Nýtt og glæsilegt fjós á Hvammi í Ölfusi
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Byggingin gjörbreytir allri aðstöðu hjá okkur, við erum í skýjunum með nýja fjósið og ekki síður kýrnar og nautgripirnir sem eru komnir inn í það, þetta er draumur sem er orðinn að veruleika,“ segir Pétur Guðmundsson, bóndi á Hvammi Í Ölfusi.
Nýja fjósið sem hann var að taka í notkun er 830 fermetrar að stærð, legubásafjós með geldneytaaðstöðu, sambyggt eldra fjósi.
Pláss er fyrir 67 kýr en nýja fjósið er hannað með aðstöðu fyrir mjaltaþjón þótt hann sé ekki kominn. Haughús er undir öllu húsinu. „Við munum nota eldra fjósið fyrir sjúkra- og kálfastíur. Tilgangurinn með nýja fjósinu er að bæta alla aðstöðu fyrir kýrnar og framleiðsluna, bæta vinnuaðstöðuna og mæta auknum kröfum sem nýjar reglugerðir kveða á um,“ bætir Pétur við.
Charlotte Clausen og Pétur á Hvammi eru hæstánægð með nýja fjósið sem Stefán Helgason og hans starfsmenn hjá verktakafyrirtækinu Kríutanga byggðu á sjö mánuðum. Húsið kostar eins og gott einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu.