Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Lífræni geirinn verðskuldar prófessorsstöðu
Á faglegum nótum 11. nóvember 2024

Lífræni geirinn verðskuldar prófessorsstöðu

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson, fulltrúi Íslandsdeildar Evrópuhóps lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM Organics Europe). oldyrm@gmail.com

„Vísindi efla alla dáð“, kvað náttúrufræðingurinn orðhagi, Jónas Hallgrímsson, fyrir miðja 19. öld. Það reyndust orð að sönnu.

Án margvíslegra vísindarannsókna, búnaðarfræðslu og leiðbeininga til bænda um fjölda ára væri íslenskur landbúnaður ekki sá máttarstólpi bæði fæðu- og matvælaöryggis sem hann er í dag. Þar hafa vísindin komið víða og mikið við sögu. Fjöldi vel menntaðs fólks hefur starfað á margvíslegum stofnunum landbúnaðarins og gerir enn þótt þeim fræðasetrum hafi fækkað samfara miklum breytingum í hinum ýmsu búgreinum.

Eftir að orkufrek áburðar- og eiturefnanotkun hafði farið vaxandi í landbúnaði um margra áratuga skeið, með mikilli mengun og öðrum umhverfisspjöllum, verður nú víða vart umtalsverðra stefnubreytinga í heiminum. Sem betur fer lagði íslenskur landbúnaður aldrei langt inn á þessar brautir einhæfrar ræktunar nytjajurta og þéttbærs verksmiðjubúskapar og því erum við að ýmsu leyti betur í stakk búin til að takast á við loftslagsmálin en flestar aðrar þjóðir. Þá er magn óæskilegra efna í innlendri framleiðslu með því minnsta sem þekkist í landbúnaðarafurðum. Hér varð sem betur fer aldrei sú lyfja- og hormónavæðing við kjöt- og mjólkurframleiðslu sem þekkist víða erlendis. Varphænurnar eru ekki lengur í búrum og verið er að gera ríkari kröfur til velferðar búfjár.

Mikið starf er þó fram undan í þeirri viðleitni að gera landbúnað umhverfisvænni. Það sést m.a. glögglega á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins að þar er lífrænum landbúnaði ætlað mjög stórt hlutverk á næstu áratugum. Lífrænn búskapur gengur lengra í átt til sjálfbærni en aðrir framleiðsluhættir hafa upp á að bjóða, og áhersla er lögð á bæði fæðu- og matvælaöryggi í samræmi við óskir neytenda sem kaupa lífrænt vottaðar afurðir í sívaxandi mæli.

Því miður hefur lífrænum landbúnaði ekki vaxið fiskur um hrygg hér á landi með sama hætti og í nágrannalöndum okkar. Þau þáttaskil hafa þó orðið að 24. ágúst í sumar birti matvælaráðuneytið aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu þar sem sú stefna er mótuð að 10% íslensks landbúnaðarlands skuli hljóta lífræna vottun fyrir 2040, mikil breyting frá 1–2%. Áætluninni fylgdi úr hlaði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ráðherra. Þar eru kynntar margvíslegar leiðir til að efla lífræna geirann, bent er á veikleika, en jafnframt talin upp margvísleg sóknarfæri til nýsköpunar, án þess að nota tilbúinn áburð, eiturefni og erfðabreytta sáðvöru.

Það hefur verið vitað um áratuga skeið að ein helsta hindrun æskilegrar og eðlilegrar þróunar lífræna geirans hér á landi er alltof lítið rannsóknastarf í þágu hans með viðeigandi fræðslu og leiðbeiningum í stofnunum landbúnaðarins. Eftir kynni mín af grósku slíkrar starfsemi í mörgum erlendum menntastofnunum þar sem lífræn ræktun hefur verið tekin föstum tökum, einkum undanfarin 30 ár, er aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu mikið fagnaðarefni. Þar eru stefnumarkandi skilaboð mjög skýr, sérstaklega til Landbúnaðarháskóla Íslands sbr. eftirtalda þrjá liði skýrslunnar:

  1. „Stofnuð verði staða prófessors í sviði lífrænnar framleiðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands og staðan mönnuð sérfræðingi sem uppfyllir hæfniskröfur.
  2. Í framhaldi af stofnun prófessorsstöðu verði komið á sértakri námsbraut um lífræna framleiðslu á háskólastigi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þannig verði námsframboð skólans á þessu sviði aukið og aðgangur framleiðenda og annarra að endurmenntun bættur.
  3. Gerður verði sérstakur samningur við Landbúnaðarháskóla Íslands um skyldunámskeið um lífræna framleiðslu við upphaf háskólanáms við skólann“

Varla verða skilaboðin til helstu rannsókna- og kennslustofnunar landbúnaðarins skýrari. Nú þurfa vísindin vissulega enn að efla alla dáð.

Að mínum dómi verðskuldar lífræni geirinn svo sannarlega prófessorsstöðu við Landbúnaðarháskólann sem allra fyrst.

Skylt efni: Lífræn ræktun

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...

Eignast allt Lífland
Fréttir 21. mars 2025

Eignast allt Lífland

Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af ...

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi
Fréttir 21. mars 2025

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi

Bændasamtök Íslands kalla eftir því að dráttarvélar og eftirvagnar í landbúnaði ...

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði
Fréttir 21. mars 2025

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði

Slátrun hjá Sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (SKVH) á Hvammstanga verður...

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...