Magnús Örn Sigurjónsson, nýr formaður Félags kúabænda á Suðurlandi, og Hugrún Sigurðardóttir í fjósinu í EystriPétursey í Mýrdalshreppi.
Magnús Örn Sigurjónsson, nýr formaður Félags kúabænda á Suðurlandi, og Hugrún Sigurðardóttir í fjósinu í EystriPétursey í Mýrdalshreppi.
Mynd / Aðsend
Fréttir 27. mars 2025

Nýr formaður kúabænda á Suðurlandi

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Magnús Örn Sigurjónsson, kúabóndi í Eystri- Pétursey í Mýrdalshreppi, er nýr formaður Félags kúabænda á Suðurlandi.

Hann tók við formennskunni af Aðalbjörgu Rún Ásgeirsdóttur á Stóru-Mörk í Rangárþingi eystra á aðalfundi félagsins 3. mars í Hvolnum á Hvolsvelli. Magnús Pétur er 29 ára og hefur alltaf búið í EystriPétursey. Hann býr með Hugrúnu Sigurðardóttur, sem er frá Akureyri, og eiga þau soninn Sigurð Árna, sem er eins árs gamall. Á bænum búa einnig foreldrar Magnús þau Sigurjón Eyjólfsson og Kristín Magnúsdóttir.

„Á bænum er mjólkurframleiðsla með 55 árskýr og nautaeldi. Í nóvember 2023 tókum við í gagnið nýjan Lely A5-mjaltaþjón, sem ég tel mikið framfaraskref bæði fyrir menn og dýr,“ segir Magnús. „Kornrækt er stunduð á bænum og ég er alltaf að prófa mig áfram í henni með betri og betri árangri. Svo fær konan að vera með 20 litríkar kindur og hænur,“ segir Magnús Örn hlæjandi.

En hvernig leggst nýja embættið í hann? „Ég er spenntur fyrir komandi tímum þótt það sé mikið verk fyrir höndum. Ég vonast til að geta aukið samstöðu meðal kúabænda, enda tel ég að samstaða bænda sé lykilatriði til þess að koma greininni á betri stað. Þá þarf einnig að auðvelda nýliðun í greininni. Landbúnaður á að vera spennandi valkostur fyrir ungt fólk. Ég er mikill áhugamaður um að auka innlenda fóður- og matvælaframleiðslu og tel að kornræktin sé spennandi tækifæri hvað það varðar,“ segir Magnús Örn.