt sitt líf og hrossarækt sem viðfangsefni meira og minna síðustu fjóra áratugina eða svo,“ segir í tilkynningunni.
Í aðsendri grein á bls. 53 fjallar Kristinn um blóðtöku úr fylfullum hryssum, þar sem hann gerir athugasemd við málflutning talsmanna þýsk-svissnesku dýraverndarsamtakanna AWF/TSB í síðasta tölublaði Bændablaðsins.