Ljósleiðari inn á öll heimili í Árborg
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Gagnaveita Reykjavíkur og Sveitarfélagið Árborg hafa gert með sér samkomulag um ljósleiðaravæðingu alls þéttbýlis í sveitarfélaginu en það er Selfoss, Stokkseyri og Eyrarbakki. Verkefninu verður lokið á næstu þremur árum.
Með framkvæmdunum munu heimilum í þessum byggðakjörnum standa til boða eitt gíga gæðasamband ljósleiðarans, sem gefur kost á 1000 megabitum til og frá heimili.
Flest stærstu fjarskipta- og afþreyingarfyrirtæki landsins bjóða þjónustu sína um ljósleiðarann og viðskiptavinum stendur til boða val á milli fjölmargra þjónustuleiða Vodafone, Nova, 365, Hringdu og Hringiðunnar. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, fagnar samkomulaginu um ljósleiðarann.
Sjálfsagður hlutur
„Öflug fjarskiptatenging er orðin jafn sjálfsagður hlutur í nútíma sveitarfélagi og vatn, rafmagn og fráveita. Íbúum Árborgar fjölgar hratt og við erum ánægð með að fá ljósleiðarann í hverja íbúð í bænum. Atvinnulíf verður hér líka samkeppnishæfara með bættum fjarskiptatengingum og við sjáum fram á gróskumikinn vöxt í sveitarfélaginu með því að þjónusta við íbúa og atvinnulíf eflist með tilkomu ljósleiðarans. Árborg kemst í fremstu röð sveitarfélaga í þessu tilliti.“