Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fréttir 25. nóvember 2016
Matís getur mælt flest nema sýklalyfjaleifar
Höfundur: smh
Þegar ný rannsóknarstofa Matís var tekin í notkun í maí 2014 má segja að endapunktur hafi verið settur fyrir aftan nokkuð langt aðlögunartímabil Íslands að því að framfylgja reglugerðum um matvælaöryggi og neytendavernd sem það skuldbindur sig til með aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
Uppsetning á rannsóknarstofunni var einmitt hluti af verkefninu Örugg matvæli, sem átti að stuðla að matvælaöryggi í þágu neytenda og framleiðenda og miðaði, að sögn Sveins Margeirssonar, forstjóra Matís, að uppbyggingu á tækjabúnaði og þekkingar innan fyrirtækisins til þess meðal annars að geta sinnt lögbundnum efnagreiningum í matvælum.
Á undanförnum misserum hafa komið fram upplýsingar sem benda til þess að meira geti leynst af óæskilegum efnum og örverum í matvælum en áður var talið; til að mynda sýklalyf, sýklalyfjaónæmar bakteríur og margvísleg svokölluð varnarefni sem notuð eru við ávaxta- og grænmetisframleiðslu. Því er ástæða til að athuga hversu vel Ísland er nú í stakk búið til að ná utan um allan þann aragrúa efna sem notuð eru í matvælaframleiðslu í heiminum í dag.
Matís vel í stakk búið
„Verkefnið Örugg matvæli gekk mjög vel og upphafleg markmið náðust. Matís er vel í stakk búið í dag að þjónusta eftirlit og almennan markað með mælingar á til dæmis varnarefnum. Matís vinnur áfram að frekari uppbyggingu á sömu sviðum til að bæta enn þekkingu og getu til mælinga, meðal annars á varnarefnum, þörungaeitri og fjölhringa arómatískum vetniskolefnum (PAH-efni),“ segir Sveinn.
Áður en tækjabúnaður Matís var tekinn í notkun gátu Íslendingar sjálfir einungis mælt rúmlega 60 varnarefni, af þeim 190 sem skylt var að mæla samkvæmt EES-samningnum. Ísland var þess vegna á undanþágu frá almennu reglunni, sem að auki krafðist getu um að hægt væri að mæla alls 300 varnarefni. Með nýjum búnaði var hægt að uppfylla það, en vitað er að varnarefni í notkun eru mun fleiri. „Tækjalega er Matís fært um að mæla stærsta hluta þeirra varnarefna sem er í notkun í dag og við teljum okkur vel fær að hefja þær mælingar ef reglugerðir breytast. Varnarefnum sem þarf að fylgjast með er sífellt að fjölga sem þýðir að stöðugt þarf að þróa aðferðir og mæligetu rannsóknarstofa um allan heim. Nauðsynlegt er að gæta allra gæða- og öryggisþátta til að tryggja að mælingar gefi réttar og áreiðanlegar niðurstöður og því tekur tíma að bæta fleiri efnum inn í mæliaðferðina. Matís er stöðugt að vinna að því að auka mæligetuna og stefnir að því að vera fullkomlega samanburðarhæft við alþjóðlegar rannsóknarstofnanir,“ segir Sveinn.
Flókið ferli að þróa mæliaðferðir
„Uppsetning á tækjabúnaði á rannsóknarstofu Matís gekk vel sem og þjálfun sérfræðinga Matís í notkun þeirra,“ segir Sveinn. „Það er töluvert flókið ferli að þróa mæliaðferðir sem uppfylla alþjóðlegar kröfur um gæðaeftirlit og rekjanleika. Ferli við að þjálfa starfsfólk hefur gengið vel en þörfin til að viðhalda þekkingu og endurþjálfun er stöðug. Starfið í kringum verkefnið Örugg matvæli hefur gert okkur kleift að komast inn í alþjóðlegt tengslanet rannsóknarstofa. Það hefur líka hjálpað til að Matís hefur verið útnefnt tilvísunarrannsóknarstofa í 14 mismunandi aðferðum mælinga hér á landi.
Það er gríðarlega mikilvægt að vera í þessu alþjóðlega starfi til að viðhalda stöðugri endurþjálfun starfsfólks ásamt því að geta fylgst með örum framförum á sviði mælinga á óæskilegum efnum og örverum í matvælum og umhverfi.“
Matís er þjónustuaðili Matvælastofnunar
Matvælastofnun (MAST) var samstarfsaðili Matís í verkefninu um Örugg matvæli. „Matís þjónustar MAST við mælingar á varnarefnum, meðal annars í ávöxtum, grænmeti og korni. MAST setur saman árlega sýnatökuáætlun og sér um sýnatökur ásamt heilbrigðiseftirlitunum. Þegar sýnin koma til Matís þá fylgja sérfræðingar Matís stöðluðum verkferlum og nýta sér alþjóðlega viðurkennda aðferð við mælingar á varnarefnum sem ber nafnið QuEChERS. Eftir útdrátt eru varnarefnin svo mæld með bæði gasgreini og vökvagreini sem báðir eru tengdir tvöföldum massagreini. Fjöldi opinberra eftirlitssýna markast af sýnatökuáætlun MAST,“ segir Sveinn.
