Níu umsóknir um starf forstjóra Matís
Staða forstjóra Matís ohf. var auglýst laus til umsóknar á dögunum og rann umsóknarfresturinn út síðastliðinn mánudag. Níu umsóknir bárust í stöðuna.
Umsækjendur eru eftirfarandi: Anna Kristín Daníelsdóttir, Berglind Ólafsdóttir, Bjarni Ó. Halldórsson, Guðmundur Stefánsson, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Oddur Már Gunnarsson, Richard Kristinsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Steinar Sigurðsson.
Starfandi forstjóri er Oddur Már Gunnarsson sem tók við stöðunni þegar Sveini Margeirssyni var sagt upp störfum í byrjun desember á síðasta ári.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað nýja stjórn fyrir félagið sem er opinbert hlutafélag og alfarið í eigu íslenska ríkisins. Hana skipa áfram þau Arnar Árnason, Drífa Kristín Sigurðardóttir, Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, Sigmundur Einar Ófeigsson, Sigrún Traustadóttir og Sindri Sigurðsson, en nýr í stjórn er Hákon Stefánsson. Hann er lögmaður og stjórnarformaður Creditinfo og kemur í stað Sjafnar Sigurgísladóttur, fráfarandi stjórnarformanns.
Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum á sviði matvæla og líftækni í þágu atvinnulífsins, matvælaöryggis og lýðheilsu; þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu.