Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fljótlega fer ný vefverslun undir merkinu Gott og blessað í loftið sem er hugarfóstur Sveinbjargar Jónsdóttur, Jóhönnu Björnsdóttur og Önnu Júlíusdóttur.
Fljótlega fer ný vefverslun undir merkinu Gott og blessað í loftið sem er hugarfóstur Sveinbjargar Jónsdóttur, Jóhönnu Björnsdóttur og Önnu Júlíusdóttur.
Mynd / Pétur Fjeldsted
Fréttir 20. ágúst 2020

Ný kjörbúð fyrir íslenskar matvörur

Höfundur: Erla Gunnarsdóttir
Stöllurnar Sveinbjörg Jónsdóttir, Jóhanna Björnsdóttir og Anna Júlíusdóttir fara á næstu dögum af stað með nýja vefverslun, Gott og blessað, sem selur íslenskar matvörur frá íslenskum smáframleiðendum. Þar verður neytendum tryggður aðgangur að fjölbreyttu úrvali af íslenskum gæðavörum frá öllum landshlutum.
 
„Við höfum um allnokkurt skeið haft áhuga á íslenskri matvælaframleiðslu og þá sérstaklega framleiðslu smáframleiðenda úti um allt land. Í raun má segja að bændur og smáframleiðendur séu í hópi okkar bestu og virkustu frumkvöðla. Fjölbreytnin og vöruþróunin er ótrúleg en því kynnast þeir best sem eru duglegir að ferðast um landið og gefa sér tíma til þess að stoppa við og kaupa vörur beint af bændum eða beint af býli. Vandamálið er hins vegar að það getur verið erfitt að nálgast þessar vörur og fjölmargir hafa ekki fundið lausn á því hvernig þeir geta selt framleiðslu sína hér á höfuðborgarsvæðinu. Eitt er að framleiða, annað er að markaðssetja og dreifa vörunum. Það má kannski segja að þessi staðreynd sé kjarninn á bak við hugmyndina okkar. Við höfum brennandi áhuga á því að færa smáframleiðendur nær neytendum og að kynna smáframleiðendur og þeirra vörur fyrir neytendum,“ útskýrir Jóhanna en í Forðabúrinu, eins og þær kalla það, sem er vottað húsnæði og staðsett við Flatahraun 27 í Hafnarfirði, er kjöraðstaða fyrir framleiðendur til að geyma ferskar vörur ásamt frystivörum.
 
 
Íslenskt á alla staði
 
Gott og blessað verður lítil kjörbúð á netinu eða bændamarkaður sem verður opinn allt árið. Viðtökurnar hjá framleiðendum hafa verið mjög góðar og hafa Jóhanna og Sveinbjörg ferðast um landið til að reyna að hitta sem flesta.
„Önnur okkar er flugfreyja en hin er grafískur hönnuður með reynslu af því að vera smáframleiðandi. Sú reynsla var reyndar ein ástæða þess að við áttuðum okkur á nauðsyn þess að setja á laggirnar fyrirtæki sem ynni náið með smáframleiðendum til þess að tryggja sölu og dreifingu á þeirra vörum. Við byrjuðum við kaffiborðið heima en nú hefur þetta hægt og rólega vaxið og það er í raun ótrúlegt hvað við höfum mætt miklum velvilja. Íslenskt á alla staði er okkar slagorð og það er svo margt sem mælir með því. Með því að velja íslenskar vörur, og þá vörur frá smáframleiðendum, þá erum við að styðja við jákvæða byggðastefnu, við erum að draga úr kolefnisfótsporinu, við erum að tryggja heilbrigði og góða hollustuhætti, við erum að tryggja matvælaöryggi, við erum að tryggja atvinnu í landinu en umfram allt þá erum við að gera lífið svo miklu skemmtilegra,“ segir Sveinbjörg og bætir við:
 
„Við stofnuðum fyrirtækið tvær en höfum nú fengið til liðs við okkur vini og vandamenn með margvíslega þekkingu. Þar má finna matreiðslumeistara, vefsíðuhönnuð, myndasmið, sérfræðing í rafrænni markaðssetningu og sölufulltrúa. Allt frábærir einstaklingar sem hafa sama brennandi áhuga og við á því að kynna þessar frábæru og fjölbreyttu vörur fyrir neytendum. Allir þessir frumkvöðlar úti um allt land sem eru að framleiða þessar frábæru vörur hafa margir engan tíma eða jafnvel þekkingu á að sinna markaðs- og sölustarfi, hvað þá að byggja upp netsölu sem tryggir örugga og ódýra afhendingu. Þar viljum við taka við. Við störfum með aðilum sem hafa góða reynslu af því að starfrækja netsölu og afhenda vörur. Við erum með góða kæla og frysta þar sem við getum geymt vörur smáframleiðenda og selt síðan eftir þörfum. Þannig getum við fært stærsta markaðssvæðið til smáframleiðenda ef þannig má að orði komast.“
 
Sjá má nánari upplýsingar um hina nýja kjörbúð undir merkjum hennar á Facebook ásamt vefsíðunni gottogblessað.is um leið og hún fer í loftið.