Að sögn Sveins er þjónusta einnig í boði fyrir einkaaðila, sem nýtist meðal annars til innra eftirlits. „Ástæða mælinga einkaaðila geta verið margs konar. Til dæmis vilja innflutningsaðilar tryggja gæði matvara og fylgjast með sínum birgjum, til dæmis hvort erlendir birgjar fylgi íslenskum reglugerðum varðandi notkun varnarefna. Eins geta innlendir aðilar notað þjónustu Matís til að tryggja gæði sinnar framleiðslu og/eða fylgjast með réttri notkun varnarefna og tryggja rétta verkferla í framleiðslunni.“
Hægt að mæla bakteríur en ekki sýklalyf
„Matís er tilvísunarrannsóknarstofa í sjö mismunandi örverumælingum – ásamt því að vera faggild – og mælir því magn örvera í matvælum og umhverfissýnum, svo sem salmonellu, camphylobakter og fleirum. Þessi þjónusta nýtist til dæmis opinberum aðilum eins og MAST og heilbrigðiseftirlitunum við opinbert matvælaeftirlit, en einnig einkaaðilum við innra eftirlit, rannsóknarverkefni og svo framvegis. Matís getur mælt mismunandi efnategundir og örverur, svo sem histamín, þungmálma, næringarefni og fleira. Þessar mælingar má gera á matvælum og á ýmiss konar umhverfissýnum,“ segir Sveinn.
Ekki er hægt að mæla sýklalyf í matvælum á rannsóknarstofu á Íslandi, að sögn Sveins, en á rannsóknarstöðinni á Keldum er þó hægt að greina næmi örvera fyrir sýklalyfjum.
Allar mælingar sem Matís gerir eru eign verkkaupa; ýmist vegna opinbers eftirlits – fyrir tilstuðlan MAST eða heilbrigðiseftirlita og eigendur ákveða hvort niðurstöðurnar eru birtar eða ekki. „Niðurstöður mælinga fyrir einkaaðila eru líka eign verkkaupans og hefur Matís enga heimild að opinbera þær niðurstöður. Það er mikilvægt að heilindi Matís séu ótvíræð í því samhengi og reglurnar skýrar,“ segir Sveinn.
Betri árangur í mælingum á varnarefnum
Örugg matvæli var samstarfverkefni Matís og MAST, en að auki tóku íslensk og þýsk stjórnvöld þátt í því og tvær þýskar rannsóknarstofnanir.
Ingibjörg Jónsdóttir, fagsviðs-stjóri hjá MAST, segir að mikill árangur hafi náðst með nýjum mælitækjum. „Fjöldi varnarefna sem hægt er að greina hefur aukist úr 61 upp í 185 núna á þessu ári – og enn er verið að bæta við efnum. Árangurinn kemur einnig fram í því að nú finnast oftar efni, gjarnan efni sem ekki var hægt að greina áður. Langoftast er það þó í magni innan við hámarksgildi og stafar ekki hætta af, en við vitum betur hvernig staðan er í raun hérlendis og getum brugðist við þegar efni reynast vera yfir hámarksgildum.“
Örveruástand innflutts kjöts kannað en ekki lyfjaleifar
Að sögn Ingibjargar hefur ekki verið hægt að sinna mælingum á sýklalyfjaleifum í íslensku kjöti hér á Íslandi. „Vegna þess hve verkefnið Örugg matvæli var mikið skorið niður, miðað við fyrstu áætlanir, er ekki hægt að sinna þeim mælingum hér. Í stað þess var ákveðið að fræða starfsmenn Matvælastofnunar með það í huga að tryggja að rétt sýni séu tekin miðað við áhættumat.
Þessar sýnatökur og eftirlit er í fullum gangi, eins og undanfarin ár, en rúmlega 1.000 sýni eru tekin árlega í sláturhúsum og á bæjum til greininga á lyfjaleifum og aðskotaefnum. Þessi sýni eru enn þá nær öll send utan til greiningar og það breytist því miður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Sýnin eru send á þrjár rannsóknastofur, tvær í Svíþjóð og eina í Danmörku.
Varðandi innfluttar kjötvörur þá var sett af stað rannsóknaverkefni árið 2015, í samvinnu MAST og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna, til að kanna örveruástand á innfluttu alifuglakjöti. Niðurstöður er hægt að nálgast á vef MAST (mast.is). Innflutt kjöt hefur ekki verið tekið með í eftirliti með lyfjaleifum, þar sem það eftirlit er samkvæmt löggjöfinni framkvæmt á býlum og í sláturhúsum í upprunalandinu. Það hefur reglulega komið til umræðu að taka stikkprufur af innflutningi, þó það hafi ekki verið gert enn,“ segir Ingibjörg.